Í merkilegri grein í Morgunblaðinu gamla þann 2. júní 1979 undir fyrirsögninni Vandi fylgir vegsemd hverri skrifar Jóhannes Nordal heitinn um stöðu sjávarútvegs og skipulag fiskveiða. Þar segir: „finnst mér þó óneitanlega gæta nokkurrar tilhneigingar til þess að telja allar tillögur til breytingar á aðstöðu sjávarútvegsins byggðar á skilningsleysi á stöðu hans og þörfum.“ Nýsköpun í hugsunarhætti og umræðuhefð virðist lítið hafa þróast á þessum 45 árum ef miða má við boðskapinn nú frá fulltrúum þessa mikilvæga atvinnuvegar. Þó hann hafi lotið í lægra haldi fyrir öðrum atvinnugreinum, sé mælt með því að vera stærst í öflun gjaldeyristekna þjóðarbúsins, þá heldur sjávarútvegurinn þó sérstöðu sinni í þjóðarsálinni og viðheldur óbreyttri tilhneigingu sinni til krafna og sérþarfa.
Í ljósi eldsumbrotanna 1. apríl mætti gera þá líkingu að frekja virðist brjótast upp á yfirborðið með mismunandi hætti. Þegar hún kraumar undir niðri og skýst út eftir kvikugöngum neðanjarðar þá verðum ekki vör við mikið á yfirborðinu. Þannig misstum við kanski af því hve lágt fiskverð var í forsendum útreiknings auðlindagjalds, þar til ný ríkisstjórn kafaði ofan í málið.
Ný ríkisstjórn Bandaríkjanna heldur hins vegar áfram að gæta hagsmuna einhverra fyrirtækja auk þess sem örfáir forstjórar ráða þar í landi ýmsu sem þeir vilja innan stjórnkerfisins. Þessi fyrrum framvörður frjálsra viðskipta kallar nú miðvikudaginn frelsisdaginn (e. liberation day) þar sem settir verða á tollar af stærðargráðu sem ekki hefur sést síðan í kreppunni miklu á þriðja áratug síðustu aldar. Hugsanlega munu þessar aðgerðir valda efnahagssamdrætti í hinum vestræna heimi. Þá gæti húsbónda Hvíta hússins orðið að ósk sinni um einn merkasta dag í sögu landsins en kanski út frá röngum forsendum. Fyrrum leiðtogi hins frjálsa heims stefnir nú hraðar að því að tapa forystu sinni sem heimsins stærsta efnahagsveldi með einangrunarstefnu. Kvika frekjunnar brýst nú upp á yfirborðið.
Evrópusambandið byggir samhliða því upp varnargarða tollaflæðisins en við vitum ekki hvort Ísland verður innan eða utan þeirra varnargarða þó okkar skammtur sé helmingur þeirra tolla sem ESB er ætlað.