Á undanförnum árum hafa stjórnvöld unnið að mótun stefnu fyrir flestar listgreinar í gegnum víðtækt samráð við hagsmunaaðila á hverju sviði. Árið 2023 var kynnt stefna stjórnvalda um málefni myndlistar til ársins 2030. Í henni er sett fram skýr framtíðarsýn ásamt aðgerðaáætlun til að ná settum markmiðum.
Framtíðarsýnin gengur út á að byggja upp öfluga og lifandi myndlistarmenningu á Íslandi. Myndlist á að gegna lykilhlutverki í samfélaginu og vera órjúfanlegur hluti af menntun, þroska og daglegu lífi landsmanna, óháð aðstæðum. Lögð er áhersla á að virða og styðja myndlistarfólk, efla kennslu og nám í myndlist og listasögu á öllum skólastigum og styrkja stöðu myndlistar sem samfélagslegs þáttar sem stuðlar að gagnrýninni og skapandi hugsun.
Þá er jafnframt lögð áhersla á að starfsemi listasafna þróist í takt við þarfir síbreytilegs samfélags og að stuðningskerfi myndlistar verði einfalt og skilvirkt. Vöxtur myndlistargeirans á einnig að endurspeglast í fjölgun gallería og fyrirtækja sem starfa á þessu sviði, auk þess sem íslensk myndlist verði sýnileg og virt á alþjóðavettvangi.
Að hafa samhæfða stefnu fyrir myndlist er afar mikilvægt. Með sameiginlegri sýn og markvissri vinnu skapast betri umgjörð fyrir listina, listafólkið og samfélagið í heild. Stefnan nær frá því að einfalda kerfi og umsýslu til þess að tryggja að list verði aðgengileg sem flestum og eðlilegur hluti af daglegu lífi, hvort sem það er í skólum, heilbrigðisstofnunum eða almenningsrýmum.
Ekki þarf að fjölyrða um hversu miklu máli skiptir fyrir listgrein eins og myndlist að hafa samræmda stefnu til að vinna að.
Varðaða leið sem …