Til baka

Aðrir sálmar

Stærðfræðileg stjórnun

Samkeppni er nauðsynleg ef verslun og viðskipti eiga að blómstra. Til þess að svo verði þarf eftirlit og stjórnun sem virðir tölulegar upplýsingar og stærðfræðilegar staðreyndir. Annars losnum við ekki við hátt verðlag vegna fákeppninnar.

deilimynd-asgeirbrynjar

Guðmundur Finnbogason heimspekingur var höfundur að menntastefnu sem innleiddi lögbundna skólaskyldu hér árið 1907. Doktorsritgerð hans í sálfræði fjallaði síðar um samúðarskilninginn. En stjórnunarkenningar hans eru til umfjöllunar í forsíðugrein blaðs vikunnar. Þá er einnig rétt að bæta við að í fjölþættu og mikilvirtu þýðingarstarfi sínu þá sneri hann yfir á íslensku eina af fyrstu kennslubókunum í stærðfræði.

Nú rúmri öld síðar er vel hægt af mörgum ástæðum að hafa áhyggjur af stærðfræðilegri kunnáttu og almennu talnalæsi hérlendis. Til dæmis slær einn stærsti vefmiðill landsins því upp í vikunni að tvö af hverjum þremur nýjum störfum hér hafi myndast hjá hinu opinbera. Hið rétta er að það eru vel undir einu af hverjum þremur samkvæmt frétt á vef fjármálaráðuneytisins. Þarna er rúmlega tvöfaldur munur.

Samkeppnishæfni landsins versnar með lélegu talnalæsi og bágri stærðfræðikunnáttu. Stjórnun og stjórnsýsla sem byggir á röngum tölum getur heldur aldrei orðið góð. Stjórnendur fyrirtækja losna heldur ekki undan ábyrgð á sínum gjörðum við það að sleppa undan eftirliti. Það er ekki góð latína að svindla megi ef dómari sér ekki til, þó það þyki af sumum kanski stórmannlegt í fótbolta.

Hjákátlegt er því að heyra viðvarandi væl hagsmunasamtaka sem kvarta undan eftirliti. Einmitt þegar Samkeppniseftirlitið hefur upplýst um ólöglegt samráð tveggja helstu skipafélaga landsins er ekki skrítið að viðskiptavinir þess sæki sér skaðabætur. Væri hér sönn samkeppni þá myndu sektir og málshöfðanir leiða til rekstrarsamdráttar, jafnvel stöðvunar. Sem þá gæti skapað rými við bryggjukantana okkar til að taka til að mynda á móti Smyril Line frá Færeyjum og Maersk frá Danmörku sem sinnt gætu skipaflutningum til landsins af samkeppni og lækkað arfbundna verðbólgu fákeppninnar. Seinni grein vikunnar fjallar þó um aðrar siglingar og annað eftirlit.

Næsta grein