Það er mikil bjartsýni og uppbygging fyrir vestan. Ólíkt því sem var fyrir 20 árum síðan, þegar segja má að einungis ein grein frumframleiðslu—fiskveiðar- og vinnsla—hafi verið burðarás efnahagslífsins, hafa þrjár sterkar stoðir bæst við. Atvinnuleysi er lágt og fasteignaverð fer hratt upp. Nú í kringum áramót er tilefni til að líta til baka á stóru drættina í atvinnumálum á Vestfjörðum.
McKinsey fyrir Vestfirði
McKinsey-skýrslan fræga frá 2012, setti fram á skýran hátt áskorunina sem landið stóð frammi fyrir á eftirhrunsárunum. Útflutningsverðmæti Íslands voru þar greind niður í fjóra meginflokka; fiskveiðar, orkufrekan iðnað og ferðaþjónustu, og sá fjórði var uppsóp af útseldri vöru og þjónustu. Eitthvað nýtt þyrfti til að rífa útflutningsverðmætin upp; fiskveiðar og orkufrekur iðnaður takmörkuðust af náttúruauðlindum og ferðaþjónusta markast af lágum hagnaði og lítilli framleiðni.
Brýningin var góð en að ýmsu leyti gekk þessi spá ekki eftir. Þeir liðir sem þau héldu að myndu standa í stað gerðu það ekki heldur stækkuðu mjög. Landsvirkjun endursamdi við stóriðjuna og stórjók tekjur sínar án þess að virkja tiltakanlega mikið. Ferðaþjónusta jókst gríðarlega og þó mannaflsfrekur rekstur í hálaunalandi sé erfiður, virðist mörgum fyrirtækjum hafa tekist að ná þokkalegum hagnaði af sínum rekstri. Hugverkaiðnaðurinn efldist einnig og nú er Ísland meðal tekjuhæstu landa heims.
En hvað ef McKinsey gerði sömu greiningu fyrir Vestfirði í dag, hvernig liti hún út?
Orkuna vantar og Baader hættir
Vestfirðir hafa alla tíð verið fremur aftarlega á merinni þegar kemur að orkumálum. Jökullinn okkar liggur lágt og er óhagkvæmur til virkjunar, jarðhiti er lítill …