Nýleg rannsókn á þátttöku í viðbótarlífeyrissparnaði sýnir að þátttakan eykst með meiri menntun og hærri tekjum. Þeir sem eru í fullu starfi taka meiri þátt en þeir sem eru í hlutastarfi og Íslendingar taka mun meira þátt en útlendingar. Konur taka meira þátt en karlar. Þetta gildir bæði um konur með maka og án maka. Þrátt fyrir að hvatar til þátttöku í viðbótarlífeyrissparnaði séu þannig að ávöxtunin eykst þegar fólk eldist eykst þátttakan ekki með aldri nema á árunum 2009-2013 og öll árin minnkar þátttakan eftir sextugt. Þátttakan var mjög lítil í byrjun, árið 1999, en óx svo hratt og náði einhvers konar jafnvægi árið 2005, lækkaði í kjölfar bankakreppunnar 2008 en eykst svo aftur á árinu 2014 á sama tíma og kynnt er sú nýjung að fólk sem taki þátt geti greitt skattfrjálst inn á húsnæðislán og inn á húsnæðissparnaðarreikninga. Mikill fjárhagslegur ábati af þátttöku í viðbótarlífeyrissparnaði ætti að hvetja nær alla til þátttöku, en svo er ekki. Árið 2017, síðasta árið sem rannsóknin náði til, tók 77% Íslendinga í fullu starfi þátt í viðbótarlífeyrissparnaði.
Mikill ábati af þátttöku
Allt frá byrjun voru hvatar til staðar til að fá fólk til að taka þátt. Eins og í tilfelli skyldusparnaðar í lífeyrissjóði hefur viðbótarlífeyrissparnaður verið undanþeginn fjármagnstekjuskatti. Einnig var frá byrjun mótframlag frá launagreiðanda. Þrátt fyrir þetta var þátttakan lítil til að byrja með eins og sést á mynd 1.
Við því var brugðist með því að hækka mótframlagið og á árinu 2002 gat það numið 2% af launum. Árið …