Til baka

Grein

Ofvirk stjórnmál og óvirk

Hvert hitamálið á eftir öðru gengur yfir stjórnmálin en undir yfirborðinu virðist ríkja sátt um að takmarka áhrif lýðræðisins

dsf7410
Mynd: Golli

Eitt af því sem einkennir stjórnmálin er mikill atgangur sem mætti jafnvel líkja við ofvirkni. Hlutirnir gerast hratt, sviðsljósið er úti um allt og stundum erfitt að festa fingur á inntak stjórnmálaumræðunnar hverju sinni. Allir sem einhvern tímann hafa notið fjölmiðlaathygli íhuga framboð og láta jafnvel slag standa. Víðtæk óánægja með hefðbundin stjórnmál birtist jafnframt í ýktum sveiflum á fylgi stjórnmálaflokka þar sem hollusta fólks við flokka ristir mun grynnra en áður. VG fór með himinskautum í skoðanakönnunum árið 2017 og hefur verið kjölfestan í tveimur ríkisstjórnum en er við að detta út af vettvangi landsmálanna. Framsókn, sem margir töldu best að kjósa 2021, er örfáum prósentum frá þröskuldnum og Sjálfstæðisflokkurinn mælist einungis með þriðjung af kjörfylgi sínu í kosningum árið 2007, og helming frá árinu 2016. Katrín Jakobsdóttir sat lengur í embætti forsætisráðherra en nokkur síðan Davíð Oddsson og Bjarni Benediktsson er þaulsetnasti formaður Sjálfstæðisflokksins síðan Ólafur Thors var og hét. En þeim verður ekki aðeins refsað í kosningum eins og tíðkaðist gjarnan áður fyrr heldur eru flokkar þeirra beinlínis í tilvistarkrísu. Ekki er öll nótt úti enn fyrir stjórnarflokkana því að kjósendur eru fljótari að gleyma og stuðningurinn sífelldum breytingum undirorpinn. Samfylkingin, sem þurrkaðist næstum út árið 2016, mælist nú yfirleitt sem stærsti flokkurinn. Og Viðreisn, sem þurrkaðist næstum út árið eftir, gæti orðið sá næst stærsti. Endurnýjun á Alþingi heldur áfram á ofsahraða. Nýir þingmenn voru rúmur helmingur kjörinna árið 2016, 12 árið 2017 og 25 árið 2021 en nú stefnir í jafnvel enn hærri tölur.

Ofvirkni stjórnmálanna birtast þó umfram allt í sögulegu uppbroti flokkakerfisins. Þessar breytingar hafa verið í farvatninu frá Hruni og hefur fjöldi stjórnmálaflokka á þingi næstum tvöfaldast síðan þá. Breytingarnar settu fyrst mark sitt á stjórnarráðið árið 2016 með Viðreisn og Bjartri framtíð. Gamli fjórflokkurinn hefur haldið velli í gengum þessar breytingar en nú virðist uppreisnin vera að ná hámarki. Frá fjórða áratug síðustu aldar hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið burðarás í íslenskum stjórnmálum og haft í hendi sér alla þræði á hægri vængnum. Nú eru hægri flokkarnir sem mælast inni á þingi þrír, og Sjálfstæðisflokkurinn mælist stundum þeirra minnstur. Að sama skapi einkenndist flokkakerfið frá fjórða áratugnum af tveimur vinstri flokkum – Alþýðuflokki / Sósíalistaflokki-Alþýðubandalagi; og Samfylkingu / VG. En nú dreifast kjósendur á fjóra flokka til vinstri við miðju. Í rústum gamla fjórflokksins starfa nú níu flokkar sem allir geta náð á þing.

