Ravi Batra, hagfræðiprófessor við Southern Methodist University (SMU), hefur mótað umræðu um efnahagslegar áskoranir samtímans með framsýni og skýrleika, oft í andstöðu við sterk hagsmunaöfl. Fyrir vikið hefur hann ekki fengið þá viðurkenningu sem hann á skilda. Hagfræðilegu framlagi hans má skipta í tvo meginþætti:
a) greiningu á vaxandi ójöfnuði og áhrifum á fjármála- og hagsveiflur,
b) rannsóknum á fríverslun og útvistun framleiðslu til láglaunalanda, sem lækkaði raunlaun milljóna starfsmanna í hátekjuríkjum.
Með kennisetningum um „launa-framleiðnibil“ og „samkeppnis-verndarstefnu“ hefur Ravi Batra lagt fram heildstæða nálgun til að takast á við þessar áskoranir. Hugmyndirnar eru jafnframt hluti af kennifræðilegu líkani hans, klassí-keynesísku líkani, sem lagar galla fyrri hagfræði líkana.
Upphaf ferils og fræðilegar rætur
Fæddur á Indlandi árið 1943, flutti Ravi Batra tvítugur að aldri til til Bandaríkjanna til náms í hagfræði. Frami hans var skjótur, en þrítugur var hann æviráðinn sem prófessor og skömmu síðar skipaður forseti hagfræðideildar SMU. Batra hóf feril sinn sem sérfræðingur í alþjóðaviðskiptum og öðlaðist snemma viðurkenningu sem framúrskarandi fræðimaður á sviði alþjóðahagfræði með bókum sínum Rannsóknir í hreinni kenningu alþjóðaviðskipta (1973) og Hrein kenning alþjóðaviðskipta við skilyrði óvissu (1975).
Áhugi hans færðist seinna yfir á félagslega og sögulega ferla, byggt á hugmyndum indverska hugsuðarins P. R. Sarkar, sem setti fram kenninguna um lögmál félagsferla í bók sinni Mannlegt samfélag (1959). Sarkar hélt því fram að samfélög þróist í hringrásum, knúin áfram af valdastéttum. Í …