Stjórnmálafræðingarnir Daniel Ziblatt og Steven Levitsky urðu frægir á einni nóttu árið 2018 þegar bók þeirra, How Democracies Die, kom út. Forspárgildi hennar reyndist óhugnanlega mikið, eins og vendingar undanfarinna ára í Bandaríkjunum gefa til kynna.
Í nýjustu bók þeirra, Tyranny of the Minority: Why American Democracy Reached the Breaking Point, er stækkunarglerinu beint að Bandaríkjunum, og hvernig þeirra lýðræðislegu kerfi – sem í reynd eru ekki svo lýðræðisleg – hafa gert minnihluta þjóðarinnar kleift að taka til sín völd í landinu.
Ziblatt og Levitsky líkja lýðræðinu við þær reglur sem gilda á frjálsum markaði. Stjórnmálaflokkum megi líkja við fyrirtæki: ef fyrirtæki verða fyrir ítrekuðu rekstrartapi, þá fer það í naflaskoðun, mótar nýja stefnu og skiptir út lykilstjórnendum. Sama gildi um stjórnmálaflokka. Þeir bjóða upp á ákveðnar vörur – s.s. stjórnmálamenn og hugmyndir þeirra - og keppa við aðra flokka um atkvæði.
Það sem drífur áfram heilbrigt lýðræði er samkeppni milli stjórnmálaflokka. Ef kosningakerfi virka sem skyldi, þá ættu lýðræðisleg kerfi að umbuna þeim flokkum sem hlusta á kjósendur og refsa þeim sem gera það ekki. Flokkar sem tapa neyðast þannig til að aðlagast og víkka út aðdráttarafl sitt til að vinna aftur í framtíðinni.
Ekki er hægt að segja að kosningakerfið í Bandaríkjunum fylgi þessum reglum. Þar eru rótgrónar stofnanir á borð við kjörmannaráðið (e. electoral college) og öldungadeild þingsins (e. senate) sem gefa atkvæðum ákveðinna ríkja meira vægi en annarra. Það minnkar hvata fyrir flokka til að hlusta á vilja almennings og sannfæra meirihlutann um ágæti stefnu flokksins. Þessu kerfi var komið á af ýmsum ástæðum, ekki síst til þess að koma í veg fyrir að meirihlutar fari með harðstjórn gagnvart minnihlutum. Og það hefur virkað ágætlega í þær þrjár aldir sem það hefur verið við lýði – að því leyti að oftar en ekki hafa kjörnir fulltrúar endurspeglað vilja almennings, þrátt fyrir galla kerfisins.
En Ziblatt og Levitsky segja þetta vera að að breytast. Í fyrsta lagi hafa fólksflutningar úr strjálbýlum svæðum yfir í þéttbýlin aukið misvægi atkvæða í landinu. Árið 1790 hafði atkvæði úr fámennasta ríkinu (Delaware) þrettán sinnum meira vægi í öldungadeildarkosningum en úr því fjölmennasta (Virginíu), en árið 2000 hafði atkvæði úr fámennasta ríkinu (Wyoming) sjötíu sinnum meira vægi en úr því fjölmennasta (Kaliforníu).
Það sem hefur líka breyst er að flokkslínurnar milli borga og sveita eru skýrari nú en áður. Áður fyrr áttu báðir flokkar kjörfylgi út um allt land: Demókratar áttu vissulega mikið fylgi í borgum í Nýja-Englandi, en Repúblikanar voru oftar en ekki sterkari í borgum á vesturströndinni. Að sama skapi voru Repúblikanar í dreifbýli Miðvestursins, en Demókratar sóttu mikið fylgi til landeigenda í suðri. Nú eru kjósendur Demókrata, sem eru opnari gagnvart innflytjendum og öðrum breytingum sem hafa fylgt hnattvæðingunni, í meira mæli í borgunum, en kjósendur Repúblikana í meira mæli utan borga. Þar er færri atkvæði að finna - sem skiptir reyndar ekki öllu máli, því kerfið verðlaunar fámennu svæðin umfram þau fjölmennu.
Repúblikanar hafa undanfarin ár nýtt sér veikleika þessa kerfis. Í tvö skipti frá aldamótum (2000, 2016) hefur forseti verið kjörinn sem ekki naut fylgis meirihluta þjóðarinnar. Í seinna skiptið náði forsetinn að skipa þrjá Hæstaréttardómara til lífstíðar. Þar hafa dómar náð í gegn sem farið hafa þvert gegn almenningsálitinu (ef marka má skoðanakannanir), meðal annars er varða kjördæmahagræðingu (e. gerrymandering) og fóstureyðingar.
Áður fyrr hefðu fyrrnefndir ósigrar í kosningum ýtt flokknum í aðra átt, eins og þeir gerðu á níunda áratugnum þegar Reagan hristi upp í valdakerfum flokksins. Nú er hins vegar minni hvati til að gera slíkt hið sama. Þvert á móti virðist að þær stofnanir og þau kerfi sem eiga að slá verndarskjöld um lýðræðið hreinlega leyfa því að molna, hægt og rólega, innan frá.