Evrópusambandið er tvennt í senn: Efnahagsbandalag og friðarbandalag.
Fyrri parturinn er augljós. Sambandinu er ætlað að vera eins og fullvalda ríki þar sem sýslumörk og hreppamörk hefta í engu viðskipti án þess þó að aðildarlöndin þurfi að sameinast til fulls. Þau halda fullveldi sínu en deila því hvert með öðru.
Hugsunin er þessi: Ein mynt, engir tollar innbyrðis eða önnur slík höft, frjálst flæði vöru, þjónustu, fólks og fjármagns innan sambandsins, náið samstarf einnig á ýmsum öðrum sviðum innan settra marka, allt til að glæða viðskipti og efla hagkvæmni, lækka verð og vexti og lyfta lífskjörum fólksins. Þetta hefur ESB tekizt mætavel á heildina litið. Þetta er svolítið eins og þegar við bregðum okkur úr Kópavogi suður í Hafnarfjörð án þess að þurfa að lenda í tollskoðun eða öðru viðlíka.
Síðari parturinn, friðarhlutinn, er ekki eins borðliggjandi þótt brýnn sé. Evrópa var blóðvöllur um aldabil, en ESB-löndin hafa haldið friðinn hvert við annað frá stríðslokum 1945 svo sem til var stofnað. Samt héldu þau sum áfram að berjast fjarri heimahögum að lokinni heimsstyrjöldinni, til dæmis Frakkar í Alsír 1956-1962 og Belgar í Kongó jafnvel fram yfir sjálfstæðistöku landsins 1960. Friðarviljinn var blendinn. Heimurinn er ekki fullkominn.
Helmut Kohl, þá kanslari Þýzkalands, kom fögrum orðum að friðarhugsjóninni að baki ESB þegar hann sagði að Þjóðverjar byndu glaðir aðra hönd sína fyrir aftan bak svo að nágrannar þeirra þyrftu aldrei framar að óttast hernaðaryfirgang af hálfu Þjóðverja. Hann var að lýsa því sem í því felst að þjóðlönd deili fullveldi sínu hvert með öðru. Óskorað fullveldi ætti engri þjóð að finnast eftirsóknarvert, ekki frekar en það tíðkast til dæmis að fólk sem gengur í hjónaband heimti við altarið óskorað fullveldi hvort gagnvart öðru. Að heimta óskorað fullveldi í samskiptum er eins og að heimta afnám umferðarreglna – Enga frelsisskerðingu! Enga götuvita! – og kalla þannig yfir sig kaos.
Útvíkkun í áföngum
Það tók Evrópulöndin tíma að þoka ESB á þann stað þar sem það er núna. Stiklum á stóru.
Frakkar og Þjóðverjar skildu að átök um yfirráð yfir náttúruauðlindum, einkum kolum og stáli, höfðu átt ríkan þátt í stríðsátökum landanna á fyrri tíð. Þeir ákváðu því eftir stríðslokin 1945 að setja umráð yfir þessum auðlindum undir sameiginlega stjórn með stofnun Kola- og stálbandalagsins 1951. Samstarfið gekk vel svo að ákveðið var að færa út kvíarnar og hefja hliðstætt samstarf á fleiri sviðum. Þannig varð ESB til smám saman, skref fyrir skref, teygði sig yfir víðari völl og laðaði til sín æ fleiri lönd með tímanum. Aðildarlöndin eru nú orðin 27 og fer fjölgandi.
Greina má milli nokkurra áfanga á langri leið ESB frá 1951 til þessa dags. Fyrst kviknaði hugmyndin um að fyrrum fjandmenn, einkum Frakkar og Þjóðverjar, rugluðu saman reytum sínum og byndust traustum böndum til að tryggja frið í álfunni og bæta lífskjör fólksins. Löndin voru sex í byrjun, 1957: Ítalía, Holland, Belgía og Lúxemborg auk Frakklands og Þýzkalands. Hvert land bjó sem fyrr að eigin mynt (lírur, gyllini o.s.frv.).
Sjö þeirra landa sem treystu sér ekki strax til inngöngu í ESB stofnuðu með sér Fríverzlunarsamtök Evrópu (EFTA) 1960 eins og til að búa sig undir aðild að ESB í fyllingu tímans. Þetta voru Austurríki, Bretland, Danmörk, Noregur, Portúgal, Sviss og Svíþjóð. Finnland fékk aukaaðild að EFTA 1961 þar eð Finnar treystu sér ekki til fullrar aðildar af tillitssemi við Rússa. Finnar fengu síðan fulla aðild 1986. Ísland gekk í EFTA 1970. Danir og Bretar fluttu sig úr EFTA í ESB 1973 og Írar bættust þá í hópinn án viðkomu í EFTA. Austurríki, Finnland og Svíþjóð fluttu sig úr EFTA í ESB 1995.
