Til baka

Grein

G7-löndin og BRICS-löndin: Hver er staðan?

Síðari hluti - fyrri hluti birtist fyrir tveimur vikum með sama titli

h_57627241
Mynd: Unsplash

Við höldum áfram samanburði G7-landanna sjö og BRICS-landanna fimm. Tökum einn mikilvægan þátt efnahagsmála til sérstakrar skoðunar: Erlend viðskipti.

Þrátt fyrir Kína og Indland, sem bæði eru mikilvirkir iðnvöruframleiðendur, er iðnvöruútflutningur lægra hlutfall af heildarútflutningi í BRICS-ríkjunum að meðaltali (48%) en í G7-ríkjunum (66%), sjá mynd 9. Fjölbreyttur útflutningur vitnar um getu fyrirtækja til að framleiða vörur og þjónustu sem aðrar þjóðir girnast. Rússar hafa ekki enn komizt upp á lag með þetta; þess vegna ekur Pútín forseti um á Mercedes Benz og Lavrov utanríkisráðherra notar iPhone. Hvaða rússneskar iðnvörur kaupir þú, lesandi minn góður? Kannski vodka? – sem er að vísu landbúnaðarvara. Iðnvarningur nam 13% af heildarútflutningi Íslands 2022.

Mynd 10 lýsir fjölbreytni útflutnings eftir vöruflokkum. Finger-Kreinin-vísitalan á myndinni er hlutfallsleg vísitala sem nær frá 0 (óskoruð fjölbreytni) upp í 1 (engin fjölbreytni). Þessi vísitala lýsir samsetningu útflutnings eftir vöruflokkum í ólíkum löndum með því að meta að hve miklu leyti samsetningin í hverju landi er frábrugðin heimsmeðaltali. Myndin sýnir að útflutningur frá G7-löndunum þar sem meðalvísitalan er 0,33 er fjölbreyttari en útflutningur frá BRICS-löndunum með vísitöluna 0,53 – og frá Íslandi með vísitöluna 0,78. Fjölbreytni útflutnings firrir almenning hættunni á ofurveldi sterkra útflytjenda í löndum sem eru háð útflutningi náttúruauðlinda með líku lagi og fjölbreytni á stjórnmálavettvangi firrir almenning hættunni á yfirráðum rótgróinnar yfirstéttar (Per Wijkman og Þorvaldur Gylfason 2017). Hærri súlur á myndinni lýsa minni fjölbreytni útflutnings, þ.e. meiri fábreytni.

Þegar sama vara er seld mörgum ólíkum viðskiptavinum dreifir það áhættu líkt og þegar ólíkar vörur eru seldar einum og sama viðskiptavini. Mynd 11 lýsir fjölbreytni útflutnings eftir vöruflokkum og viðskiptalöndum eins og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn metur hana. Þessi fjölbreytnisvísitala útflutnings, sem nær frá 0 (óskoruð fjölbreytni) upp í 10 (engin fjölbreytni), er hönnuð til að fanga nýjar útflutningsvörur auk nýrra viðskiptalanda. Með meðalvísitöluna 1,87 geta G7-löndin státað af fjölbreyttari útflutningi og fjölbreyttari viðskiptalöndum en BRICS-hópurinn þar sem meðalvísitalan er 2,63 – og 4,07 á Íslandi. Nýjustu gildin sem til eru vísa til ársins 2014.

mynd-9

mynd-10

Loftslagsvernd

Að lokum berum við saman aðgerðir G7-landanna og BRICS-landanna til að draga úr loftslagsbreytingum. Hér er loftslagsvörnum lýst með nýrri loftslagsverndarvísitölu sem samtökin Germanwatch hafa tekið saman. Vísitalan nær frá 0 (slök frammistaða) upp í 100 (góður árangur) og nær yfir 59 lönd auk Evrópusambandsins og er reist á 14 vísbendingum í fjórum flokkum: Losun gróðurhúsalofttegunda (40% af heildareinkunn), endurnýjanleg orka (20%), orkunotkun (20%) og loftslagsstefna (20%). Meðaleinkunn beggja hópa, G7 og BRICS, er hin sama, 45. Indland fær hæstu einkunn af þeim tólf löndum sem sýnd eru á mynd 12. Aðeins Danmörk, Svíþjóð, Síle og Marokkó hljóta hærri einkunn en Indland (ekki sýnt). Kína og Bandaríkin eru um það bil jafnaftarlega á listanum. Ísland er ekki í úrtakinu.

