
Ferðaþjónusta á Íslandi hefur á síðastliðnum árum vaxið hratt og verið ein af stærstu útflutningsgreinum landsins um árabil. Á árunum 2010 til 2018 fjórfaldaðist sá fjöldi erlendra ferðamanna sem sótti landið heim og var hlutur ferðaþjónustu þá orðin 8,6% af vergri þjóðarframleiðslu árið 2018
Þegar þessi orð eru skrifuð er tillaga að þingsályktun varðandi stefnu og aðgerðaráætlun í ferðamálum til 2030 í umsagnarferli. Leiðarljós hennar er að Ísland verði leiðandi í sjálfbærri þróun ferðamennsku árið 2030. Áhrif stefnumótunar sem sett er fram af stjórnvöldum eru umdeilanleg og fara að verulegu leyti eftir því hvort fjárfest sé í þeim aðgerðum sem þarf til að ná markmiðum sem sett eru fram í stefnunni. Hér er ekki ætlunin að fjalla beint um aðgerðaráætlunina eða stefnumótun stjórnvalda heldur beina athygli að fyrrnefndu leiðarljósi, það er að Ísland verði leiðandi í sjálfbærri þróun ferðaþjónustu árið 2030. Ætla mætti að sjálfbær þróun sé auðskiljanlegt og skýrt hugtak og leiðin að því sem markmiði þá líka. Að vissu leyti er það svo í grunnatriðum en hins vegar hefur verið sýnt fram á að hægt er að toga og teygja sjálfbærni-hugtakið til að þjóna ólíkum hagsmunum. Með þessari grein er ætlunin að bæta við og skýra umræðu um sjálfbæra þróun ferðaþjónustu ásamt því að gera grein fyrir algengri gagnrýni á hugtakið.
Hvað er sjálfbær þróun?
Hugtakið sjálfbær þróun (e. sustainable development) er oftast kennt við skýrslu nefndar sem Gro Harlem Brundtland, fyrrverandi forsætisráðherra Norðmanna, leiddi í lok níunda áratugar síðustu aldar.
Sjálfbær þróun byggist á þremur undirstöðuþáttum sem vísa til efnahags, umhverfis og samfélags. Það skiptir máli hvort og þá hver þessara þátta er settur í forgrunn. Algengt er að stilla þeim upp sem jafn mikilvægum en færa má sterk rök fyrir því að umhverfið sé undirstaða hinna þáttanna tveggja þar sem þeir fengju vart þrifist án lífvænlegs náttúrulegs umhverfis. Segja má að efnahagsþátturinn sé drifkraftur breytinga, umhverfið setji slíkri starfsemi ákveðin viðmið og takmarkanir en tilgangur þessa alls ákvarðist þó fyrst og fremst af samfélagslegum markmiðum og gildum.
Sjálfbær ferðaþjónusta?
Markmið sjálfbærrar þróunar er að ferðaþjónusta (og öll atvinnustarfsemi) þrífist í jafnvægi milli grunnþátta sjálfbærni. Sem atvinnugrein byggir ferðaþjónusta á auðlindum náttúru og samfélags og hefur veruleg áhrif á þau svið. Meðvitund ferðaþjónustunnar víða um heim um viðfangsefni sjálfbærrar þróunar hefur vaxið, ekki síst í kjölfar innleiðingar Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna (UNSDG) árið 2015. Alþjóðaferðamálasamtökin (e. World Tourism Organisation, UNWTO) hafa skilgreint tengsl ferðamála við öll 17 markmiðin og þau 169 mælanlegu viðmið sem þar er að finna.
Sjálfbær ferðaþjónusta mætir þörfum ferðamanna og heimamanna en stuðlar um leið að verndun og auknum markaðstækifærum til framtíðar. Þetta felur í sér að auðlindum er stjórnað með þeim hætti að efnahagslegum, félagslegum og fagurfræðilegum þörfum er fullnægt, á sama tíma og viðhaldið er menningu, nauðsynlegum vistfræðilegum ferlum, líffræðilegri fjölbreytni og nauðsynlegum lífsskilyrðum.
Núverandi leiðarljós stefnumótunar er því ekki gripið úr lausu lofti heldur hafa hugmyndir um sjálfbærni lengi verið hluti af orðræðu um þróun ferðaþjónustunnar hér á landi.
Miklar vonir eru bundnar við ferðaþjónustu um allan heim, ekki síst á jaðarsvæðum hvort heldur sem er í norðri eða suðri innan landa eða í hnattrænum skilningi. Þekkjum við það vel hér á landi þar sem horft er til greinarinnar sem hreyfiafls atvinnulífs og hagvaxtar. Ýmsar ástæður eru fyrir því, meðal annarra að ferðaþjónusta byggir á staðbundnum auðlindum sem ekki verða auðveldlega teknar í burtu eins og oft vill verða á jöðrum sem eru helst uppspretta hráefna fyrir iðnvædda framleiðslu á kjarnasvæðum. Það er til dæmis erfitt að endurskapa töfra Jökulsárlóns eða Dimmuborga annars staðar en einmitt þar sem þessi náttúrufyrirbrigði er að finna. Einnig má nefna að þröskuldur fyrir frumkvöðla inn í greinina er tiltölulega lágur. Ferðaþjónusta, eins og hún er oftast stunduð hérlendis, krefst lítilla fjárfestinga miðað við t.d. álframleiðslu eða uppbyggingu gagnavera. Hugmyndin um ferðaþjónustu sem þetta hreyfiafl má sjá skýrt í Heimsmarkmiðum SÞ þar sem henni er ætlað að …