Þið þekkið muninn: EFTA er viðskiptabandalag sem kveður einkum á um lága tolla í viðskiptum aðildarlandanna innbyrðis og sameiginlegan toll út á við. ESB er víðfeðmara efnahagsbandalag sem kveður á um samstarf ekki bara í viðskiptamálum heldur einnig nú orðið í peningamálum (ein mynt, evran), samkeppnismálum o.fl.
Næsta áfanga var náð þegar fjórfrelsið var innleitt 1992: frelsi í viðskiptum með vörur, þjónustu, vinnuafl og fjármagn og upptaka evrunnar, sem gekk í garð 1999. Af því varð að ESB og EFTA gengu í eina sæng með myndun Evrópska efnahagssvæðisins (EES) 1995, en þá voru aðeins Ísland, Liechtenstein, Noregur og Sviss eftir í EFTA þar eð öll hin EFTA-ríkin voru þá komin inn í ESB eins og lagt var upp með. Áður hafði Grikkland gengið í ESB 1981 og Portúgal og Spánn 1986, Grikkland og Spánn án viðkomu í EFTA. Öll löndin þrjú voru nú laus undan oki einræðis og undirstrikuðu hugsjónir sínar og skuldbindingar sem lýðræðisríki með inngöngu í ESB. Austurríki, Finnland og Svíþjóð gengu í ESB 1995 eins og áður sagði að undangengnum þjóðaratkvæðagreiðslum 1994, en Norðmenn höfnuðu þá aðild í þjóðaratkvæði eins og þeir höfðu áður gert 1972.
Engin þjóðaratkvæðagreiðsla fékkst haldin á Íslandi 1994 þótt – eða kannski einmitt af því að – skoðanakannanir Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands sýndu nauman en staðfastan stuðning meiri hluta kjósenda við inngöngu í ESB. Alþingi lét sér þó nægja að samþykkja aðgang að EES eins og Norðmenn gerðu og Liechtenstein, en ekki Sviss. Aðild Íslands að EES skipti sköpum, meira um það að neðan. Svisslendingar hafa fótað sig utan EES og ESB og innan EFTA með rækilegum sérsamningum við ESB.
Nýr áfangi náðist þegar átta nýfrjáls lönd í Mið- og Austur-Evrópu gengu í ESB 2004 (Pólland, Tékkland, Slóvakía, Ungverjaland, Slóvenía, Eistland, Lettland og Litháen) auk Kýpur og Möltu. Tvö önnur Austur-Evrópuríki gengu inn 2007 (Búlgaría og Rúmenía) og loks einnig Króatía 2013. Innganga fyrrum kommúnistaríkja í ESB var mörgum fagnaðarefni í ljósi alls sem á undan var gengið, síðbúinn léttir. Yfirgnæfandi stuðningur kjósenda í þessum löndum við aðild að ESB speglaði þrá þeirra eftir nánara samneyti við lýðræðislöndin vestar í álfunni og löngun þeirra til að tryggja sér frelsi undan hættunni á yfirgangi Rússa. Bretar gengu úr ESB 2020 (eftir Brexit kosninguna 2016, þið munið).
Átta lönd í bið – eða níu
Átta lönd bíða sem stendur inngöngu í ESB, mislangt komin í samningaferlinu. Þau eru Albanía, Bosnía og Hersegovína, Georgía, Moldavía, Norður-Makedónía, Serbía, Svartfjallaland og Tyrkland. Öllum er alvara nema kannski Tyrkjum sem sóttu um aðild 1987 og eru enn í biðstöðu eftir bráðum 40 ár. Hinum sjö er öllum fyllsta alvara. Þau sækjast eftir samneyti við Evrópulöndin og slægjast meðal annars eftir meiri stöðugleika í stjórnmálum, frelsi fólksins til að njóta sömu réttinda, þar með talin atvinnuréttindi og rétturinn til náms hvar sem er innan ESB, betri aðgangs að vörum, þjónustu og erlendri fjárfestingu hvaðan sem er af svæðinu og ríkulegri verndar almennings í félags- og mannréttindamálum, umhverfismálum og neytendamálum. Fyrir sína parta sér ESB sér hag í meiri hagsæld fólks og fyrirtækja á svæðinu, sterkari rödd í heimsmálum í krafti samtakamáttar, meiri fjölbreytni, meiri rækt við lýðræði, mannréttindi, lög og rétt og betri tryggingu fyrir friði og öryggi í álfunni.