Síðlýðræði eða endalok stjórnmála

Hugmyndasögufræðingurinn Anton Jäger hefur notað hugtakið ofvirk stjórnmál (e. hyperpolitics) til að ná utan um nýjan veruleika á Vesturlöndum í kjölfar aldar síðlýðræðis (e. post-democracy) eða eftir endalok stjórnmála (e. post-politics).[1] Kennismiðir síðlýðræðis á borð við Jacques Rancière og Colin Crouch lögðu áherslu á að fall Sovétríkjanna og uppgangur frjálslynds lýðræðis á heimsvísu hafi markað endalok stjórnmála í þeim hefðbundna skilningi sem útbreiddur var á 20. öld. Hægt og rólega misstu fjöldahreyfingar og stjórnmálaflokkar meðlimi sína, verkalýðsfélög voru brotin niður ásamt því sem að öðrum almannasamtökum hnignaði. Stjórnmál voru sett til hliðar á grundvelli hugmynda nýfrjálshyggjunnar þess efnis að lýðræði hefði neikvæð áhrif á gangverk markaðarins. Markaðnum var gefin laus taumurinn undir handleiðslu ókjörinna teknókrata. Þannig var efnahagsstjórnin á vettvangi hins opinbera einangruð í auknum mæli frá lýðræðislegum áhrifum. Skýrasta dæmið var tilkoma sjálfstæðra seðlabanka sem voru beinlínis undanskildir beinu aðhaldi frá almenningi, m.a. í þeim tilgangi að koma í veg fyrir ódýra fjármögnun ríkisútgjalda og nauðbeygja ríkissjóði undir „aga markaðarins“. Hugmyndin var sú að almenningur myndi láta skoðun sína í ljós á markaðinum sem neytendur, frekar en á vettvangi stjórnmálanna sem borgarar – græða á daginn og grilla á kvöldin.

En ofvirk stjórnmálamenning samtímans felst þó ekki í því að snúa af braut síðlýðræðis. Hér er ekki um að ræða afturhvarf til fjöldastjórnmála 20. aldar sem einkenndust af virkari þátttöku almennings og áttu rætur í félagslegum hreyfingum verkalýðs, bænda og kvenna. Fjöldahreyfingar og -flokkar byggðu á skýrum stéttahagsmunum og gátu stjórnmálin haft raunverulega þýðingu fyrir valdahlutföll milli ólíkra stétta í samfélaginu. Eins voru tengslin við kjósendur á vettvangi flokkanna beinni og persónulegri og kölluðu á meiri þátttöku. Samskiptin fóru fram á vettvangi flokksstarfsins eða flokksmiðla en sterkum ríkisfjölmiðill var ætlað að flytja fréttir af sanngirni. Þrátt fyrir ofvirkni stjórnmála í dag er ekki mikil virkni innan stjórnmálaflokka eða fjöldahreyfinga. Þetta sést ekki hvað síst á þeim fjölda fólks sem nú er í framboði án þess að hafa nokkurn tímann starfað innan stjórnmálaflokks. Pólitísk þátttaka felst fremur í því að svara skoðanakönnunum og læka á samfélagsmiðlum. Hinn margumtalaði dómur þjóðarinnar verður til á vettvangi vef- og samfélagsmiðla, fjölmiðlaumhverfi sem er stýrt af almannatengslum og upplýsingafulltrúum og tekur mið af hagsmunum fjársterkustu aflanna. Það er auðvitað þægilegt fyrir flokksforystu að mæta minni andstöðu á flokksþingum en um leið og gefur á bátinn hverfur fylgið og fáir eru eftir til að vinna það til baka.

