Margir sáu eintómt myrkur fram undan eftir að fjármálakreppan skall á árið 2008. Sumum fannst nærtækt að líkja stöðunni við stöðu Þjóðverja eftir fyrri heimsstyrjöldina og Versalasamningana þegar sigurvegararnir hirtu erlendar eignir Þjóðverja og juku skuldir þeirra með háum skaðabótum. Erlendar þjóðir voru sagðar „hafa bundið okkur sem þjóð í skuldafjötra næstu tvo áratugi.“
Hámörkin á greiðslur til Breta og Hollendinga sem Alþingi bætti við þegar það samþykkti samningana um Icesave sem lög 28. ágúst 2009 (og forsetinn undirritaði 2. september sama ár) sýna vel hversu dökkar framtíðarhorfurnar voru miðað við það sem síðar varð. Hámörkin skyldu miðast við hækkanir vergrar landsframleiðslu frá árinu 2008. Greiðslur til Bretlands skyldu ekki fara yfir 4% af hækkuninni í pundum og greiðslur til Hollands ekki yfir 2% af hækkuninni í evrum. Á árunum 2016 (fyrsta greiðsluárið) og 2024 (síðasta greiðsluárið) áttu hámörkin að miðast við 2% og 1% af hækkun landsframleiðslunnar. Mynd 1 sýnir hvernig greiðslurnar og hámörkin hefðu þróast.
Myndin sýnir að hámörkin voru langt fyrir ofan greiðslurnar og hefðu engin áhrif haft. Kannski voru bresk og hollensk stjórnvöld jafn svartsýn og Alþingi á möguleika íslensks efnahagslífs en þau höfnuðu samningunum vegna hámarkanna. Sennilega höfðu þau einnig önnur sjónarmið í huga en í kjölfarið hófust samningaviðræður sem leiddu til samninga sem hljóðuðu uppá helmingi lægri fjárhæðir.
Það er eðlilegt að fólk sé óttaslegið við þær aðstæður sem ríktu fyrst eftir fjármálakreppuna. Það var heldur ekki ljóst hvernig framtíðin yrði og margir áttu í miklum erfiðleikum vegna mikillar lækkunar kaupmáttar launa, atvinnuleysis og skuldavanda.
Tvær vandaðar rannsóknir á áhrifum fjármálakreppunnar á ríkissjóð hafa komið út. Í skýrslu eftir Ásgeir Jónsson og Hersi Sigurgeirsson
Í þessari grein er ætlunin að meta fjárhagslegt tjón (og/eða ábata) þjóðarbúsins vegna fjármálakreppunnar út frá tölum um þróun erlendra eigna og skulda og viðskiptajafnaðar. Einnig er fjallað um mat á framleiðslutapi vegna fjármálakreppunnar.
Erlend staða og viðskiptajöfnuður
Ef viðskiptajöfnuður er jákvæður er hægt að nota afganginn til að greiða niður erlendar skuldir og/eða kaupa fleiri eignir í útlöndum. Þannig breytist erlend staða þjóðarbúsins um fjárhæð sem er jöfn viðskiptajöfnuði. En erlenda staðan breytist líka vegna gjaldþrota eða einhvers annars sem hefur bein áhrif á virði eigna og skulda. Til að meta verðmæti þeirra breytinga sem urðu á erlendri stöðu Íslands vegna áhrifa gjaldþrotanna í kjölfar fjármálakreppunnar 2008 er nærtækt að draga einfaldlega viðskiptajöfnuðinn frá breytingum á erlendu stöðunni og fá þannig mat á breytingum á erlendu stöðunni sem skýrast af öðru en viðskiptajöfnuðinum. Vissulega eru alltaf einhverjar slíkar breytingar, en á venjulegum árum eru þessar breytingar oftast litlar og jafnast út yfir tíma.
Við gerum ráð fyrir að tölur Hagstofunnar um út- og innflutning, hreinar launatekjur og hrein rekstrarframlög séu áreiðanlegar en veljum að áætla hreinar fjármagnstekjur með því að margfalda hreina stöðu með vöxtum sem eru jafnir stýrivöxtum í viðskiptalöndunum skv. gagnagrunni þjóðhagslíkans Seðlabankans að viðbættu 1 prósents álagi. Þannig fæst áætlaður viðskiptajöfnuður. Við notum þennan áætlaða viðskiptajöfnuð til að áætla erlendu stöðuna. Í …








