
Verkalýðshreyfingin stendur frammi fyrir afar krefjandi verkefni nú þegar líður að lokum ársins 2023. Kjarasamningar losna í lok janúar og ljóst er að erfitt verður að leiða viðræður til ásættanlegra lykta. Aðstæður eru um flest óhagfelldar; mikil verðbólga, hátt vaxtastig, rýrnandi kaupmáttur, almenn dýrtíð. Við bætist síðan algjört ófremdarástand í húsnæðismálum sem stjórnvöld virðast ekki ráða við að leysa auk þess sem burðarstoðir velferðarkerfisins hafa markvisst verið holaðar að innan á undanförnum árum.
Óhjákvæmilegt er að tekið verði á öllum þessum þáttum í komandi kjaraviðræðum.
Hver ber ábyrgð á stöðugleikanum?
Sem fyrr beinist kastljósið að launafólki og því er ætlað að bera ábyrgð á stöðugleikanum sem hvorki ríkisstjórn eða Seðlabanki virðast fær um að ná. Því er ekki að neita að krefjandi aðstæður hafa ríkt í efnahagsmálum undanfarin ár. Húsnæðisbóla, alþjóðleg verðþróun og mikil þensla hafa haft gríðarleg áhrif á verðlag hér á landi, verðbólga hefur verið yfir 7,5% í 19 mánuði. Þáttur launa virðist vera sá eini sem fær umræðu. Á sama tíma er það rétt að launahækkanir hafa verið meiri en í mörgum viðskiptalöndum Íslands. Það kemur því mörgum á óvart að hlutfall launa af verðmætasköpun hefur lækkað frá 2019. Verðmætasköpun í atvinnulífinu hefur einfaldlega staðið undir launahækkunum síðustu ára og rúmlega það.
Þó má velta því upp hvort mögulegt hafi verið fyrir kjarasamninga að bremsa hagkerfið af þegar Seðlabankinn blés í húsnæðisbólu og stjórnvöld sátu aðgerðalaus hjá á meðan vöxtur ferðaþjónustu jók þenslu. Þessi þensla birtist öllum, á vinnumarkaði, á húsnæðismarkaði og í hagkerfinu öllu. Sagan segir að svo sé ekki, við slíkar aðstæður munu laun hækka. Ákveðnir hópar myndu sækja launahækkanir í gegnum launaskrið en aðrir sætu eftir.
Verðbólga mælist 8% um þessar mundir og nýlegar tölur úr þjóðhagsreikningum benda til þess að hratt kólni í hagkerfinu. Áhrif af vaxtahækkunum Seðlabankans sjást meðal annars í minni einkaneyslu heimila og samdrætti í íbúðafjárfestingu. Á móti er ekki að sjá að peningastefnan hafi haft áhrif á vöxt ferðaþjónustunnar. Aðstæður eru um margt líkar þeim sem sköpuðust fyrir efnahagshrunið, stjórnvöld blésu í húsnæðisbólu og kyntu undir þenslu og gerðu þá kröfu að launafólk eitt myndi bera ábyrgð á stöðugleikanum.
Neyðarástand í húsnæðismálum
Innan verkalýðshreyfingarinnar ríkir samstaða um að neyðarástand í húsnæðismálum landsmanna sé eitt stærsta verkefni komandi kjarasamninga og ljóst er að á þau verður lögð þung áhersla í viðræðum við fulltrúa ríkisvaldsins. Í því efni verður að horfa til bráðaaðgerða til að bregðast við margvíslegum birtingamyndum vandans; gríðarlega háu húsnæðisverði, lóðaskorti, háu vaxtastigi sem dregur stórlega úr framkvæmdum, versnandi hag leigjenda o.fl.
Til lengri tíma litið er ljóst að taka verður allt húsnæðiskerfið í landinu til endurskoðunar hvort sem litið er til framboðs, leigumarkaðar eða húsnæðislánakerfisins. Á vettvangi verkalýðshreyfingarinnar er ríkur vilji til þess að smíðað verði nýtt kerfi og er einkum horft til Danmerkur í þeim efnum. Stjórnmálamenn hafa gjörsamlega brugðist umbjóðendum sínum á þessu mikilvæga sviði og samfélag sem ræður ekki við það grunnverkefni að gera borgurunum kleift að koma sér upp þaki yfir höfuðið hlýtur að fá falleinkunn.

Minni kaupmáttur, þyngri framfærsla
Síðustu vikur hefur verkalýðshreyfingin beint athygli að boðuðum gjaldskrárbreytingum sveitarfélaga nú um áramótin. Þessar aðgerðir eru ekki fallnar til að vinna gegn verðbólgu. Þvert á móti munu þær blása í glæður verðbólgu og þar með auka álögur á skuldsett heimili. Draga þarf lærdóm af neikvæðum áhrifum gjaldahækkana á verðbólgu í byrjun þessa árs.
Ef einhver innistæða er á bak við þau ummæli ráðamanna að það sé sameiginlegt verkefni hins opinbera og aðila vinnumarkaðarins að takast á við verðbólguna er tímabært að efndir fylgi orðum.
Fjárlagafrumvarp fyrir árið 2024 gefur fá tilefni til bjartsýni. Í því birtist dapurleg samfélagssýn ráðandi stjórnmálamanna í landinu. Vaxtabætur minnka, barnabætur minnka, húsnæðisbætur minnka. Álögur á almenning verða stórauknar með tilheyrandi kaupmáttarrýrnun og erfiðari framfærslu.
Frumvarpið lýsir óverjandi forgangsröðun. Líkt og áður er allri tekjuöflun ríkisins beint að almenningi með nýjum sköttum, hækkun krónutöluskatta og gjalda. Verkalýðshreyfingin hefur lagt fram ítarlegar tillögur um nýtt og sanngjarnt skattkerfi í stað þess að hið opinbera seilist sífellt dýpra í vasa launafólks. Nú er svo komið að við þetta óhóf í skattlagningu gagnvart almenningi í landinu verður ekki lengur unað. Tímabært er að byrðunum verði dreift og að valdar atvinnugreinar, fyrirtæki og fjármagnseigendur greiði eðlilegan skerf til samfélagsins í stað þess að njóta „friðhelgi“ af hálfu stjórnmálamanna. Þetta er ekki einungis …








