Til baka

Grein

Fullveldi – hvað er nú það?

Fyrri hluti - um fullveldishugtakið og þróun þess á alþjóða vísu

Fullveldi - Jón Sigurðsson
Frá Hrafnseyri við Arnarfjörð þar sem Jón Sigurðsson sjálfstæðishetja Íslendinga fæddist árið 1811 en andlitsmynd hans er í vatnsmerki á íslenskum peningaseðlum auk þess sem myndir af honum prýða 500 króna seðilinn bæði á fram- og bakhlið.
Mynd: Ásgeir Brynjar

Það slagorð sem hvað dýpst spor hefur skilið eftir sig í sögu álfu okkar síðastliðna hálfa öld er tvímælalaust heróp Brexitsinna, get back control. Þeir náðu marki sínu og drógu Bretland úr ESB. Hvort það gagnast þjóðum Bretlands eða styrkir stöðu þeirra í heiminum, þegar fram í sækir, á eftir að koma í ljós. Svipuð slagorð hafa heyrst hérlendis varðandi rómað fullveldi okkar og þann meinta afslátt frá því, sem sagður er gefinn með EES samningnum. Forystumenn Brexitsinna lofuðu því að heilbrigðis- og almannakerfin yrðu styrkt með peningum sem ella færu í Brusselhítina. Þeir lofuðu þjóð sinni gulli og grænum skógum, ef hún myndi róa ein á báti framvegis. Heitorðin hrifu. Hrunið heimsveldi endurheimt. Ekki gekk það nú samt alveg eftir. Þeir sögðu ósatt, svo notað sé gætilegt tungutak.

Í umbrotasömum heimi þar sem morgundagurinn boðar breytingar frá því sem gærdagurinn gekk út frá; sannindi fyrri kynslóða látin hljóma sem bábiljur; samningar þjóða á millum fótum troðnir; greinarmunur þess sanna og hins logna verður sífellt ógreinilegri; stríðsárás og stríðsglæpir ekki talin ámælisverð, en stríðsvarnir fordæmdar sem hver annar ófriður; loftlagsvánni sem verður háskalegri og greinilegri með hverju ári er afneitað: hvernig skal þá ljóð kveða, svo vitnað sé til Jóhannesar úr Kötlum?

Sú bylgja stífrar hægri stefnu sem nú gengur yfir mörg Vesturlönd er Brexitmarki brennd. Þjóð ein á báti er sögð sterkari en margar saman sem áhöfn á skipi. Leitað er lausna í harðleiknum aðferðum sem virðast liggja á borðinu og jafnframt skrumað um þjóðhyggju. Horfið skal frá hnattvæðingu, og dregið úr alþjóðlegum tengslum. Styrking eigin fullveldis er meginstefið. Þið vitið hvaðan það kemur!

Þessu fylgir ógeðfellt Pútíndekur. Sá sterki skal ráða, sá veikari skal víkja. „Önnur leið fyrir Þýskaland” (AfD) lofar að endurreisa fyrri styrk þýska ríkisins á eigin forsendum án afskipta og málamiðlana ESB, önnur ríki verði að taka tillit til þess! Útvatna skal Schengensamkomulagið, styrkja landamæravörslu og endurvekja vegabréfaskyldu. Flóttafólki ber að vísa til síns heima. Þetta endurómar einnig hér heima. Meginþungi málflutnings þessara hægri afla er þó að veikja bæði ESB og SÞ sem og NATO. Engar gagnkvæmar fjölþjóðlegar skuldbindingar. Bara tvíhliða samningar og forgangsréttur hins sterka. Fullveldi smærri þjóða er aukaatriði!

Er þjóðveldið enn þá fullvalda?

