Fátt vekur jafnmiklar deilur meðal Íslendinga og peningastefna Seðlabankans. Fáir einstaklingar eru jafnumdeildir og seðlabankastjórar og sumir þeirra umdeildari en aðrir. Það er helst kvótakerfið sem vekur jafnmiklar tilfinningar og er jafnlíklegt til þess að eyðileggja fjölskylduboð á jólum og öðrum hátíðum.
En vandinn liggur dýpra. Gengissveiflur krónunnar valda því að lífskjör breytast frá einu ári til annars. Stundum er ódýrt að ferðast til útlanda og tugþúsundir flykkjast til annarra landa en dýrt á öðrum tímum og fólk situr heima. Stundum eru nýjir bílar ódýrir, stundum dýrir. Það er hluti af menningu okkar að hugsa um og spá fyrir um gengi krónunnar. Sumar gengissveiflurnar fela í sér aðlögun hagkerfis að breyttum aðstæðum svo sem sjávarafla og fjölda ferðamanna á meðan aðrar eru óþarfar, stafa af spákaupmennsku sem oft byggist ekki á miklum upplýsingum.
Sjálfstæður gjaldmiðill, flotgengi og frjálst flæði fjármagns búa til athyglisverðar hagsveiflur frá sjónarhóli þjóðhagfræði. Hins vegar er ekki víst að hag almennings sé best borgið við slíkar aðstæður, þótt enginn geti kveðið á um slíkt með vissu.
Íslendingar bera sig oft saman við hin Norðurlöndin fjögur eða ýmis Evrópuríki. En Danmörk, Noregur og Finnland hafa meira en fjórtán sinnum fleiri íbúa og Svíþjóð meira en tuttugu og sex sinnum fleiri. Alveg eins væri unnt að bera okkur saman við Færeyinga. Íbúafjöldi á Íslandi er um sjöfaldur íbúafjöldi Færeyja. Færeyingar hafa svipaðan uppruna og Íslendingar og menning er ekki mikið frábrugðin. Í Færeyjum er efnahagslíf einhæft eins og hér á landi. Lífslíkur eru svipaðar, þær eru 83,1 ár …