Gamalgróin reynsla íslenskrar þjóðarsálar birtist í orðtakinu um að síldin komi og síldin fari. Nú birtast fréttir af því að makríllinn, sem kom inn í sameiginlega lögsögu okkar fyrir nokkrum árum, sé nú, kanski, farinn – í bili a.m.k. Brestur í loðnu þetta fiskveiðiárið hefur viss áhrif á þjóðhagsreikninga og útflutningstekjur en veldur ekki vanda á við brotthvarf síldarinnar á síðustu öld. Sveigjanleiki hins íslenska sjávarútvegs er mikill og styrkur hans einnig. Samþjöppun þar er greind, með margvíslegum útreikningum, í annarri af greinum blaðs vikunnar.
Sveigjanleiki hins íslenska vinnumarkaðs hefur einnig eflst, þar sem aðflutningur fólks – sérstaklega af Evrópska efnahagssvæðinu – eykur styrk, stöðugleika og þrótt vinnuaflsins.
Sautján af hverjum hundrað íbúum landsins eru fæddir í öðru landi og enn hærra er hlutfallið, eða yfir 20%, meðal þeirra sem vinna á markaðnum. Sveigjanleika vinnumarkaðarins eru gerð ítarleg skil í forsíðugrein vikunnar.
Afl fjöldans er mikið og berast nú sögur af því að sá hluti vinnumarkaðarins sem þekkir vel til utan landssteinanna sé nú jafnvel að flytja inn eigin matvæli í gámum en hafi gefist upp á samþjöppun og háu verði smásölu- og stórkaupmanna. Hins vegar verður ekki séð hvernig sjálfsbjargarviðleitnin og skynsamlega hófsamir kjarasamningar fyrr á árinu muni stuðla að lækkun verðbólgunnar. Frá Nýja-Sjálandi berast nú fréttir um að fólk flýi land vegna slæmra lífskjara og hinnar háu verðbólgu. Í Japan sagði forsætisráðherran af sér í vikunni af svipuðum ástæðum. En bæði löndin berjast við um helming þeirrar verðbólgu sem er hérlendis.
Í ljósi styrks og sveigjanleika útflutningsgreina og innflutnings vinnuafls kemur á óvart hve efnahagsstjórn hér gengur erfiðlega. Mögulega má skýringa leita í því að rúmlega fjórar af hverjum tíu krónum í hagkerfinu eru gerðar upp í erlendum gjaldeyri í bókhaldi um 250 hlutafélaga.