Robert Schuman hélt fræga ræðu 9. maí 1950 og markaði yfirlýsing hans upphaf kola- og stálbandalagsins, sem lagði grunninn að Evrópusambandinu. Evrópudagurinn er haldin hátíðlegur af því tilefni. Rannís, Rannsóknarmiðstöð Íslands, hélt uppskeruhátíð í tilefni 30 ára afmælis EES á miðvikudaginn með samstarfsaðilum ráðuneytum og sendinefnd Evrópusambandsins. Eins og farið er yfir í forsíðugrein blaðsins þá hefur Ísland notið mikils ábata af Evrópusamvinnunni. Með þátttöku í samvinnunni sem samningurinn um evrópska efnahagssvæðið færði okkur fyrir þrjátíu árum fylgja bæði réttindi og skyldur.
Ekki er skynsamlegt að reikna einungis út fjárhagslegan hagnað sem ábata af góðu samstarfi eða miða bara við kostnaðinn. Með þess háttar þröngsýni ættu Evrópuríki að rukka Íslendinga verulegar fjárhæðir fyrir loftvarnir sem þau sinna fyrir okkur. Íslensk fjárlög hefðu aldrei burði til að kaupa svo mikið sem eina herþotu, að ekki sé talað um að halda henni á flugi.
Í því ljósi er merkilegt, líkt og kemur fram í ábendingum fjármálaráðs sem birtar eru í blaði vikunnar, að opinber útgjöld hérlendis náðu ekki aftur fyrra stigi eftir kostnaðarsaman heimsfaraldur líkt og samanburðarlönd þó náðu. Þau lönd auka nú öll útgjöld sín til varnar- og hermála verulega og kaupa fjölda herþotna en hérlendis er útgjaldavöxtinn erfitt að skýra nema með óstjórn. Enda þótt við höfum alveg sloppið við aukin útgjöld vegna orkuverðs- og lífskjarakrísunnar eftir innrásina í Evrópu.
Ein meginskilaboð Schuman yfirlýsingarinnar voru að heimsfriður verði ekki tryggður nema með því að nýta hugvitið og sköpunarkraftinn af sama mætti og ógnirnar sem að okkur steðja. Samþætting kola- og stálframleiðslunnar í álfunni var alls ekki gerð til að auka hagnað eða í hagræðingarskyni. Heldur var meginmarkmiðið að breyta örlögum svæðanna þar sem kol og stál, og þar með hergögn, voru framleidd – því þau svæði voru iðulega sprengd í tætlur.