Menningarnæmi er mikilvægt nú um stundir fyrir margra hluta sakir. Yfirstandandi breytingar á heimshagkerfinu kalla á það nú þegar sá tími virðist liðinn að Bandaríkin séu leiðandi. Á heimavelli sínum brýtur Trump forseti niður ýmsar stofnanir og einnig austurhluta Hvíta hússins til að byggja 999 manna veislusal.
Á okkar heimavelli tekur forseti Íslands sér frí nú í dag með öðrum konum, sem hófu þá vegferð fyrir hálfri öld. Halla forseti hélt merka ræðu á jafnréttisráðstefnunni í Kína við upphaf síðustu viku. Vert er að minnst einnig orða Vigdísar forseta þar fyrir þrjátíu árum: „Við erum komin til Beijing til þess að þoka málstað kvenna fram á veg – ábyrgir þegnar mannkynsins sem höfum heitið því að skapa komandi kynslóðum betri heim.“ Halla forseti lagði áherslu í sinni ræðu á að viðburðir sem þessir megi ekki samanstanda af innantómum orðum heldur þurfi aðgerðir. Það þurfi að vera farvegur fyrir endurnýjaða framtíðarsýn, en ekki nægi aðgerðir einhverntíman seinna heldur núna.
Í síðustu viku fór fram Hringborð Norðurslóða í Hörpunni okkar sem Ólafur Ragnar fyrrum forseti kom á fót og fjallaði um í hádegisútvarpi nýverið. Tvær styttri greinar blaðs vikunnar fjalla um viðburðinn og varpa ljósi á ólík jafnréttismál.
Kanski varð hæstaréttardómur síðustu viku í vaxtamálinu og fyrstu viðbrögð bankanna við honum til þess að kæla húsnæðismarkaðinn það harkalega að verðbólgan hjaðni. Þegar neytendur virðast varla ánægðir (frá 69. mín.) með frammistöðu bankanna birtist viss menningarmunur við túlkun á ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins (sjá bls. 39) og mögulegur tvískinnungur bankamanna.
Hagvöxturinn hér er næmur fyrir samdrætti útflutningstekna. Þar getur nægt að spennir bilar í verksmiðju í Hvalfirði, loðna fjölgi sér minna og annað flugfélag landsins fari í þrot. Rannsóknir á hagvexti eru til umfjöllunar í forsíðugrein vikunnar, þar sem menning vaxtarins kemur við sögu og bók eftir Joel Mokyr Nóbelsverðlaunahafa um það hvernig upplýsingin hafi verið hvati byltingarinnar.