Að endingu

Á tímum kalda stríðsins, þegar hagtölur um þjóðartekjur gáfu sumum til kynna, ranglega svo sem kom í ljós, að Bandaríkin og Sovétríkin væru í þann veginn að verða nokkurn veginn jafnokar í efnahagslegu tilliti, var hægt að lýsa heiminum sem heimi tveggja turna, sem við getum kallað tvískauta (e. bipolar). Forusturíkin tvö voru þó greinilega ekki jafningjar í pólitísku tilliti því annað er rótgróið lýðræðisríki og hitt var einræðisríki.

mynd-11

mynd-12

Með upplausn Sovétríkjanna í árslok 1991, sem batt enda á kalda stríðið, hefur víða verið litið á heiminn sem einskauta (e. unipolar), en það er skoðun sem ríkisstjórnir Kína, Indlands, Rússlands og fleiri landa hafna svo sem skiljanlegt er, því þessi lönd líta á heiminn sem heim margra turna, þ.e. fjölskauta (e. multipolar). Það er þeirra heimsmynd.

Kína og Indland hafa tekið miklum framförum að ýmsu leyti, ekki sízt með lengingu meðalævinnar við betri kjör en áður, en þau eiga enn langt í land, einkum Kína, sem ólíkt Indlandi hefur aldrei veitt kost á lýðræði. Rússland, þar sem kaupmáttur þjóðartekna á mann var 40% undir meðaltali G7-landanna 2022, á enn lengra í land. Rússar standa að baki Kínverjum og Indverjum í gegnsæi og jöfnuði svo sem fram kemur á myndum 6 og 7 í fyrri hluta þessa texta og einnig í iðnvöruútflutningi (mynd 9), fjölbreytni í útflutningi (myndir 10-11) og loftslagsvernd (mynd 12).

Líklegt virðist að G7-löndin og BRICS-löndin muni á næstu árum kosta kapps um að vinna hug og hjörtu annarra þjóða um allan heim. G7-hópurinn er samheldnari en BRICS-löndin. Meðalfjarlægð milli höfuðborga G7-landanna 5.504 km borið saman við 9.291 km fyrir BRICS-löndin (heimild: Google Maps). Meira er þó um vert að G7-löndin eiga náin samskipti sín á milli öfugt við BRICS-löndin, þar sem Kína og Indland eru gamlir andstæðingar með óuppgerðar landamæradeilur sem blossa upp annað veifið. Við bætist að kínversk yfirvöld með hugann við langa sögu Rússlands af þrálátri útþenslu til austurs, suðurs og vesturs hafa séð ástæðu til að minna Rússa á að Vladivostok var kínversk borg svo nýlega sem 1860, sem er eins og í fyrra eða hittiðfyrra samkvæmt kínversku tímatali.

G7-löndin eiga ekki við nein sambærileg vandamál að stríða. Ríkisstjórnir þeirra langar til að geta sannfært ríkisstjórnir BRICS-landanna um kosti lýðræðis og frelsis. Svo það sé hægt er brýnt að G7-löndin víki ekki frá staðfastri skuldbindingu sinni um lýðræði, frelsi og virðingu fyrir mannréttindum.

Heimildir

  1. Loftslagsverndarvísitala (2023) Nánar
  2. Wijkman, P. M. og Þorvaldur Gylfason (2017), „Double diversification,“ VoxEU, 6. febrúar. Nánar

Næsta grein