
Í grein í Reykjavíkurblaðinu Ingólfi haustið 1906 lagði Páll Þorkelsson gullsmiður til að efnt yrði til íslenskrar allsherjarsýningar sem varpað gæti ljósi á afrek landsmanna á vettvangi landbúnaðar, sjávarútvegs, iðnaðar, lista og íþrótta. Hann rökstuddi hugmynd sína með vísan til væntanlegrar heimsóknar Friðriks VIII Danakonungs og danskra þingmanna til Íslands sumarið eftir. Eitthvað þyrfti að bjóða gestum upp á annað en þolanlegan mat. En þar var úr vöndu að ráða. Menningarstofnanir hér á landi voru fáar og stóðu sambærilegum stofnunum í flestum öðrum Evrópulöndum langt að baki. Og staða flestra listgreina var bágborin. „Vér höfum enn engin söfn svo teljandi sé; vér höfum engin mannvirki, sem vert þyki að skoða; vér höfum engan æfðan söngflokk, engan hornablástur (Hornmusik), engan skemtigarð, – með fám orðum sagt: vér verðum að flýja á fjöll upp með gesti vora, því það er náttúran ein, sem getur skemt þeim hér hjá oss, en hvorki vér sjálfir eða það sem vér höfum afrekað,“ skrifaði Páll meðal annars. Hugmynd sína um allsherjarsýningu rökstuddi gullsmiðurinn með vísan til sýningar á fögru handverki sem Iðnaðarmannafélag Reykjavíkur hafði efnt til í höfuðstaðnum 1884 en þá töldu menn að sýningargripir þyrftu helst „að fela í sér frábært hugvit og um fram alt að vera einhverskonar vélauppfinning, auk þess að bera vitni um feikilegan hagleik, fagurt handbragð og fegurðartilfinningu mikla“. Þau orð minna okkur á að fyrir hálfri annarri öld var ekki gerður eins skýr greinarmunur á iðnaði og listum og síðar varð. Þau minna líka á að sú umræða sem nú er hafin um skapandi greinar á sér áhugaverðar sögulegar rætur.
Burðarvirki menningarlífsins
Lokabindi Sögu Íslands (2016) hefur að geyma kafla eftir höfund þessara skrifa sem fjallar um þróun íslensks menningar- og listalífs á tuttugustu öld. Kaflinn, sem nefnist „Burðarvirki íslenskrar nútímamenningar“, hefst á lýsingu Páls gullsmiðs á ládeyðu menningarlífsins árið 1906 en þar er síðan rakið hvernig hver listgreinin á fætur annarri nær fótfestu innan samfélagsins og verður með tímanum að faglegum vettvangi atvinnufólks. Sérstök athygli er vakin á bakjörlum (e. patrons) á sviði menningarlífsins, það er þeim einstaklingum, fyrirtækjum, hópum og stofnunum sem ýta undir að listaverk verði til og listviðburðir haldnir. Sem dæmi um slíka bakjarla má nefna bókaforlög, kvikmyndahús, leikhús, listaskóla, söfn og sjóði. Ein aðalpersóna kaflans er Ragnar Jónsson í Smára, sem rak smjörlíkisverksmiðju og sápugerð, en lét einnig til sín taka á sviðum bókaútgáfu, tónlistarlífs, málverkasöfnunar og kvikmyndarekstrar um miðbik tuttugustu aldar. Saga hans er til marks um að hefðbundnar atvinnugreinar og skapandi greinar geti átt frjóa samleið.
Þegar horft er aftur fyrir aldamótin 1900 er erfiðara að koma auga á hið menningarlega burðarvirki þótt sannarlega megi á þeim tíma greina vísi að margháttaðri listrænni starfsemi. Að einhverju marki er hún samofin þeim lýðræðislegu félagshreyfingum tímabilsins sem spruttu upp eins og gorkúlur á seinni hluta nítjándu aldar. Saga íslenskrar menningar á þeim tíma verður hvorki sögð né skilin nema í ljósi vaxandi starfsemi stúdentafélaga, lestrarfélaga, stéttarfélaga, fræðafélaga, kvenfélaga, bindindisfélaga og ungmennafélaga, svo fáein dæmi séu nefnd. Slík félög voru ekki aðeins mikilvægir bakjarlar útgáfu og bókasöfnunar á nítjándu öld heldur einnig jarðvegur leiklistarstarfsemi, hljóðfærakaupa og kórastarfs, auk þess sem sum þeirra komu á fót húsnæði fyrir staðbundið menningarlíf. Hér má minna á það stóra hlutverk sem félagsheimili sjómanna og iðnaðarmanna, Bárubúð og Iðnó, léku í höfuðstaðnum um og eftir aldamótin 1900. Þessi saga er til marks um að félagasamtök og skapandi greinar geti átt frjóa samleið.
Almannarými og menningarstarf
Áhugavert er að setja þessa starfsemi í samband við hugmyndir þýska heimspekingsins Jürgens Habermas um almannarýmið. Það er einhvers konar millistig einkarýmis heimilisins og opinbers rýmis samfélagsins og hefur verið skilgreint sem vettvangur gagnrýninnar umræðu sem sé laus „við félags- og efnahagslegan þrýsting, þar sem þátttakendur mætist á jafnréttisgrundvelli og leitist við að ná sameiginlegum skilningi á almennum málefnum“ (Hrafnkell, s. 99). Í bók sinni Strukturwandel der Öffentlichkeit lýsir Habermas því hvernig almannarýmið mótast í Frakklandi, Bretlandi og Þýskalandi á Upplýsingartímanum. Hann bendir sérstaklega á þá mikilvægu lýðræðislegu umræðu sem þróast í stássstofum (fr. salon) í París, kaffihúsum í London og klúbbum málfundafélaga í Berlín á sautjándu og átjándu öld. Samhliða varð til mikilvæg „tilraunastofa“ borgaralegrar listastarfsemi, sem hafði fram að því að mestu farið fram á forsendum hirðar og kirkju.
Í bók sinni Lýðræði í mótun, sem út kom á vegum Sögufélags fyrir síðustu jól, nýtir Hrafnkell Lárusson hugmyndir Habermas til að greina vöxt félagahreyfinga hérlendis á nítjándu öld. Hann dregur þar vel fram hvernig þessi vöxtur var …







