Íslendingar glíma nú við vanda sem þeir vilja ekki gangast við. Neita að skilja hve gjaldmiðillinn er nauðsynleg kjölfesta í sérhverju markaðskerfi. Við erum vön því að líta á hann sem tæki til að jafna út sveiflur aðallega tengdar sjávarútvegi en einnig í kjaramálum til að auka peningastreymi til útflutningsatvinnuvega. Stór hluti fyrrnefnds skilningsleysis sem hér ríkir liggur í þessari sannfæringu.
En íslenska krónan er ekki bara þjóðlegur gjaldmiðill. Hún er í hugum margra ekkert síður tákn fullveldis. Það er ein af skýringum þess hve ósnertanleg hún er, þótt ekki fari það fram hjá flestum að hún sé til mikilla óþurfta fyrir efnahag landsins, afkomu fólks og þjóðlíf. Meðan viðskiptin við útlönd voru háð leyfum og opinberir aðilar athafnasamir við verðmyndun á íslenskum útflutningsvarningi, lék krónan algjört aukahlutverk. Í okkar alþjóðlega markaðsbúskap er krónan hins vegar í aðalhlutverki, án þess að hafa burði til að gegna því. Hún þarf að vera kjölfesta sem athafna- og fjármálalífið snýst um en ekki öfugt eins og hún gerir nú. Og vandi þjóðarinnar er ekki sá að finna leið til að laga krónuna að breyttu umhverfi, því það er kelduleið en ekki krókur. Krónan er einfaldlega of lítill gjaldmiðill. Hún skröltir inn í of stóru skapalóni. Í öflugu og vaxandi efnahagslífi, við alþjóðlegt fjármálafrelsi og baráttu um samkeppnishæfni á erlendum mörkuðum er krónan klafi.
Af hverju skyldu Færeyingar hafa glímt við verkföll í einhverjar vikur, ef kelduleiðin hefði verið þeim fær og þeir getað samið um hækkun launa óháð getu atvinnuveganna, ef í framhaldinu hefði verið hægt að jafna tekjustreymið með gengissigi ? Gengið er tæki sem hvorki var í verkfæraskáp færeyskra viðsemjenda né landstjórnarinnar. Dansk/færeyska krónan er utan áhrifasvæðis efnahagslífs eyjaskeggja. Það var kjarninn ósnertanlegi. Þeir vissu að þeir urðu að gera alvöru kjarasamninga án aðstoðar gengisigs eða aukinna ríkisútgjalda. Það mun skila Færeyingum heilbrigðara efnahagslífi. Svipað gildir um Dani. Danska krónan er bundin evrunni. Athyglisvert er hve hinir frjálsu gjaldmiðlar á Norðurlöndum hafa látið undan síga. Danska krónan trónir þar efst og danskt efnahagslíf þar með.
Íslenskir kjarasamningar eru algjört einsdæmi, að því leyti að þeir eru að stórum hluta gerðir við ríkisvaldið í formi félagsmálapakka. Ástæðan er helst sú að frjáls króna gerir aðilum vinnumarkaðsins ókleyft að semja án aðkomu hins opinbera. Krónan myndi strax gefa eftir og þar með kaupmátturinn. Launafólki er heitið tímabundnum kjarabótum gegn samdrætti ríkisútgjalda á öðrum sviðum almannarýmisins, því hvers konar skattahækkanir eða auðlinda greiðslur eru bannorð. Enginn á meira undir því en almennt launfólk að fá kjölfestu undir efnahagslífið með alvöru gjaldmiðli. Þessi aðferð vegur að almannarýminu og geldir innviði. Ríki sem hafa kenningar nýfrjálshyggjunnar sem leiðarljós eru öll með laskaða innviði.
Krónan í eftirmálum Hrunsins
Örðugt hefur reynst að útlista fyrir okkur sjálfum hver sé megin skýring þess, hvað það tók okkur stuttan tíma að fá svokölluð hjól atvinnulífsins til að taka við sér á ný, eftir áfallið mikla 2007-2009. Þar á krónan enn marga aðdáendur.
