Til baka

Aðrir sálmar

Rauveruleiki talnanna

Tölur af hagrænum toga þarf að setja í samhengi við raunveruleikann og einstrengingsleg eða bókstafsleg túlkun þeirra getur leitt til ófriðar. Greinar blaðs vikunnar eru settar í samhengi hér.

deilimynd-asgeirbrynjar

Nú eru góð teikn á lofti um að verðbólgan sé hjaðnandi. Bæði úr mælingum með vísitölum og út frá væntingum til nýlega hafins árs.

Það er merkilegt hve samhæfð orðræðan hérlendis er um það að ekki megi rekja verðbólguna til hagnaðaraukningar fyrirtækja. Þar getur túlkun talna skipt máli, auk þess sem viðmiðunartímabil talnasöfnunarinnar er annað lykilatriði. Jafnvel stærð talnanna getur villt fólki sýn.

Þó að tölur ljúgi ekki þá er samt hægt að draga mismunandi ályktanir af þeim. Það orðfæri sem kemur fram í margnefndri rammagrein síðustu Peningamála Seðlabanka Íslands um að græðgisverðbólguna sé ekki að finna hérlendis hefur farið sem eldur í sinu gegnum umræðuna um verðbólguvæntingar kringum áramótin.

Höfnunin á hagnaðardrifnu verðbólgunni kemur með sama hætti fram í aðalgrein blaðs vikunnar. Hlutdeild launakostnaðar er ítrekað sögð hafa lækkað lítilsháttar hér á landi á síðustu árum. Sú niðurstaða byggist á tölunum 63,5% árið 2018 sem lækkar í 59,2% hlutdeild launa í vergum þáttatekjum árið 2022. Vissulega getur munurinn sem er 4,3 prósentur þótt lítil tala. En hlutdeild vergs hagnaðar sem vex úr 36,5% árið 2018 í 40,8% um sömu 4,3 prósentur er ekkert endilega lítilsháttar. Það er hækkun á hlutdeild hagnaðar um vel rúmlega tíund, nánar tiltekið 11,78%.

Það mikilvæga er að hagfræðileg og tölfræðileg greining sé ekki tekin of bókstaflega heldur sé skoðuð í raunverulegu samhengi við veruleikann og sé hagnýtanleg en ekki bara fræðileg. Líkt og endurskoðun fjármálareglna Evrópusambandsins ber með sér og fjallað er um í blaðinu. Þá er ekki síður mikilvægt að skilja sambandið á milli þess mögulega og hins hagfræðilega, líkt og þriðja greinin segir frá. Þannig getur hagfræði stuðlað að friði deiluaðila alveg eins og hægt er að nota hana í hagsmunabaráttu sem fáir græða mikið á.

Næsta grein