Í Barcelóna sprauta óánægðir íbúar vatni á gesti, í Lissabon eru handskrifaðir miðar í gluggum í miðborginni. Við erum ekki dýragarður, stendur þar (We are not a zoo). Í Tromsö blómstrar umræða um hvert skuli stefna með fjölda gesta í bænum. Feneyingar mótmæla gjarnan komu stórra skemmtiferðaskipa, bærinn Hallstatt í Austurríki hefur sett sér ítölu/kvóta gesta og ótal ferðamenn kvarta sáran yfir mannþrönginni í miðhluta Flórens. Íbúar þéttbýlu Kanarí-eyjanna telja margir að samfélagið ráði ekki við gestafjöldann þar. Íbúarnir telja 2,2 milljónir en ársgestir um 14 milljón talsins. Gróflega merkir það sjö ferðamenn fyrir hvern landsmann. Hér er þessi hlutfallstala 1 á móti 6. Þéttbýli einkennir Kanarí-eyjar en strjálbýlið Ísland. Hér innanlands er ferðaþjónusta í háu áliti sem ný lyftistöng í atvinnulífinu. Sjaldan heyrist eða sést, að svo komnu máli, til mjög alvarlegra kvartana um ánauð ferðamanna hjá okkur.
Sjálfbærnin – einmitt!
Fyrir löngu hófst umræða um skipulag og hlut atvinnugreina í íslensku samfélagi. Sumir álitsgjafar vilja einhvers konar skipulag og miðlæga stefnumörkun með tilheyrandi aðgerðum en aðrir telja markaðinn geta stillt af vöxt og viðgang atvinnugreinar, oft með inngripum ríkisins. Þegar hugtakið sjálfbærni náttúrunytja kom fram fyrir allnokkrum áratugum þótti það góð nýjung í umræðunni. Hver atvinnugreinin eftir aðra hefur mótað það sem nefna má sjálfbærnistefnu. Ferðamálastefna stjórnvalda hefur sjálfbærni að viðmiði. Hugtakið burðarþol (stundum þolmörk) er órjúfanlega tengt sjálfbærni. Ella er sjálfbærni marklaust stefnumið. Við greiningu sjálfbærni er ávallt horft til þriggja þátta: Umhverfis, hagstjórnar og samfélagsins. Undir hvern þeirra falla ýmis viðmið og gildi. Undir þann fyrsta …