Stjórnvöld standa nú frammi fyrir þeim vanda hvernig á að taka á fjárhagshlið náttúruhamfaranna í Grindavík. Í Grindavík bjuggu um 3.600 manns áður en hamfarirnar byrjuðu sem er tæplega 1% landsmanna. Vísindamenn hafa sagt að ekki sé öruggt að búa í bænum og óvíst hvenær svo verði. Jafnframt er víst að mörgum íbúum getur varla liðið vel þegar jarðaskjálftar verða með reglulegu millibili, sprungur gera líf í bænum hættulegt og eldgos eru yfirvofandi. Hamfarirnar hafa þannig valdið tjóni fyrir hagkerfið sem metið hefur verið á 107 milljarða samkvæmt mati Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og er þá bæði íbúðarhúsnæði og atvinnuhúsnæði meðtalið auk húsnæðis sem stofnanir notast við
Um tryggingar
Einstaklingar geta tryggt eignir sínar fyrir tjóni með því að greiða iðgjald til tryggingafélaga. Í þessu fyrirkomulagi felst samtrygging þannig að á ári hverju greiða flestir meira til félaganna en þeir fá greitt í bætur á meðan sumir fá meira greitt út en sem nemur iðgjöldum þegar þeir verða fyrir tjóni. Að baki liggur lögmál stórra talna. Tryggingafélögin geta með nokkurri vissu spáð fyrir um upphæð tjóns á hverju ári og ákveðið iðgjöld í samræmi við það. En tryggingafélög geta ekki tryggt okkur fyrir náttúrhamförum vegna þess að þær gerast sjaldan og geta haft áhrif á fjölda fólks og því ekki hægt að reikna væntanlegt tjón.
Það er hluti af okkar óformlega samfélagssáttmála að við tryggjum íbúa landsins fyrir tjóni af völdum náttúruhamfara með aðkomu hins …