Til baka

Aðrir sálmar

Öryggi og vald

Innviðir sem geta verið náttúrulegir, byggðir eða ósýnilegir eru til umræðu í öðrum sálmum vikunnar. Breytingar á mælingum vísitalna vegna húsnæðisverðs hafa verið til umræðu í vikunni. Gylfi Zoega fjallar einnig um það efni í sinni seinni grein vegna Grindavíkurhamfaranna. Þá kemur vald okkar mannfólksins yfir náttúrunni einnig við sögu.

deilimynd-asgeirbrynjar

Öryggi snýst á vissan hátt um vald. Vald yfir náttúrunni hefur löngum verið talið eitt helsta baráttuafl mannsins og verkefni hans að nýta hana sér til hagsbóta. Við sem búum nálægt náttúruöflunum vitum hins vegar að afl náttúrunnar er sterkara en okkar eigin kraftur.

Þó vissulega hafi okkur jarðarbúum tekist að hafa áhrif á loftslagið með samanteknu afli okkar og skeytingarleysi í langan tíma. Þannig hafa orðið það mikil áhrif af neyslu okkar og hegðun að loftslagið hefur breyst svo mikið að til alvarlegra vandræða horfir – líkt og kemur fram í annarri loftslagsgrein vísindafólksins Halldórs Björnssonar og Brynhildar Davíðsdóttur hér í blaðinu.

Orkan kemur úr náttúrunni svo sem í formi vatnsafls og háhitakrafts sem okkur hefur tekist að virkja hérlendis með verkfræði og annarri tækni- og verkþekkingu. Sem önnur lönd gera einnig með virkjun kjarnorku, sólarorku og vindorku. Olíunotkun er orðin barn síns tíma, líkt og hin úrelta sókn eftir orku úr spiki spendýra á borð við rostunga, seli eða hvali.

Náttúran er nokkurs konar innviður. Ár voru hér og eru annars staðar enn notaðar til flutninga, skógar breyta koltvísýringi í súrefni og svo mætti lengi telja. Þegar náttúruöflin taka sig til og brjótast fram af þeim krafti sem við nú sjáum á Reykjanesi þá duga ekki allar jarðýtur landsins til að verja allt það sem byggt hefur verið.

Húsnæði er annars konar innviður, sem við getum ekki verið án. Mælingin á húsnæðislið vísitölunnar sem notuð er til að verðtryggja lánsfjármögnunargjörninga hefur hérlendis verið miðuð við 3 mánaða meðaltal verðbreytinga húsnæðis en í Svíþjóð er notast við 30 ára meðaltal.

Fjármálakerfið okkar er samfélagslegur innviður, álíka og veitustofnanir. Spurningin er hvers vegna við höfum hannað það hér svo að reglulega verða miklar ógöngur á sviði húsnæðislána. Hví þarf að tryggja valdhöfum fjármagnsins stöðugt 3 mánaða öryggi hér á meðan að meðaltal verðbreytinga nágranna okkar miðast við 360 mánuði, sem er ámóta meðallengd lánstímans.

Næsta grein