Í ár fögnum við 30 ára afmæli EES-samningsins. Þessi tímamót veita okkur tækifæri til þess að líta yfir farinn veg og hugsa um ávinning EES-samstarfsins og rifja upp meginmarkmið hans.
Með þátttöku í EES-samstarfinu hlaut Ísland aðgang að innri markaði Evrópusambandsins, sem í dag samanstendur af 30 ríkjum, rúmlega 450 milljón manns og um 23 milljón fyrirtækjum. Flest tengja EES-samninginn við fríverslun en í grunninn snýst EES um svo margt annað þar að auki – eins og sjá má í upphafsorðum formála EES-samningsins sem eru rituð svolátandi: „Samningsaðilar eru sannfærðir um að Evrópskt efnahagssvæði muni stuðla að uppbyggingu Evrópu á grundvelli friðar, lýðræðis og mannréttinda“. Þessi orð kristalla í raun megintilgang samningsins, þ.e. samstöðu um sameiginleg gildi Evrópu. Efnahagur og velmegun voru óneitanlega mikilvæg sjónarmið við stofnun evrópska efnahagssvæðisins og við myndun EES-samningsins, og það er óhætt að segja að evrópska efnahagssvæðið hefur borið mikinn árangur, enda telur sameiginleg verg landsframleiðsla EES heilar 14,8 billjónir evra sem eru nærri 20% af vergri landsframleiðslu á heimsvísu.
Stöðugleiki samningsins
Samningurinn stendur fyrir stöðugleika. Samningurinn stendur föstum fótum og er fyrirmynd um farsælt samstarf náinna bandamanna enda er það staðreynd að EES EFTA ríkin þrjú, Ísland, Noregur og Liechtenstein, njóta góðs af nánara samstarfi við Evrópusambandið en öll önnur ríki sem standa utan Sambandsins. Á seinustu þrjátíu árum hefur EES-samningurinn reynst sérlega sveigjanlegur og aðlögunarfær þrátt fyrir þær viðamiklu breytingar sem Sambandið hefur gengið í gegnum t.a.m. rúmlega tvöföldun á fjölda aðildarríkja ESB, breytingar á stofnanakerfi Sambandsins með undirritun nýrra ESB sáttmála, og …