Enn eru á ferli ofmat og vanmat einstakra þátta. Krónan var mikill örlagavaldur síðustu árin fyrir Hrun. Átti sinn stóra þátt í að framkalla sjálfar hörmungarnar. Var á árunum fyrir 2009 stjórnlítill gjaldmiðill. Hún var í reynd í gíslingu en jafnframt leiksoppur, skotspónn útrásarvíkinganna svokölluðu, sem véluðu með hana að vild.
Stórframkvæmdir (Kárahnjúkar og Reyðarál) ásamt miklu innstreymi erlends fjármagns styrktu krónuna. Viðskiptahallinn við útlönd varð nánast óviðráðanlegur. Vöxtum var haldið háum til að draga að landi erlent fjármagn, því gjaldeyri þurfti til að borga innflutning og afborganir. Það kom mönnum í koll seinna. Í stað þess að vera klettur í ólgandi hafi sviftinga og óstöðugleika, skondraðist krónan til og frá og jók á vandann. Stóru innlendu gerendurnir á fjármálamörkuðunum nýttu sér þennan veikleika út í æsar til að skara enn meiri eld að eigin kökum.
Krónan varð óprúttinni spákaupmennsku að bráð. Afleiðingin var að bólan sprakk. Krónan féll um 30 - 40%. Óstöðugleiki og leiksoppseðli hennar áttu stóran þátt í sjálfu fjármálahruninu. Gengisfellingin olli umtalsverðri hækkun á verðlagi neysluvöru almennings. Ekki má svo gleyma þeirri vaxtahækkun sem hrun krónunnar leiddi af sér. Há verðbólga varð að tryggum fylgifisk. Allt þetta lenti með miklum þunga á almenningi. Almenningur og fyrirtæki sátu síðan uppi með verðtryggð lán og óyfirstíganlegan vanda. Án krónunnar hefði þetta ekki getað gerst. Þegar leitað var í eftirmálum Hrunsins eftir lánum frá vinaþjóðum kom í ljós að vantrúin á þetta krónusvika hagkerfi okkar var slík að ríkisgjaldþrot gat verið við næsta horn. Hinir sem áttu viðskipti sín og eignir í evrum eða dollurum, högnuðust ótæpilega. Misskipting tekna og eigna stórjókst.
Viðreisn efnahagslífsins
Athugum nú hver þáttur krónunnar var í viðreisn efnahagslífsins eftir þær hörmungar sem hún sjálf átti stóran þátt í að skapa. Hrunið skildi fjármálamarkaðinn eftir nánast í rúst. Megin atvinnugrein landsins sjávarútvegurinn varð ekki fyrir öðrum áhrifum af gengishruni krónunnar en þeim, að útflutningstekjur hans hækkuðu, fleiri fiskar voru ekki að landi dregnir. Því olli stjórnkerfi fiskveiða. Útgerðirnar högnuðust þegar fiskurinn var síðan seldur í evrum eða dollurum. Launagreiðslur urðu léttvægari. Enn annar atvinnuvegur var bygginga- og mannvirkjagerð. Sú grein laskaðist verulega og það tók hana mörg ár að ná aftur vopnum sínum. Gengisfall krónunnar hjálpaði þar lítt, því vinnuvélarnar sem nú voru falboðnar höfðu verið keyptar með veði í gjaldeyri. Á landbúnað hafði þetta þau áhrif að veðlán hans hækkuðu.
Á árunum eftir Hrun jókst ferðamannaiðnaður hér. Eflaust hefur ódýr króna aðstoðað þar, þótt sumir telji Eyjafjallajökul stærri og varanlegri áhrifavald. Ríkisgreiddar stór auglýsingar erlendis ásamt átaki flugfélaga voru þarna einnig að verki. Það auðveldaði endurreisnina að milljarðar af skattlausum fjármunum (svokallað Tortólafé) var hleypt inn í landið á hagstæðu gengi.
Kjör almennings hríðversnuðu og það tók heilan áratug að ná viðhlíta kjörum og fyrir Hrun. Fimmtán árum eftir Hrun eru vextir hér afar háir og ekki hefur tekist að koma böndum á verðbólguna. Krónan var og er almenningi þung byrgði.