Framangreindar áherslur hinnar evrópsku hægri sveiflu eru algengastar um þessar mundir. Um margt líkist þetta upplausn Þjóðabandalagsins sáluga og þjóðernisvæðingu álfunnar milli heimsstríðanna. Valda- og landakröfur Hitlers gagnvart nágrönnum sínum. Allir þekkja endalokin. Pútín gerir svipað tilkall . Þjóðernishyggjan er hættulegasta leikfang stjórnmálanna, því hún kveikir auðveldlega hugarfár og er ætíð á kostnað hinna sem ekki tilheyra Þjóðinni. Þjóðernið og ljómi þess, hvar sem er á hnettinum, en einnig hér heima, er notað til að verja sérhagsmuni og hygla valdaríkum hópum eða loka atvinnurekstri gegn samkeppni að utan. Um leið og búið er að segja einhverja framleiðslu íslenska þá er hún komin á verndarstall. Norskur lax og amerískt hveiti verða íslensk og álið þjóðargersemi.

Hvernig svo sem framhald heimsmála þróast, þá er ljóst að umbreytingin frá samningsbundnum, málamiðlandi samskiptum ríkja til einhliða ákvarðana þeirra sterkari, er komin á dagskrá. Þúsund ára gamlar helgisagnir teknar sem viðmið og ríkjum sett markmið í anda liðinna frægðartíma. Réttur þess sterka að fara sínu fram er ekki lengur fordæmdur af öllum þjóðum. Voldugu ríkin hafa gjarnan eigið fullveldi sem yfirvarp, og réttlæta framferði sitt með sjálfsákvörðunarrétti sínum. Þær séu fullvalda og megi því fara sínu fram. Það sé svo annarra að bregðast við. Rússar, með útbólgið fullveldið að vopni, töldu sig hafa rétt til að ráðast á aðrar þjóðir sem þeir sjálfir höfðu hátíðlega og samningsbundið viðurkennt sem fullvalda og sjálfstæðar. Í þjóðlegu fullveldi er því brigðul vernd.

Svo eru aðrar þjóðir sem telja fullveldi sínu best borgið með samningsbundnum gagnkvæmum takmörkunum á því og deila eigin fullveldi gegn hlutdeild í fullveldi annarra, einkum stærri ríkja. Með því að deila eigin fullveldi með þeim voldugri verður auðveldara að verja eigin þjóðarhagsmuni. Þetta uppgötvuðu margar austurevrópskar þjóðir og þyrptust því inn í ESB. Sama tilfinning var uppi á teningnum hjá öðrum smærri þjóðum álfunnar, sem í aldanna rás höfðu orðið fyrir yfirgangi stærri nágranna. Þegar við Íslendingar unnum að gerð EES samningsins var það samstaða annarra samningsþjóða með málstað okkar, einkum í málum sjávarútvegsins, sem skipti sköpum.

Danir afsöluðu sér óskoruðu fullveldi gegn því að fá í staðinn hlutdeild í fullveldi Þýskalands og annarra sambandsríkja ESB. Þannig treystu þessar þjóðir sig innbyrðis og gagnvart utanaðkomandi ríkjum. Þetta er á svipaðri bylgjulengd og segir í sáttmála NATO. Allir bera ábyrgð ef ráðist er á einn.

Fullveldishugtakið þróast

Nú þurfum við að skoða stöðu okkar Íslendinga að nýju. Þungamiðja stefnu landsins allt frá átökunum um uppkastið (1908), hefur snúist um hugtakið fullveldi.

Hugsmíð sem rekur uppruna sinn aftur til ársins 1648 (Westfalen friðurinn) sem stöðutákn óháðs ríkis meðal ríkja með margs konar valdatengingar. Er það enn nothæft sem stöðutákn og sem forsenda athafna ríkja? Fellur það lengur að því fjölþjóðlega umhverfi sem við erum hluti af? Við urðum fullvalda árið 1918, en þjóðhöfðinginn var erlendur og utanríkismálin formlega í höndum erlends ríkis. Árið 1944 urðum við sjálfstæð, en sömdum skömmu seinna um að fela erlendu ríki varnir landsins.