Ódysseifur og sírenurnar: Fjötrun fjármálareglna

Þrátt fyrir ofvirkni stjórnmálanna er megineinkenni þeirra litlar sem engar pólitískar afleiðingar fyrir – eða áhrif á – stjórn landsins. Það mætti frekar lýsa þeim sem óvirkum stjórnmálum, þar sem bilið milli vilja almennings og stefnu stjórnvalda heldur áfram að breikka. Líkt og í nágrannalöndunum hefur seðlabankinn átt í augljósum erfiðleikum með að ráða niðurlögum verðbólgu undanfarinna missera en umgjörð peningastefnunar, sem er í höndum teknókrata sem lúta litlu lýðræðislegu aðhaldi, er ekki til endurskoðunar. Þess í stað er markmiðið að auka vægi þessarar andpóltísku nálgunar með því að yfirfæra hana á ríkisfjármálin í formi fjármála- og stöðugleikareglna í anda þess sem hagsögufræðingurinn Adam Tooze hefur lýst.[2] Fjármálareglur, sem ruddu sér fyrst til rúms alþjóðlega á tíunda áratugnum, voru innleiddar á Íslandi árið 2016. Fjármálareglurnar íslensku eru enn strangari en Maastricht-skilyrði Evrópusambandsins, þær gera einungis ráð fyrir að halli á ríkissjóð megi ná 2,5% af landsframleiðslu (í stað 3% í ESB) og afkoman þurfi að vera jákvæð yfir fimm ára tímabil, auk þess sem skuldir eigi að vera undir 30% (í stað 60%).

Innleiðing fjármálareglna var umdeild á sínum tíma enda líkt og tölurnar hafi verið valdar af handahófi. VG tók afstöðu gegn reglum sem lögfestu „hægri sinnaða efnahagsstefnu“. Fyrrverandi ríkisskattstjóri taldi þær óskynsamlegar. Í viðtali við Stundina benti stjórnmálahagfræðingurinn Mark Blyth á að reglurnar væru fráleitar og gögnuðust einungis fjármagnseigendum og ráðandi stéttum. Blaðamaður Stundarinnar (Jóhann Páll Jóhannsson, núverandi þingmaður Samfylkingarinnar) taldi þá reglurnar jaðra við „banni við keynesískri hagstjórn“.[3]

Ísland er því í hópi þeirra landa sem hafa gengið hvað lengst í því að takmarka svigrúm stjórnmálanna og áhrif lýðræðisins. Líkt og fjármálaráðuneytið útskýrði í umræðuskýrslu í apríl s.l. byggja fjármálareglur á kenningum úr sarpi almannavalsfræða (e. public choice theory) þess efnis að stjórnmálunum séu í grundvallaratriðum ekki treystandi. Stjórnmálamenn vilji ávallt „bjóða sem mesta opinbera þjónustu, tilfærslur og fjárfestingar“. Til þess að standa undir óhóflegum velferðaráformum, sem almenningur kallar sífellt eftir, verði ríkissjóður rekin með halla og skuldum safnað. Fjármálaráðuneytið telur því að setja verði stjórnmálunum skýrar reglur: „Ábyrg fjármálastefna“ kallar á að hið opinbera „bindi eigin hendur, rétt eins og þegar Ódysseifur lét reyra sig við mastur skipsins“.[4] Ef fjármálaráðuneytið skipar sjálfu sér í hlutverk hetjunar Ódysseifs í kviðu Hómers er þjóðin væntanlega fulltrúi sírenanna sem reyna að seiða ríkissjóð með söngvum sínum til að kalla fram óhóflegar lífskjarabætur sem verjast þarf með örþrifaráðum.

Hætta almannavalsfræða

Margt mætti segja um almannavalsfræðin en hér nægir að drepa á því að forvígismaður þeirra, hagfræðingurinn James M. Buchanan, telst til helstu kennismiða nýfrjálshyggju. Buchanan, sem kom ásamt Milton Friedmann og Friedrich von Hayek til Íslands í upphafi níunda áratugarins, taldi lýðræði ógn við óhefta virkni markaða. Líkt og félagsfræðingurinn Melinda Cooper færir rök fyrir tók almannavalsfræði Buchanans mið af ótta hans og annarra við borgararréttindabyltinguna í Bandaríkjunum, og þá einkum kosningarétt svartra í Suðurríkjunum. Með stuðningi auðjöfra á borð við Koch-bræður beitti Buchanan sér fyrir því að festa ákvæði í stjórnarskrá um jöfnuð í ríkisfjármálum sem og takmarkanir á skattlagningu. Ljóst er að mikilvægt er að tryggja ábyrgð í efnahagsstjórninni á hverjum tíma. En eins og fjölmargt fræðafólk hefur bent á einkennast fjármálareglur af þessari hugmyndafræðilegu nálgun sem þjónar tilteknum stéttahagsmunum. Útgjöldum til samfélagslegrar fjárfestingar, velferðarmála og jöfnuðar eru þröngar skorður settar en hagsmunir fjármagnseigenda settir í öndvegi.[5]