Gengisfelling krónunnar hafði margvísleg önnur skaðleg áhrif á íslenskt þjóðlíf og efnahag , einkum þó meiri ójöfnuð og hærra almennt verðlag, sem ekki gekk til baka þó krónan hresstist ögn. Nú veldur þetta uppsafnaða háa verðlag bæði þrengingum í ferðaiðnaði sem og í samkeppnihæfi íslenskrar vöru erlendis.
Af framanskráðu má ljóst vera að áhrif krónunnar í endurreisn efnahagslífsins eftir Hrun eru stórlega ofmetin. Það er röng ályktun, eins og margir halda fram, að sveigjanleiki krónunnar hafi skipt mestu máli.
Í umræðunni hérlendis um samanburð á árunum eftir Hrun hefur því verið haldið fram að hinn kostur okkar, evruleiðin, hefði þýtt stöðnun og varanlegt mikið atvinnuleysi. Hvað er hæft í því ?
Stærð þjóða og gjaldmiðla
Þjóðir sem búa við stóra alþjóðlega gjaldmiðla geta ekki tryggt hátt atvinnustig með því að beita gengisvopninu. Þetta vissu frændur okkar Færeyingar. Meðal sumra meðlimaríkja ESB var glímt við stöðnun og atvinnuleysi til margra ára. Þar hefur evrulöndunum gengið misvel að læra nýtt áralag eftir að búið var að gera gengisvopnið óvirkt. Þau lönd sem búið höfðu við sterkan gjaldmiðil (norður hluti ESB) lentu ekki í miklum erfiðleikum samanber Þýskaland, Finnland, Holland og fleiri. Hinum sem stóðu frammi fyrir nýjum veruleika fataðist flugið. Mörg þeirra flúðu í ódýr, breytanleg lán, sem urðu þeim flestum dýrkeypt. Agaleysi í ríkisfjármálum og óábyrg launastefna verða ekki lengur leyst með gengisbreytingum. En megin munur á krónu- og evruhagkerfi er sá að almenningur í ESB þurfti ekki að borga Hrunið eins og íslenskur almenningur var neyddur til.
Hvaða hagstjórnartæki hefur þjóð sem búin er afsala sér gengistækinu? Þótt evran hafi eitt og sama gengið, þá reynist vaxtastig vera mishátt eftir löndum? Vextir á evrusvæðinu eru því að marki hagstjórnartæki. Ríkisfjármál, þar með skattamál hvers lands fyrir sig, verða mikilvægustu verkfærin til framgangs eigin hagþróunar.
Sé skuldastaða viðkomandi ríkis slík að afborganir og vaxtagreiðslur sogi til sín stóran hluta ríkistekna, þá verða flest verkfæri bitlaus. Á því hefur mörgum þjóðum skrikað herfilega fótur. Í stað aðgerða vildu þau fara kelduleið, fá meiri lán sem vitað var að þær voru ófærar um að endurgreiða.
Þegar megin þungi aðildarumsókna fyrrum kommúnista ríkja gekk yfir, eftir hrun Sovétríkjanna, voru það einkum pólitísk sjónarmið sem hvöttu til hraðrar aðildar. Sum þessara ríkja voru ekki undir það búin að takast á við gjörbreytt og vandasamara hagstjórnar umhverfi. Þegar svo sameiginlegur gjaldmiðill var innleiddur kunnu þessi lönd mörg hver ekki áralag þeirra viðbragða sem nauðsynleg voru. Of mörg þeirra lentu í langvarandi stöðnun og miklu atvinnuleysi. Þessu fylgdi þó ekki nein sú viðlíka kjararýnum sem varð hérlendis. Í mörgum öðrum löndum m.a. í stærsta hagkerfi ESB Þýskalandi varð kjararýrnun ekki umtalsverð. Ef kjölfestan, gjaldmiðillinn, er traust er auðveldara að taka á vanda og fást við áskoranir og erfið viðfangsefni. Þannig er það einnig til sjós.
Við getum fylgst með framgangi slíks kerfis bæði á Grænlandi og í Færeyjum, sem hvorugt hefur sjálfstæðan gjaldmiðil. Danmörk er einnig ágætis fyrirmynd.