Við erum smæst þjóða og liggjum langt frá öðrum þjóðum þótt Evrópa og Ameríka mætist landfræðilega hér. Íslenska þjóðin telur sig í senn vera bæði fullvalda og sjálfstæða. Allt frá árinu 1944 hefur þó kvarnast úr fullveldinu, ef viðmiðið er ítrasta skilgreiningu þess. Við höfum undirgengist margvíslegar skuldbindingar á sviði alþjóðamála sem takmarka framgöngu okkar og atferli og hefur þar með áhrif á fullveldi okkar. Sáttmáli Sameinuðu þjóðanna, NATO samningurinn ásamt varnarsamningnum við BNA, skuldbindingar EFTA, Hafréttarsáttmáli SÞ, EES samningurinn og ýmsar greinar hans; Mannréttindadómstóll Evrópu o.s.frv. Við erum hluti af þéttriðuðu neti Evrópuríkja (og BNA) sem ofið hefur verið af vandvirkni og tillitssemi. Hendur okkar eru bundnar á margvíslegan hátt. Svo langt hefur afsalið gengið að varnir landsins eru, eins og áður segir, í höndum vinveitts heimsveldis. Eitt mikilvægasta fullveldis einkenni hverrar fullvalda þjóðar voru og eru eigin varnir. Þær þjóðir sem ekki gátu varið eigið fullveldi voru og eru öðrum háðar. Við skulum því ætíð vera þess vel minnug að heimsveldi eiga enga varanlega vini, aðeins tímabundna bandamenn. Þar getur skjótt skipast veður í lofti. Á hvaða pólitíska útskeri lendum við, ef NATO verður gjörbreytt eða leyst upp? Tvíhliða varnarsamningur (án NATO) við BNA gæti á örskömmum tíma gert landið að leppríki. Leggjum aldrei hlustir við fagurgala. Við þurfum fjölþjóðlegar, gagnkvæmar skuldbindingar. Allir fjölþjóðlegir samningar sem skuldbinda gagnkvæmt skerða um leið og þeir auka fullveldið, þótt það hljómi annkanalega. Þeir skerða ítrasta fullveldi en styrkja sameiginlegt fullveldi, sem við erum aðilar að.

Sameiginlegt fullveldi aðildarríkjanna styrkir fullveldi einstakra meðlima. Það verndar gegn misbeitingu og yfirgangi annarra ríkja, einkum þeirra stærri. Þau voldugri skuldbinda sig líka, hendur þeirra eru bundnar að marki, og það er okkur mikilvægara en þeim stærri. Íslenskir stjórnmálamenn skynjuðu kall tímans. Þeir komu vissulega stundum seint til leiks, en ekki of seint. Fullveldið var enn lifandi, aðlögunarhæft hugtak.

Tímahvörfin eru vissulega orðin hraðari. Breyturnar umhverfast skjótar. Tíminn nennir ekki að bíða. Ekki einu sinni eftir okkur Íslendingum.

Okkar eigin hugarheimar drattast, þegar best lætur í humátt á eftir atburðarrás sögunnar. Var það ekki Gorbachev sem sagði þau örlagaþrungnu orð til steinrunninna félaga sinna í Austur Berlín, að tíminn refsi þeim sem skynji ekki breytingar hans. Þeir glutruðu niður því sem eftir var af ákvörðunarrétti sínum. Þeir komust ekki upp úr hjólförum þeirrar sjálfsmyndar sem þeir höfðu talið sér trú um frá stofnun ríkisins. Skurðgoð hugmyndafræði þeirra heftu huga og athafnir. Ríki þeirra hvarf af yfirborði jarðar. Hvar erum við stödd með eigin rykfallna hugmyndafræði um stöðu íslenska ríkisins?

Ein gleggsta birtingarmynd staðnaðar fullveldisdýrkunar er fastheldni þjóðarinnar við krónuna, þótt löngu sé ljóst að á undanförnum áratugum hefur hún skaðað þjóðina efnahagslega og á mikinn þátt í því að lífskjör almennings hér á landi eru á mörgum sviðum verri en í nágrannalöndunum. Uppsafnaðar verðhækkanir til áratuga sem komu í kjölfar gengislækkana, gera verðlag hér hærra og framfærslu dýrari en í nágrannalöndum. Reiknað hefur verið út að krónan kosti okkur daglega yfir einn milljarð í auka útgjöldum. Skiptikostnaður vegur þar þyngst.

Krónan er ótvíræð viðskiptahindrun og hemill á efnhagslegt heilbrigði. Hún ýtir undir fákeppni, ójafnræði og misrétti.

Í framhaldsgrein er nánar fjallað um krónuna.

Næsta grein