Á undanförnum árum hefur verð á matvöru verið einn af þeim liðum sem ýtt hefur undir verðbólgu hér á landi. Þær hækkanir má rekja til ólíkra þátta, t.d. framboðshnökra hér á landi og alþjóðlega auk mikillar eftirspurnar innanlands.
Verðlagseftirliti ASÍ er ætlað er að veita aðhald gegn verðhækkunum. Eftirlitið hefur tekið stakkaskiptum frá ársbyrjun 2023. Verðlagseftirlit ASÍ á dagvöru byggir í dag á heildarsöfnun verðupplýsinga með rafrænni vöktun og verðskönnun á vettvangi. Þetta gerir eftirlitinu kleift að gera mun ítarlegri samanburð á verðum en áður. Afraksturinn hefur verið greining á áhrifum útsölu á byggingarvörumarkaði, verðstríð í sölu páskaeggja, rangar verðmerkingar í verslunum, og samdægurs verðathuganir á verðlagi þegar ný verslun kom inn á markaðinn í ágúst.
Hundrað milljón verðpunktar
Grunnur eftirlitsins tekur nú inn 350.000 daglega verðpunkta úr vefverslunum og um 18.000 vikulega verðpunkta úr verslunum sem ekki birta verð á vefnum. Afrit af rafrænum gögnum og myndum eru geymd til að tryggja rekjanleika. Rafrænir verðpunktar á skrá eru nú um 120 milljón talsins og verðpunktar teknir í verslunum nálgast eina milljón.
Tímarunurnar sem grunnurinn geymir leyfa verðsamanburð aftur í tímann, til dæmis þegar falsafslættir eru auglýstir eða þegar nýjar aðferðir til að bera saman verslanir eru innleiddar. Til stendur að gera verðsögu á vörum aðgengilega í gegnum smáforrit verðlagseftirlitsins, Nappið, á næstunni. Verðsaga er nú þegar aðgengileg á vef verðlagseftirlitsins, verðlagseftirlitið.is.
Almenningur tekur þátt í verðlagseftirliti
Heildarsöfnun rauntímaverðupplýsinga gerir verðlagseftirlitinu kleift að miðla gögnum með öðrum hætti en með gömlu aðferðafræði staðlaðra verðkannana. Verðlagseftirlitið gaf fljótlega út smáforritið …