Það hefur margt verið rætt og ritað um áhrif lífeyrissjóða á íslenskt efnahagslíf, allt frá áhrifum þeirra á sparnað og framfærsluöryggi eldra fólks yfir í umfang þeirra og stærð eignarhluta þeirra í íslensku atvinnulífi. Einstaka rödd hefur heyrst um að samspil lífeyrissjóða og ellilífeyris og annarra bóta frá Tryggingastofnun kunni að hafa þau áhrif að fólk með lágar tekjur fái minna út úr þeim breytingum sem tilkoma lífeyrissjóða felur í sér en þeir sem hafa hærri tekjur. Hér fyrir neðan er lýsing á tilraun til að mæla þessi áhrif.
Forsendur
Á undanförnum áratugum hafa reglur um lífeyrissjóði breyst mikið. Það sama gildir um greiðslur frá hinu opinbera, t.d. ellilífeyri. Hér verður ekki reynt að áætla áhrif allra þessara breytinga, heldur reynt að gefa hugmynd um áhrif samspils lífeyrissjóða, skatta og greiðslna frá hinu opinbera með því að mæla áhrif af mismunandi fyrirkomulagi lífeyrissjóða á tekjur fólks í mismunandi tekjuhópum þegar tekið er mið af reglum um tekjuskatt og greiðslur frá Tryggingastofnun sem giltu á árinu 2023. Gert er ráð fyrir að þær gildi, með eðlilegum breytingum sem taka mið af hagvexti á mann, alla ævi allra í hagkerfinu. Til einföldunar er gert ráð fyrir að allir búi við sömu reglur um lífeyrissjóði og að hagvöxtur á mann sé föst stærð, 1,25% á ári. Gert er ráð fyrir að starfsævi allra sé 46 ár, allir séu í fullri vinnu, alla ævi í sama tekjuhóp og allir lifa í 14 ár eftir að starfsævinni lýkur.