Ísland, sem sumir hafa kallað land tækifæranna, stendur frammi fyrir alvarlegri húsnæðiskreppu sem bitnar hvað harðast á ungu fólki og tekjulágum hópum. Meðalverð fjölbýlishúsnæðis í Reykjavík er nú komið upp undir 75 milljónir króna. Fyrir unga Íslendinga, sem reyna að safna fyrir útborgun, hefur þessi þróun skapað sívaxandi skuldsetningu og hærri vaxtagreiðslur, þar sem stýrivextir Seðlabankans eru nú í 9 prósentum. Þetta hefur valdið því að greiðslubyrði af verðtryggðum lánum er orðin fjárhagsleg byrði sem margir eiga erfitt með að standa undir.
Samanburður á þróun meðalverðs fjölbýlishúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu frá janúar 2020 til október 2024 sýnir ógnarhraða hækkun. Í janúar 2020 var meðalverðið 48.976.110 krónur, en í október 2024 hefur það náð 75.779.280 krónum, sem jafngildir 54,73% hækkun á aðeins rúmum fjórum árum. Þetta hefur veruleg áhrif á möguleika ungs fólks til að kaupa sína fyrstu eign. Margir neyðast til að taka hærri lán með hærri vaxtakostnaði eða leggja út fyrir hærri upphæð í útborgun – eitthvað sem hefur reynst óyfirstíganlegt fyrir marga.
Þróunin dregur fram skýran mun á stöðu eldri kynslóða sem keyptu húsnæði þegar verð og lánskjör voru hagstæðari, samanborið við þá sem nú reyna að komast inn á markaðinn. Afleiðingin er sú að möguleikar ungra kynslóða á eignamyndun eru verulega takmarkaðir, sem hefur áhrif á fjárhagslegt öryggi þeirra til langs tíma. Þetta mun ekki aðeins hafa áhrif á samfélagið í dag, heldur mun þessi ójöfnuður á fasteignamarkaði skapa langvarandi afleiðingar fyrir velferð þjóðarinnar.
Kynslóðir á mismunandi vaxtakjörum: Hverjir bera þyngstu byrðarnar?
Vaxtastefna Seðlabanka Íslands hefur haft veruleg …