Seðlabankar víðs vegar um heiminn, t.d. sá bandaríski og sá íslenski, hafa áhyggjur af spennu á vinnumarkaði og hvað hún gæti þýtt fyrir þróun verðbólgu. Með spennu er átt við að eftirspurnin sé mikil miðað við framboðið sem gæti leitt til of mikilla launahækkana og verðbólgu umfram markmið seðlabanka. Þessi hætta er minni í löndum þar sem laun hafa verið fest í samningum til langs tíma.
Áhyggjur af spennu á íslenskum vinnumarkaði eru ekki nýjar á nálinni. Fyrir tæpum 40 árum birtist grein eftir Guðmund Magnússon og Tór Einarsson þar sem bent var á miklar sveiflur í raunlaunum. Í líkani sem þeir notuðu til að skýra þessa staðreynd var gert ráð fyrir að framboð á vinnu ykist um 1% ef raunlaun hækkuðu um 5%, þ.e. raunlaunateygni framboðsins væri 0,2. Þessi lága raunlateygni framboðsins var talin leiða til þess að hagskellir, sem ykju eftirspurn eftir vinnuafli, leiddu til mikilla raunlaunahækkana og ójafnvægis í hagkerfinu.
Á þessum tíma var atvinnuleysi nær ekkert og íslenskur vinnumarkaður mjög einangraður. Íslendingar fóru eitthvað erlendis í atvinnuleit, einkum þegar stór áföll urðu eins og eftir hrun síldarstofnanna á 7. áratug síðustu aldar, en lítið var um að útlendingar kæmu til Íslands til að vinna. Fjöldi Íslendinga á vinnufærum aldri (16-74 ára) óx en sá vöxtur var óháður hagsveiflunni. Þær stærðir sem skiptu mestu til að mæta sveiflum í eftirspurn eftir vinnuafli á þessum tíma voru vinnutími á mann og atvinnuþátttaka.
Vinnutími og atvinnuþátttaka
Mynd 1 sýnir þróun meðalvinnutíma á viku. Tölur í vinnumarkaðsrannsókn Hagstofunnar ná aftur …