Að réttu lagi ætti Ísland að vera í þessum hópi landa á biðlistanum þar eð aðildarumsókn Alþingis fyrir Íslands hönd frá 2009 hlýtur enn að teljast vera í gildi. Einhliða tilraun þv. utanríkisráðherra til að draga umsóknina til baka 2015 er marklaus þar eð ráðherra getur ekki á eigin spýtur afturkallað ákvörðun Alþingis. Ráðherrann gerði þarna tilraun til skemmdarverks sem snerist um að þvinga fram þá niðurstöðu að Alþingi þyrfti að hefja nýtt umsóknarferli á upphafsreit með því að afla stuðnings hvers aðildarlands fyrir sig. Alþingi getur hvenær sem er tekið upp þráðinn að nýju og ESB mun þá trúlega setja Ísland aftur á listann yfir umsóknarlönd án þess að krefjast nýs samþykkis hvers aðildarlands fyrir sig.[1]
Aðildin að EES
Aðild Íslands að samningnum um EES skipti sköpum, sagði ég. Hana má kalla ígildi aðildar að ESB að tveim þriðju. Aðildin að EES tryggir fjórfrelsið og margt annað, en þó ekki aðild að samevrópsku fjármála- og samkeppniseftirliti og felur ekki heldur í sér skuldbindingu um að taka upp evruna. Fjórfrelsið hefur skilað sér í nýrri vígstöðu í baráttunni við landlæga verðbólgu með því að erlent vinnuafl streymir inn í landið eftir þörfum og heldur aftur af hækkandi kaupgjaldi og verðlagi á þenslutímum. Þetta er höfuðskýringin á lítilli verðbólgu í landinu undangengin 30 ár þótt verðbólga láti nú aftur á sér kræla í kjölfar heimsfaraldursins og vegna lausataka í hagstjórn. Á móti kemur að landsmönnum hefur fjölgað úr 319 þúsundum 2009 í 384 þúsund nú. Fimmti hver íbúi landsins er nú útlendingur, það er fæddur utan Íslands.
Aðildin að EES hefur reynzt vel einnig á öðrum sviðum með því að kveða á um innleiðingu og uppfærslu laga sem óvíst er að Alþingi hefði hirt um án aðhalds og eftirlits að utan. Neytendur hafa notið góðs af samstarfinu í mörgum greinum. Símtöl innan svæðisins eru nú verðlögð eins og innanbæjarsímtöl. Ísland hefur gegnum EES-aðildina eignazt aðild að evrópskum dómstólum sem hafa margoft þurft að taka fram fyrir hendurnar á íslenzkum dómstólum, nú síðast EFTA-dómstóllinn með úrskurði sínum um að íslenzkir bankar hafi gert sig seka um innheimtu ólögmætra vaxta og neytendur geti því átt endurkröfur á bankana í stórum stíl.[2]
Næsta skref
Aðildin að EES dugir samt ekki til langs tíma litið. Full aðild að ESB myndi færa Íslendingum ýmsar hagsbætur umfram aðildina að EES, þar á meðal (a) evruna og lækkun vaxta, (b) aðgang að því aðhaldi sem felst í vökulum augum fjármálaeftirlits og samkeppniseftirlits ESB og (c) aðild að auknu landvarnasamstarfi ESB-landanna sem árásarstríð Rússa í Úkraínu kallar nú á. Þarna ríður á að hafa hlutfallaskynið í lagi. Í mínum huga vega efnahags- og stjórnmálarökin fyrir aðild Íslands þyngra en þjóðernis- og varðveizlurökin að því gefnu að Ísland nái að ljúka góðum aðildarsamningi í framhaldi af þeim viðræðum sem áttu sér stað 2009-2013 og voru lagðar á ís eftir stjórnarskiptin 2013.
Rökin með og á móti aðild eru vel þekkt og þaulkembd.[3] Meiri hluti kjósenda var samkvæmt skoðanakönnunum og óháð flokkslínum hlynntur aðild allar götur frá árunum eftir 1990 fram að hruni 2008. Eftir hrun snerist meiri hluti kjósenda gegn aðild, sumpart vegna þess að hrunverjar reyndu að dreifa athyglinni frá sjálfum sér með því að skella skuldinni á útlendinga. Nú er rykið setzt að mestu og gamli meiri hlutinn fyrir aðild er aftur til staðar. Maskína kannaði haustið 2023 afstöðu landsmanna til að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðna við ESB og reyndust 57% hlynnt þjóðaratkvæði um málið, 19% andvíg og 24% hvorki hlynnt né andvíg.[4] Sé horft til þeirra sem tóku afstöðu er staðan 75% með gegn 25% á móti. Hér er þó vandi á höndum því hví skyldi Alþingi halda þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB? – eftir að hafa vanvirt úrslit þjóðaratkvæðisins um nýja stjórnarskrá allar götur frá 2012.
Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands ættu að réttu lagi að taka sér stöðu við hlið fólksins í landinu og systursamtaka sinna úti um alla Evrópu og mæla fyrir aðild Íslands að ESB. Bændasamtökin mega vera þess minnug að finnskir bændur höfðu forustu um inngöngu Finna í ESB. Færeyjar eru evruland í reynd gegnum dönsku krónuna sem er rígbundin við evruna. Tökum Evrópu – einkum Danmörku, Finnland og Svíþjóð – okkur til fyrirmyndar. Í þeim hópi eigum við heima.
Við stöndum þessum löndum ekki „framar á flestum sviðum“ þótt því væri haldið fram fyrir hrun. Reynum heldur að læra af þeim og þá munu þau kannski fá áhuga á að skoða ýmislegt af því sem við teljum okkur hafa fram að færa.