Fyrr í vikunni varð vendipunktur. Kosinn var nýr forseti Bandaríkjanna. Sem hefur verið það áður. Kvenframbjóðanda úr hinni áttinni var hafnað af kjósendum, eins og fyrir átta árum.
Því var haldið fram að þetta væri mikilvægasta kosning aldarinnar, á okkar líftíma eða jafnvel í sögu Bandaríkjanna, samkvæmt umfjöllun alþjóðlegra fjölmiðla kringum síðustu helgi. Við verðum að bíða og sjá hvort Trump geri það sem hann sagðist fyrir kosningar ætla að gera.
Hagkerfið, kjáninn þinn (the economy, stupid) var slagorðið sem tryggði Bill Clinton sigur á George Bush eldri í forsetakosningunum árið 1992. Þá var samdráttur í efnahagslífinu og Írakstríðið á fullu með fullum stuðningi þjóðanna á lista hinna staðföstu.
Eitt það merkilega við niðurstöður kosninganna í Bandaríkjunum nú er hvers vegna rúmur helmingur íbúa – þriðja fjölmennasta ríkis heims, stærsta efnahagsveldisins sem ræður yfir öflugasta heraflanum og mikilvægasta gjaldmiðilinum – vilji, aftur, kjósa sér forseta sem sýnir skýra fasíska tilburði.
Hagkerfið á Íslandi er í verra ástandi heldur en það bandaríska, nú í nóvember. Hagvöxtur er -0,3% þó vonast sé til að hann nái 0,1% fyrir árslok, atvinnuleysi er 5,2%, verðbólga 5,1% og stýrivextir 9%. Í þessu næsta nágrannalandi okkur til vesturs, Bandaríkunum, er hagvöxtur nú 2,8%, atvinnuleysi 4,1%, verðbólgan 2,1% og stýrivextir 4,75%.
Miðað við þennan mun á efnahagslegum staðreyndum er, enn sem komið er, erfitt að sjá fyrir sér hvernig niðurstöður kosninga hérlendis í lok mánaðar verði – í ljósi bandarískra kosningaúrslita. Hér eru í framboði bæði konur og karlar sem hafa og hafa ekki verið í ráðherraembætti. Kjósendur ráða!