Við lok síðari heimsstyrjaldarinnar var byggt upp á Vesturlöndum efnahags-, stjórnmála- og varnarkerfi undir forystu Bandaríkjanna. Bandaríska hagkerfið var þá það langstærsta í heimi, með líklega um 40% heimsframleiðslunnar. Þessi styrkur gerði dollarann að heimsmynt og var hann m.a.s. formlega gerður að hornsteini í myntkerfi sem tók við af gullfótarfyrirkomulagi fyrirstríðsáranna og kennt var við smábæinn Bretton Woods. Hernaðarmáttur Bandaríkjanna endurspeglaði styrk hagkerfisins og var óumdeilanlega sá langmesti í heimi.
Alþjóðlegar stofnanir
Bandaríkin stóðu að mörgu leyti vel undir þeirri ábyrgð sem fylgdi forystuhlutverki þeirra á efnahagssviðinu. Auk myntkerfisins nýttu þau styrk sinn til að koma á laggirnar ýmsum lykilstofnunum og samningum sem urðu umgjörð alþjóðaviðskipta- og fjármála. Bandaríkin lögðu stórfé í enduruppbyggingu Vestur-Evrópu eftir heimsstyrjöldina, með svokallaðri Marshall áætlun. Það fé nýttist vel, m.a. á Íslandi, sem tók þátt þótt landið hefði sloppið að mestu við eyðileggingu stríðsins og raunar safnað digrum sjóðum á stríðsárunum. Upp úr Marshall aðstoðinni spratt m.a. Efnahags- og framfarastofnunin, betur þekkt sem OECD. Bandaríkjamenn voru líka í forystu um stofnun Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, IMF (eða AGS), og Alþjóðabankans í stríðslok.
Bandaríkin lögðu jafnframt mikla áherslu á fríverslun og voru í lykilhlutverki í að koma á Almenna samkomulaginu um viðskipti og tolla, betur þekkt sem GATT, og síðar Alheimsviðskiptastofnuninni, WTO. Á vettvangi eða grundvelli GATT og síðar WTO og nokkru leyti OECD hefur verið samið um aukna fríverslun um nær allan heim síðan.
Bandaríkin gegndu líka forystuhlutverki í að þróa samkeppnisreglur og -eftirlit. Það var fyrst og fremst hugsað til innanlandsnota en hefur haft mótandi áhrif …