Donald Trump er nokkuð samkvæmur sjálfum sér í málflutningi um efnahagsmál. Nú, eins og fyrir áratugum síðan, kvartar hann yfir því að Bandaríkin hafi viðskiptahalla, flytji meira inn en út, á meðan aðrar þjóðir, eins og Kína, Japan og Þýskaland, hafi viðskiptaafgang, flytji meira út en inn. Og hér hefur hann nokkuð til síns máls.
Lönd sem hafa afgang á viðskiptum við útlönd framleiða meira magn vöru og þjónustu en þau kaupa sjálf og reiða sig þá á aðrar þjóðir að kaupa það sem upp á vantar (e. beggar-thy-neighbor). Þetta er einnig unnt að orða á þann hátt að afgangslöndin spari meira en sem nemur innlendri fjárfestingu og fjárfesti mismuninn erlendis, á meðan hallalöndin þurfa að nýta sér sparnað annarra þjóða til þess að fjármagna innlenda fjárfestingu. Slík stefna er ekki til fyrirmyndar nema fjárfestingartækifæri séu betri í öðru landinu eða aldursdreifing önnur.
Segja má að Bandaríkjamenn séu „neytandi til þrautarvara“ í heimshagkerfinu, kaupi það sem aðrar þjóðir framleiða og vilja ekki nota sjálfar. Bandaríkin með sinn 949 milljarða dollara viðskiptahalla geta eytt umframsparnaði Þýskalands, Kína, Japans, Niðurlanda og Noregs og komist langt með afgang Rússlands. Í Evrópu er það Bretland sem gegnir þessu hlutverki með 100 milljarða dollar halla. Þessi lönd eiga það sameiginlegt að hafa tryggt lagaumhverfi, ensku sem tungumál og djúpa fjármálamarkaði sem laðar að fjárfesta.
En af hverju skiptir þetta mynstur máli? Samkvæmt Trump eru afgangsþjóðirnar að „stela“ störfum frá Bandaríkjunum. Verðmæt störf í iðnaði hverfa og verða til í Kína, Japan og Þýskalandi. Hann …