Nú í aðdraganda kosninga birtast hin óvirku stjórnmál í víðtækri pólitísk sátt um fjármálareglur. Þær voru aftengdar á tímum COVID en taka aftur gildi að óbreyttu árið 2026 og það án allrar endurskoðunar. Því munu kvaðir um skuldahlutfall ríkissjóðs koma niður af hörku vegna óhjákvæmilegrar skuldasöfnunar í faraldinum. Flestir flokkar vilja ekki aðeins virkja fjármálareglurnar óbreyttar á nýjan leik, og það sem fyrst, heldur er tekið undir ákall Samtaka atvinnulífsins, Viðskiptaráðs og Fjármálaráðs sem leggur áherslu á innleiðingu útgjaldareglu (eða stöðugleikareglu) til viðbótar. Hún myndi binda hendur Alþingis enn frekar en fyrirliggjandi er – því hún gerir ráð fyrir að sett verði mörk fyrir vexti útgjalda milli ára (en aukist þau umfram viðmið er krafa um varanlegar tekjuráðstafanir til að mæta þeim). Þannig er stefnt að því að koma í veg fyrir að útgjöld vaxi hraðar en sem nemur hagvexti, jafnvel þó svo að opinber fjárfesting sé oftar en ekki forsenda verðmætasköpunar.

Þrátt fyrir ofvirka stjórnmálamenningu fara því möguleikar almennings til að móta stefnu stjórnvalda dvínandi. Sífellt fleiri stjórnmálaflokkar taka vel í að efla vald ríkissáttasemjara eða jafnvel yfirfæra andpólitíska umgjörð hagsstjórnarinnar á vinnumarkaðinn með því að festa launaákvarðanir við þróun hagvaxtar eða framleiðni tiltekinna atvinnugreina. En á sama tíma stefna stærstu flokkarnir að því að „afhúða regluverk“ og leyfisveitingaferli fyrir fjármálastofnanir, orkufyrirtæki, sjókvíaeldi sem og gróðadrifna starfsemi í heilbrigðiskerfinu.[6] Hvert hitamálið á eftir öðru gengur yfir stjórnmálin en undir yfirborðinu ríkir víðtæk sátt um hertar reglur sem takmarka áhrif lýðræðisins annars vegar og um afregluvæðingu sem greiðir götu fjármagnsins hins vegar.

Tilvísanir

  1. Anton Jäger, Hyperpolitik (Berlin, 2023).

  2. Adam Tooze, Debt hawks are flapping their wings. Social Europe 17. maí 2021. https://www.socialeurope.eu/the-debt-hawks-are-flapping-their-wings

  3. Stundin 4. apríl 2017 og 29. mars 2017.

  4. Fjármálareglur. Umræðuskýrsla (Fjármálaráðuneytið, Apríl 2024), s. 17. https://www.stjornarradid.is/library/02-Rit--skyrslur-og-skrar/Fj%C3%A1rm%C3%A1lareglur%20-%20Umr%C3%A6%C3%B0usk%C3%BDrsla%20-%2020240422.pdf

  5. Sjá frétt á vef Samtaka iðnaðarins 14. nóvember 2024 https://www.si.is/frettasafn/allir-nema-vinstri-graen-aforma-ad-afhuda-regluverk

  6. Sjá t.d. Melinda Cooper, Counterrevolution (Princeton, 2024) og Clara Mattei, The Capital Order (Chicago, 2022).

Næsta grein