Til baka

Aðrir sálmar

Sveitasamfélagið

Aðrir sálmar eru dálkur aftast í hverri Vísbendingu sem nokkurskonar leiðaraskrif ritstjóra en í stærri blöðum birtast lengri leiðarar einnig eða í staðinn. Þessi birtist á baksíðu sumarblaðsins 2024.

Síðasta árið er ég starfaði sem vinnumaður á sauðfjárbýli í uppsveitum fegursta hluta landsins okkar höfðu launakröfur þróast þannig að bændurnir sem ólu mig upp á sumrin leyfðu mér að vinna talsverða aukavinnu í uppgripum á næsta bæ. Þar hafði bóndinn brugðið búi, lokað fjósinu en opnað tjaldstæði og sundlaug með heitu vatni úr Bæjargilinu. Meðal fólksins neðar í sveitinni var sá bóndi náttúrulega talinn alveg ruglaður, á sama hátt og það þótti nú alls ekki gæfulegt þegar sonurinn af næsta bæ fór utan til myndlistarnáms.

Ekki man ég hvort hugtökin ferðaþjónusta eða ferðamannaiðnaður hafi fest sig í málvitund þjóðarinnar þarna fyrir 35 árum. En þetta var víst fjölbreytilegri vinna heldur en sauðburðurinn, girðingarvinnan, heyskapurinn og smölunin. Vinnumaður hitti líka fleira fólk – en færri fjallálfa.

Óvíst er hvers virði mjólkurkvótinn væri á þessum gamla góða bæ í dag eða hvort ávöxtun ferðaþjónustu fjárfestingarinnar hafi staðist samanburð við afrakstur minkaeldisbólunnar eða æfingarinnar við myndun alþjóðlegrar fjármálamiðstöðvar í atvinnuþróun landsins.

Hitt er víst að nú er búið að malbika alveg heim í gömlu sveitina mína, hægt er að bjóða vinum að gista þar á hóteli, í sumarhúsi eða á tjaldstæði og fara út að borða á fínasta veitingastað með útsýni upp á jökul eða grilla í öruggu skjóli úti í skógi.

Þarna í nágrenninu er líka hægt að fara í ferðir upp á jökul eða ofan í hella, gegn gjaldi og undir vandaðri leiðsögn. Stýring á flæði fólks þarf ekki að vera slæm og frelsið til að ferðast verður að miðast við almennar umferðarreglur en ekki sérhagsmuni.

Á sumum bæjum neðar í sveitinni er sem betur fer enn þá stunduð sauðfjárrækt og rekin kúabú – svo gestirnir okkar geta fengið lambahrygg og skyr í eftirrétt. En við verðum samt að taka okkur á, í grænmetis- og kornrækt sem og í vegan ostagerð, ef við ætlum að verða samkeppnishæf – frekar en að láta kvótaeigendurna ráða öllu.

Næsta grein