
Tvö stór nöfn í alþjóðlegri umræðu um hagfræði og efnahagsmál, Angus Deaton, prófessor og nóbelsverðlaunahafi árið 2015 í hagfræði
Báðir höfundarnir eru með breskan uppruna en hafa dvalið langdvölum í Bandaríkjunum; þeir fjalla fyrst og fremst um stöðuna þar, með augum aðkomumannsins – titill bókar Deatons er „Hagfræði í Ameríku. Aðfluttur hagfræðingur rannsakar land ójafnaðarins“. Foreldrar Wolf voru flóttamenn frá Evrópu fasismans fyrir seinna stríð og hann gerir þeim þjóðfélagsbreytingum sem braut fasismanum leið á sínum tíma skil; hann sér ýmis einkenni á Vesturlöndum, s.s. veikingu millistéttarinnar, söfnun auðs og valda hinna ofurríku, sem einmitt gætu leitt til klofnings og harðstjórnar meðal vestrænna samfélaga á næstu árum. Báðir benda þeir á að réttlæti hafi beðið lægri hlut sem leiðarljós í þróun hagfræðinnar og mótun efnahagsstefnu á síðustu áratugum – afleiðingin hafi orðið rýrnun og stöðnun lífskjara almennings, ójafnvægi í samfélögum, kreppur í efnahags- og fjármálalífi, og vaxandi misnotkun ríka minnihlutans á efnaminni meirihlutanum, sem um leið hafi misst trú á lýðræðið og sé tilbúnari en áður til að greiða harðstjórnaröflum leiðina að ríkisvaldi.
Velmegun, réttlæti og skilvirkni
Deaton minnir á að velmegun almennings hafi frá upphafi verið leiðarstef og árangursviðmið hagfræðinnar. Adam Smith taldi hagfræðinga fyrst og fremst eiga að einbeita sér að og færa rök fyrir „mannúðlegu mati á félagslegri vellíðan fólks“. Viðfangsefni hagfræðinnar hafi hins vegar verið þrengd í seinni tíð, eins og hin vinsæla skilgreining Lionel Robbins um „ráðstöfun takmarkaðra gæða á milli ólíkra markmiða“ beri vitni um. Um leið hafi verið reynt að færa hagfræðina nær raunvísindum, með stærðfræði og haglíkönum, sem byggðu gjarnan á veikum undirstöðum og tilbúnum forsendum; áhugi hagfræðinga í lok 20. aldar beindist að markaðslausnum og áhættusömum fjármálagerningum. Um leið misstu margir hagfræðingar sjónar af grundvallarkeppikeflinu að vinna gegn „andstyggilegum og gleðisnauðum aðstæðum fólks“, fátækt og skorti, segir Deaton og undirstrikar að mælingar geta aldrei verið né ættu að vera aftengdar gildismati.
Hann rifjar upp skilgreiningu John Maynard Keynes á stjórnmálalegum vandamálum mannkynsins: að tengja saman þrjá þætti; efnahagslega skilvirkni, félagslegt réttlæti og sjálfsákvarðanafrelsi einstaklinga. Hagfræðingar hafi fórnað einstaklingsfrelsi og réttlæti á altari skilvirkninnar. „Fólk er svipt frelsi með fátækt, skorti og bágri heilsu“, segir Deaton, „sem hefur lengi verið almennt hlutskipti mannkynsins, og svívirðilega stórs hluta íbúa jarðar nú á dögum“. Frelsið er í hans skilningi „frelsi til að lifa góðu lífi og gera hluti sem gera lífið þess virði að lifa því“ – ekki frelsi fyrirtækja til að gera hvað sem er á markaði.
Hagfræði og stjórnmál
Hvaða árangri hafa breyttar áherslur og aðferðir hagfræðinnar skilað? Þeir Deaton og Wolf rifja báðir upp eftirminnilega heimsókn Elísabetar Englandsdrottningar í London School of Economics í kjölfar fjármálahrunsins 2008: „Hvernig stendur á því að enginn tók eftir því sem var að gerast?“ spurði drottningin. Hún fékk veikburða svör, enda kom fjármálakreppan flestum hagfræðingum, jafnvel innan alþjóðastofnana, á óvart. Hagfræðingum er jafnvel kennt um hrunið; Wolf segir þá hafa hvatt til háskalegrar hegðunar banka og atvinnulífs. Fjármálahrunið olli gríðarlegu efnahagslegu tjóni
Hagfræði og stjórnmál tvinnast náið saman í kreppum, en tengslin urðu nánari en áður fyrir hálfri öld þegar nýfrjálshyggjuhagfræðingum á borð við Friedman og Stigler tókst að sannfæra stjórnvöld í Bandaríkjunum og Bretlandi um að leiðin til vaxandi auðlegðar væri að gefa mörkuðum lausari tauminn og takmarka hlutverk hins opinbera. Alþjóðavæðingin, afnám aðskilnaðar fjárfestingabanka og hefðbundinnar bankastarfsemi og ýmislegt fleira fylgdi í kjölfarið. Deaton gagnrýnir markaðshyggjuna og segir Chicago-skólann hafa:
„skilið hagfræðinga eftir með of lítið tillit til galla markaðarins, hvað þeir geta gert og hvað ekki. Það á ekki að versla með alla hluti. Hagfræðingastéttin keypti of auðveldlega hugmyndina um að peningar væru allt og allt ætti að mæla með peningum. Heimspekingar hafa aldrei samþykkt að peningar væru eini mælikvarðinn á vörur eða einungis einstaklingar skiptu máli en samfélög gerðu það ekki. Hagfræðingar hafa eytt of litlum tíma í að hlusta á þá“. …








