Til baka

Aðrir sálmar

Hvers vegna eru lög og regla?

Vonandi ekki til að fela hitt og þetta! Löggjöf um samkeppni og neytendavernd þarf í framkvæmd að tryggja gæði samkeppninnar og gott eftirlit með hvernig neytendavernd virkar. Það að gjaldskrár séu óljósar og illskiljanlegar jafnvel ólöglegar er ólíðandi í nútímasamfélagi.

deilimynd-asgeirbrynjar

Mikill órói einkennir nú alþjóðasviðið, bæði efnahagslega og pólitískt. Samhengi efnahags og pólitíkur hefur orðið æ skýrara á síðustu árum. Þó tengslin hafi fallið í skuggann á áratugum nýfrjálshyggjutímabilsins, þá varpaði fjármálahrunið ljósi á það samhengi fyrir marga. Aðrir komust svo ekki hjá því að átta sig á því samhengi eftir heimsfaraldur þar sem ríkissjóðir heimsins hlupu undir bagga með efnahagslífinu.

Alþjóðasamningar og lagagrundvöllurinn þar að baki skipta kanski ekki miklu máli á opinberum vettvangi þegar allt leikur í lyndi og allt flæðir auðveldlega um heiminn. Enginn veit fyrr en reynir á hvort vini þú eigir þá. Þá geta samningar skipt sköpum og lagagrundvöllur þeirra einnig. Það kemur vel í ljós í fjármálahruni, heimsfaraldri og stríðsástandi. Uppbyggingin, þegar upp er staðið og fárinu lokið, skiptir líka miklu máli og hvernig hún er framkvæmd. Fjármálakerfið hérlendis fellur undir evrópskt reglukerfi og fékk í þeim krafti aðgang að stórum markaði sem hefur þó lítinn áhuga á okkar afkima.

Neytendavernd hérlendis hefur einnig elfst þökk sé samningnum um evrópska efnahagssvæðið og hinn sameiginlega markað, lagalega séð hið minnsta. Í framkvæmd þarf líklega að bæta bæði gæði samkeppninnar og eftirlit með neytendaverndinni, ef marka má nýlega skýrslu menningar- og viðskiptaráðuneytisins, sem einnig er til umfjöllunar þessa vikuna. Hugsanlega er eitthvað við viðskiptamenninguna að athuga, ef rýnt er í gjaldskrár sem tekur vikur fyrir sérfræðinga að skilja.

Gjaldskrár þjónustustofnana sem enginn getur verið án eða opinberra stofnana sem veita þjónustu fyrir almannahag, geta ekki og mega ekki vera óskýrar eða óljósar og alls ekki ólöglegar líkt og úrskurðað hefur verið um skráningargjöld æðstu menntastofnunar þjóðarinnar. Lög og regla eru ekki til að fela hitt og þetta - þó að Bubbi hafi sungið það. Því með lögum skal land byggja, svona eftir á að hyggja, í versta lagi.

Næsta grein