Íslenska efnahagskerfið ólgar af miklu hagvexti. Samráðseinokunar- og fákeppnishagnaður skilar ofurgóðri ávöxtun til eigenda útvalinna fyrirtækja. Við verðum fjögur hundruð þúsund fljótlega sem búum hér og þar af sjötíuþúsund sem fædd eru annarsstaðar en gestirnir eru yfir tvær milljónir talsins og engin veit hve bjóða á mörgum. Þessi mikli vöxtur mannfjöldans og ferðamannanna skapar mikinn neysludrifinn hagvöxt. Of mikinn vöxt munu sum segja.
Ríkisfjármálin eru hér í hagvextinum nú í miklum mínus. Þó frumjöfnuður sé jákvæður þá eru vaxtagreiðslur hérlendis aftur orðnar hærri en Grikklands. Ítalía er eina Evrópulandið sem greiðir nú hærra hlutfall landsframleiðslunnar í fjármagnskostnað en Ísland. Þó skuldirnar þar séu margfalt meiri en hér þá greiðum við næstu jafn mikið árlega fyrir okkar dýru vexti. Verðtrygging skulda kemur bæði ríkissjóði og heimilum illa en hún er góð fyrir íslenska fjármagnseigendur.
Sjálfbærar skuldir
Sjálfbærni skulda varð vinsælt hugtak í heimsfaraldri. Þá varð almennt viðurkennt að mikilvægt væri að reka hið opinbera með miklu halla til að bjarga þjóðinni og efnahagslífinu. Það var fyrirséð að styrk þyrfti til að snúa við og af þeirri braut, þegar hernaðinum við veiruna lyki. Að loknum faraldri tók reyndar við annað stríð sem að kveikti í verðbólgunni með orkuverðshækkunum sem við þó sluppum við að mestu.
Skuldahlutfall sem var sjálfbært í lágvaxtaumhverfi getur fljótt orðið ósjálfbært þegar vextir hækka. Sjálfbærni skuldanna í heimsfaraldri fólst meðal annars í þeirri stærðfræðilegu staðreynd að ef hagvöxtur er meiri en vaxtakostnaður þá er hægt að vaxa út úr skuldunum. Líklega má segja að ekkert annað land í …