Undanfarin ár hefur húsnæðisverð (HV) hækkað mikið meir en verð á neysluvörum mælt með vísitölu neysluverðs (VNV). Raunverð húsnæðis hefur því hækkað mikið. Verð á húsnæði hefur líka hækkað mikið meir en byggingarvísitala sem mælir breytingar í kostnaði við að byggja húsnæði. Mynd 1 sýnir raunverð húsnæðis miðað við vísitölu neysluverðs (HV/VNV) og miðað við byggingarvísitölu (HV/BV) frá árinu 2002 til ársins 2023.
Raunverðið lækkaði í kjölfar fjármálakreppunnar árið 2008 en stærstan hluta tímabilsins einkennist þróunin af hækkunum. Þegar allt tímabilið er skoðað mælist marktæk jákvæð leitni í raunverðinu. Á tímabilinu frá 2001 til 2023 hækkaði raunverð miðað við vísitölu neysluverðs um 3,2% á ári að meðaltali, en um 2,1% ef miðað er við byggingarvísitölu. Örlítil lækkun raunverðsins á árinu 2023 breytir litlu varðandi heildarmyndina.
Þessi leitni í raunverði húsnæðis er ekki séríslensk. Mynd 2 sýnir raunverð miðað við vísitölu neysluverðs í nokkrum ríkjum sem við berum okkur oft saman við.
Í þessum hópi landa sker Ísland sig ekki úr. Í öllum ríkjunum nær raunverðið hápunkti í aðdraganda fjármálakreppunnar og lækkar í kjölfar hennar, lítið í Svíþjóð en mjög mikið á Írlandi þar sem íbúðafjárfestingin sýndi dæmigerð einkenni verðbólu á húsnæðismarkaði með miklum sveiflum í bæði verði og íbúðarfjárfestingu. Á árinu 2006 var íbúðarfjárfesting á Írlandi 16,1% af VLF en hrundi eftir að fjármálakreppan skall á og var 1,0% fjögur ár í röð, 2012-2015. Til samanburðar var hlutfall íbúðarfjárfestingar af VLF hér á landi hæst á árinu …