Krónan sem fullveldisógn
En eins og fyrr segir þá gengdi íslenska krónan einnig því hlutverki að vera fullveldistákn. Það skýrir ekki hvað síst fastheldni þjóðarinnar við krónuhagkerfið. Einnig koma þar til sögunnar rótsterkir sérhagsmunir. Innprentað var að án eigin gjaldmiðils væri ekkert fullveldi. Þetta var leiðarljós nýríkja á ofanverðri nítjándu öld og lengi framan af þeirri tuttugustu. Sérhver þjóð skyldi sjálf ákveða skiptihlutföllin milli síns eigin þjóðlega hagkerfis og erlendra.
Við áttum það sameiginlegt með fyrrum austantjaldsríkjunum að þjóðlegir gjaldmiðlar þeirra voru eingöngu til heimabrúks, ónothæfir sem gjaldeyrir til nota í útlöndum. Miðjarðarhafsþjóðir Evrópu voru einnig flestar með gjaldmiðla sem notaðir voru til tekjutilfærslna innanlands.
Í þann tíð takmörkuðust viðskipti flestra ríkja að mestu við eigin landamæri. Tvær heimsstyrjaldir, sigurganga alþjóðlegra markaðskerfa, stofnun evrópska ríkjasambandsins (ESB) og hnattvæðingin hafa gjörbreytt stöðu sjálfstæðra evrópskra gjaldmiðla. Þeir urðu áhættustuðull sem batt efnahagskerfi þessara landa á klafa stöðugra evrópskra gjaldmiðla, aðallega þýska marksins.
Við töluðum um íslensku krónuna annars vegar sem stoltan þjóðargjaldmiðil, en sóttumst hins vegar eftir alvöru gjaldeyri, sem krónan var og er ekki. Í þeim flokki voru gjaldmiðlar sem nýst gátu við erlend viðskipti. Enn er svokölluð gjaldeyrisöflun talin réttlæta ívilnanir umfram heimamarkaðs atvinnurekstur. Nú hafa flest allar fyrrnefndar þjóðir kastað heimagjaldmiðli sínum og tekið upp evru.
Krónan var notuð til að glíma við afleiðingar sveiflukennds atvinnulífs í stað þess að takast á við sveiflurnar á raunhæfan hátt. Nú eru fyrrum áhættuþættir íslensks efnahagslífs að mestu leyti horfnir. Stjórnkerfi fiskveiða er verkfæri sem gerir okkur kleift að stýra sókn í fiskistofnana. Ef við ofveiðum loðnuna þá er það eigin sök og skaðlegt að fikta við gengið þess vegna. Full þátttaka í stærsta markaði heims (EES) jafnar sveiflur í verði bæði inn- og útflutnings.
Krónuhagkerfið
Við kúldrumst þó áfram með krónuhagkerfi sem festir í sessi og safnar upp öllum verðhækkunum sem gerðar eru í viðskiptum hérlendis. Við aukum enn við það með útvötnun samkeppnisákvæða. Krónan þvingar engan til aðhalds eða samkeppni. Hún virkar þveröfugt. Ætli við myndum ekki losa okkur við fjárhund sem er löngu hættur að smala vegna fjárleysis á bænum. Þess í stað glefsar hann og bítur í tíma og ótíma. Við búum enn fimmtán árum eftir Hrun við hæstu vexti meðal siðmenntaðra vestrænna þjóða og háa verðbólgu sem ekki sér fyrir lendan á. Hætt er við að hvort tveggja verði landlægt áfram. Þökk sé íslensku krónunni. Hún var einn af aðalleikurum í Hruninu. Hún gæti orðið það aftur.
Útlendingar stofna hér ógjarnan til rekstrar nema í tengslum við náttúruauðlindir sem þeir vilja komast yfir. Þeir vilja ekki taka áhættuna á að brenna inni með íslenskar fjárfestingar sína.
Mörg af stærstu fyrirtækjum landsins færa reikningsskil í erlendum gjaldmiðlum. Þau starfa því viðskiptalega að mestu utan eða til hliðar við hagkerfi íslensku krónunnar. Almenningur ber kostnað hennar, hækkað verðlag og sífellda varðstöðu um kaupmáttinn, háa stöðuga vexti, mikla verðbólgu, samkeppnisrýran vörumarkað, rándýra innlenda matvöru og óhagstæðan skiptikostnað í viðskiptum og ferðalögum erlendis. Hverjum þjónar svona kerfi?