Til baka

Aðrir sálmar

Mótsagnakenndur heimur

Þar sem ómögulegt er að vita hvernig næsta vika verður

Mögulega erum við að horfa fram á einhver mestu umskipti í heimshagkerfinu á okkar líftíma. Að hluta til vegna forsetatilskipunar á miðvikudaginn í síðustu viku, sem verið er að breyta. Fátt bendir nú til hjöðnunar tollastríðs Bandaríkjanna við Kína þó restin af heiminum hafi fengið frest. Þá gætu mótmæli fólks á götum úti og viðbrögð fjárfesta á mörkuðum orðið til þess að breyta gangi sögunnar. En enginn veit. Því ómögulegt er að vita hvað gerist næst í Hvíta húsinu.

Ísland tilheyrir dreifbýli heimsins. Það eru örfáar milljónir íbúa heims sem lifa eins norðarlega á jörðinni og við hér. Íslendingar tilheyra einnig hópi allra ríkustu jarðarbúa. Við viljum stundum nýta okkur að vera einhverskonar miðpunktur. Þegar við höldum skákeinvígi eða leiðtogafundi, erum mikilvæg flugvélum í kafbátaleit eða vegna eldgosa sem stöðva flugumferð, svo dæmi séu nefnd.

En við hér á þessum hjara veraldar erum líklega líkari nágrönnum okkar Grænlandi og Færeyjum frekar en nokkrum öðrum löndum. Þó íbúarnir geti verið ólíkir. Nágrannar okkar og vinir Grænlendingar opnuðu nýjan og stærri flugvöll síðasta haust. Hann hefur komið þeim á heimskortið, vegna þess að þar lenti sonur Bandaríkjaforseta á vel merktri einkaþotu í upphafi árs. Varaforsetinn kom síðan með föruneyti en lenti í herstöðinni, fyrir nokkrum dögum.

Hagræn áhrif atvinnugreina eru reglulega til umfjöllunar hér í blaðinu. Fyrir tveimur vikum kom fram í grein að hreinar tekjur ríkissjóðs af virðisaukaskatti sem ferðamenn greiða eru meira en tvöfalt hærri en öll útgjöld til vegamála. Í framhaldsgrein í þessari viku kemur fram að fjárfestingar síðasta rúma áratug á vegum opinbera hlutafélagsins Isavia hafa verið yfir 100 milljarðar eða álíka og hálfur nýji Landspítalinn okkar kostar. Þessi fjárfesting, mest í stækkun alþjóðaflugvallarins okkar, hefur staðið undir komum fleirri gesta. En skort hefur á hagræna greiningu á þeim vexti. Greinarnar og þar umrædd þingsályktun um ferðamálastefnu eru mikilvægt skref í þá veru.