Sekt sem Samskipum var gert að greiða vegna samráðs við Eimskip fyrir rúmum áratug hefur að vonum vakið talsverða athygli enda upphæðin há, sú hæsta í slíku máli til þessa, og lýsingin á brotunum sláandi. Forsvarsmenn ýmissa helstu viðskiptavina skipafélaganna hafa skiljanlega lýst mikilli gremju vegna samráðsins og boðað kröfur um skaðabætur. Það mun væntanlega enda með málaferlum sem munu taka einhver ár. Stjórnendur Samskipa hafa sjálfir lítið sagt um málið opinberlega en lögmaður félagsins segir þetta allt saman misskilning sem verði hrakinn fyrir áfrýjunarnefnd samkeppnismála og dómstólum ef nefndin sjái ekki ljósið. Það á auðvitað eftir að koma í ljós hvernig það gengur. Jafnframt liggur fyrir að einn angi málsins er enn til umfjöllunar hjá héraðssaksóknara.
Það er því langt í endinn á þessu máli sem þó hefur þegar tekið langan tíma. Engu að síður er hægt að reyna að teikna upp hvar skaðinn af samráði sem þessu lendir að því gefnu að þetta sé ekki allt einn allsherjar misskilningur.
Tjón í langri keðju viðskipta
Málið snýst í grunninn um aðgerðir til að hækka það verð sem viðskiptavinir greiða og eðlilegt að horfa fyrst til þess. Viðskiptavinir í sjóflutningum eru að uppistöðu til eðli máls samkvæmt inn- og útflytjendur. Þeir eru fjölmargir en misstórir og þeir stærstu hafa væntanlega orðið fyrir mestri hækkun í krónum talið. Það er þó ekki sjálfgefið að tjónið hafi endað þar því a.m.k. hluti þess hefur komið fram í hærra verði til viðskiptavina inn- og útflytjendanna. Raunar má telja líklegt að reikningurinn fyrir hærri …