Kaupmáttur fólks á aldrinum 30–39 ára hefur staðið í stað í 20 ár á Íslandi, þar af í 25 ár hjá körlum. Á sama tíma hefur ójöfnuður milli kynslóða aukist mun hraðar hér en á öðrum Norðurlöndum. Vandi ungs fólks á Íslandi krefst markvissra aðgerða. Þarf „kynslóðasáttmála“ í stjórnarsáttmálann?
Kynslóðaójöfnuður aukist mun hraðar hér en á öðrum Norðurlöndum
Á tímabilinu 1999-2024 jókst kaupmáttur mismikið eftir aldurshópum. Á meðan fólk á aldrinum 30-39 ára upplifði aðeins 19% aukningu í kaupmætti ráðstöfunartekna, jókst kaupmáttur 60-69 ára um 64% og kaupmáttur 70 ára og eldri um 75%. Fólk yfir sextugu hefur því aukið kaupmátt sinn þrefalt til fjórfalt á við 30-39 ára aldurshópinn á síðustu 25 árum. Sundurliðun á kaupmáttaraukningu eftir kyni leiðir þá í ljós að munurinn milli kynslóða er meiri hjá körlum en konum, samanborið við sama kyn.
Á sama tíma virðist þróunin hafa verið með öðrum hætti í Danmörku og Svíþjóð. Á meðan munur á kaupmáttaraukningu 30-39 ára og fólks yfir sextugu var 45-56% á Íslandi var hann aðeins 23-31% í Danmörku og Svíþjóð. Kynslóðaójöfnuður hefur aukist mun hraðar á Íslandi en á öðrum Norðurlöndum.
Þessi mikli munur í kaupmáttaraukningu eftir aldri á Íslandi hefur gert að verkum að fólk á aldrinum 30-39 ára býr nú við lítillega minni kaupmátt en jafnaldrar á Norðurlöndum en eldra fólkið er betur sett á Íslandi. Kaupmáttur fólks yfir sextugu var 7-13% meiri á Íslandi árið 2022 en í Danmörku og Svíþjóð, ef leiðrétt er með hlutfallslegu verðlagi landsframleiðslunnar og gert ráð fyrir að …