Til baka

Aðrir sálmar

Opinberun óreiðunnar

Tölulegar upplýsingar þurfa samhengi, til dæmis verðlagsþróunar, hagvaxtar og mannfjölda.

Óhætt er að segja að viss óreiða ríki í umræðu um opinber fjármál. Vissulega er hér hallarekstur á ríkissjóði af því tekjur eru minni en gjöld. En þar ríkir þó engin fjárhagsleg óreiða, heldur er aðeins um 1% halli sem teljast verður lítill halli í evrópskum samanburði, og bandarískum enn frekar.

Mikilvægustu atriðin varðandi skilning á fjármálum hins opinbera (sem er ríki, sveitarfélög og fyrirtæki í meirihluta eigu þeirra) eru þríþætt, líkt og kemur fram í annarri grein blaðs vikunnar.

Í fyrsta lagi þarf að skoða tölur yfir tíma með tilliti til verðlagsbreytinga, en ekki bara á verðlagi hvers árs. Rúmlega tvöföldum talna yfir einn áratug er í raun aðeins um þriðjungs hækkun.

Í annan stað eru hagvaxtartölur til þess fallnar að bjaga opinber fjármál, því vaxandi hagvöxtur veitir sjálfkrafa tekjuaukningu, sem síðan fylgir útgjalda aukning síðar. Í vexti er mögulegt að dylja undirliggjandi halla.

Í þriðja lagi er það aukinn mannfjöldi sem eykur bæði tekjur og útgjöld. Áratugs fjölgun íbúa um tæpan fimmtung, kemur til að mestu með innflutningi fólks frekar en líffræðilegri fjölgun. Þannig eykst fjöldi á vinnumarkaði um næstum þriðjung. Munurinn þýðir auknar tekjur og minni útgjöld.

Að öllu þessu samanteknu kemur í raun fram að hlutdeild umsvifa ríkisins í efnahagskerfi samfélagsins hefur minnkað, en ekki vaxið. Þrátt fyrir heimsfaraldur og eldgosahrinu á þessum áratug. Þau sem mæla fyrir um frekari samdrátt hins opinbera nú auka því við innviðaskuldina.

Það liggur þoka óvissu yfir heimshagkerfinu nú um stundir, vegna ótrúlegra stjórnarhátta í Hvíta húsinu, og vatnaskil verða í varnarmálum. Undir slíkum kringumstæðum megum við ekki við heimatilbúinni upplýsingaóreiðu ofan í þá alþjóðlegu. Engu skiptir hvort óreiðan í umfjöllun um opinber fjármál er vegna lélegs talnaskilnings eða (ó)viljandi óheiðarlegrar stjórmálaorðræðu. Tölurnar einfaldlega ljúga ekki – en tölurnar þarf að skilja.