
Íslenska efnahagskerfið ólgar af miklu hagvexti. Samráðseinokunar- og fákeppnishagnaður skilar ofurgóðri ávöxtun til eigenda útvalinna fyrirtækja. Við verðum fjögur hundruð þúsund fljótlega sem búum hér og þar af sjötíuþúsund sem fædd eru annarsstaðar en gestirnir eru yfir tvær milljónir talsins og engin veit hve bjóða á mörgum. Þessi mikli vöxtur mannfjöldans og ferðamannanna skapar mikinn neysludrifinn hagvöxt. Of mikinn vöxt munu sum segja.
Ríkisfjármálin eru hér í hagvextinum nú í miklum mínus. Þó frumjöfnuður sé jákvæður þá eru vaxtagreiðslur hérlendis aftur orðnar hærri en Grikklands. Ítalía er eina Evrópulandið sem greiðir nú hærra hlutfall landsframleiðslunnar í fjármagnskostnað en Ísland. Þó skuldirnar þar séu margfalt meiri en hér þá greiðum við næstu jafn mikið árlega fyrir okkar dýru vexti. Verðtrygging skulda kemur bæði ríkissjóði og heimilum illa en hún er góð fyrir íslenska fjármagnseigendur.
Sjálfbærar skuldir
Sjálfbærni skulda varð vinsælt hugtak í heimsfaraldri. Þá varð almennt viðurkennt að mikilvægt væri að reka hið opinbera með miklu halla til að bjarga þjóðinni og efnahagslífinu. Það var fyrirséð að styrk þyrfti til að snúa við og af þeirri braut, þegar hernaðinum við veiruna lyki. Að loknum faraldri tók reyndar við annað stríð sem að kveikti í verðbólgunni með orkuverðshækkunum sem við þó sluppum við að mestu.
Skuldahlutfall sem var sjálfbært í lágvaxtaumhverfi getur fljótt orðið ósjálfbært þegar vextir hækka. Sjálfbærni skuldanna í heimsfaraldri fólst meðal annars í þeirri stærðfræðilegu staðreynd að ef hagvöxtur er meiri en vaxtakostnaður þá er hægt að vaxa út úr skuldunum. Líklega má segja að ekkert annað land í heiminum reyni samt að vaxa út úr opinberum skuldum með innflutningi vinnuafls. Það er raunveruleg framleiðniaukning og hagvöxtur á mann sem er grundvöllur þess að vaxa út úr skuldum í alþjóðlegum skilningi um sjálfbærni skulda.
Sjálfbær rekstur
Þegar horft er til sjálfbærni rekstrar, þá snýst punkturinn um mun tekna og gjalda. Í jöfnuði þar sem tekjur og gjöld standast á og eru í jafnvægi þá er hægt að nýta lægri fjármagnskostnað til að greiða út meiri barnabætur. Enda greiðir Grikkland bæði minna í fjármagnsgjöld en við og einnig hærra hlutfall landsframleiðslunnar í barnabætur til fjölskyldufólks. Þurfi að greiða meiri fjármagnskostnað þá verður að afla tekna eða skera niður útgjöld. Það er bókhaldsleg staðreynd sem ekki er hægt að vaxa út úr eða frumjafna sig frá. Nú þegar að skuldir stefna í að verða ósjálfbærar, með vaxtakostnað sem stefnir í að verða hærri en hagvöxtur, þá reynir enn harðar á sjálfbærni rekstrar.
Það er ekki sjálfbært að reksturinn sé í það miklum halla að skuldirnar vaxi í raun. Tekjuöflunin verður þá mikilvægasta
Stjórnlaus stefnumörkun
Rekstur hins opinbera hérlendis einkennist allt of oft af viðbragði við afleiðingum bólu-hruns (e. Boom-Burst) eða þess sem stundum er kennt við oflæti með umpólun. Það á ekki bara við um efnahagslegar afleiðingar bankahrunsins heldur ekkert síður nú í ferðaiðnaðar bólunni og fiskeldisoflætinu. Hagsögulega þarf að fara aftur til nýlendutímabilsins til að skilja þær gripdeildir (e. land-grabbing) sem fram fara á almannagæðum í þessu samhengi. Þar geta almannagæðin hvort sem er verið opinbert lánstraust lands, óspillt hálendið eða botnar fjarðanna kringum landið.
Eftir að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn bjargaði okkur út úr ógöngum bankahrunsins 2008 voru sett ný lög um opinber fjármál (123/2015) eftir sjö ára vinnu til að bæta efnahagsumgjörðina. Fjárlögum til grundvallar liggur nú mikilvæg stefnumótunarvinna sem marka skal hvert haldið verður þannig að fjármagn fylgi síðan því sem ákveðið er. Þriðji hluti þessa vinnulags er svo árangursmælingar með eftirfylgni til að hafa áhrif á endurskoðun stefnu og fjárveitinga þó töluvert vanti upp á innleiðingu þess þriðja þáttar en þar skipta reikningsskil og skýrslugjöf miklu máli.
Ítalía er eina Evrópulandið sem greiðir nú hærra hlutfall landsframleiðslunnar í fjármagnskostnað …








