Tuttugasta og fyrsta öldin er öld Internetsins og samfélagsmiðla. Þessi tækni hefur breiðst um heiminn hratt og markað lífshætti nútímasamfélaga á djúpstæðan hátt. Við finnum líklega flest fyrir þessum breytingum á eigin skinni. Samfélagsmiðlar hafa gjörbreytt hvernig við eyðum tíma okkar, hvernig við nálgumst og neytum upplýsinga, hvernig við tengjumst og stundum samskipti við fólkið okkar og nærsamfélög. Í þessari grein mun ég reifa hvað við vitum, og hvað við vitum ekki, um þessar afleiðingar. Ég mun einblína á pólitískar þróanir í hinum vestræna heimi og aðeins einn þátt í stóru myndinni, sem er nátengdur doktorsverkefni mínu: Andúð eða ofstæki gegn öðru fólki og/eða skoðunum þeirra.1
Líkt og víða í heiminum eru á Íslandi blikur á lofti hvað varðar umburðarleysi og ofstæki.2 Síðasta sumar átti sér stað umræða um hræðilegt ofbeldi og fordóma gegn hinsegin börnum á Íslandi (sjá t.d.: Rúv (2022)). Þessa dagana er í umræðunni ákæra héraðssaksóknara gegn tveim íslenskum mönnum sem sakaðir eru um ásetning til að fremja hryðjuverk. Ákæran sýnir að samskipti mannanna eru gegnsýrð af fordómum í garð minnihlutahópa (Heimildin, 2023). Þessi samfélagsvá er að minni bestu vitund áður óheyrð á Íslandi.
Hvað er sérstakt við samfélagsmiðla?
Hver sem er getur búið til efni (e. content) á internetinu og samfélagsmiðlum. Dreifing frétta og upplýsinga er einnig í höndum notenda á samfélagsmiðlum. Þetta eru nýjungar samanborið við fyrri fjölmiðlunartækni. Þannig dregur tæknin úr aðgangshindrunum í framleiðslu og dreifingu “pólitískra upplýsinga”. Það getur reynst gott eða slæmt, en þessi grein fjallar um áhættur sem þessu …