
Þann 2. apríl 2025, á frelsisdaginn svokallaða, tilkynnti Donald Trump um víðtæka tolla á allan innflutning til Bandaríkjanna. Tollarnir hafa mikil áhrif á utanríkisviðskipti heimsins og hafa hlutabréfamarkaðir heimsins skolfið síðan. Þessi grein fjallar um hvaða áhrif Bandaríkjamenn mega búast við á kaupmátt einstaklinga, afkomu innlendra framleiðenda, sem og vöruverð. Góð leið til að spá fyrir um framtíðina er að skoða sögubækurnar og spyrja, hvað gerðist á fyrra kjörtímabili Trump þegar hann lagði á tolla?
Rökin fyrir tollum
Frá janúar 2018 og fram á mitt ár 2019 tilkynnti Donald Trump um ýmsa tolla til að vernda innlendan iðnað (e. safeguard) og flytja störf til Bandaríkjanna. Tollarnir náðu til ýmissa vöruflokka, m.a. til sólarrafhlaðna, þvottavéla, málma sem og ýmissa annarra vara frá Kína. Um mitt ár 2019 náðu þessir tollar til um 15% af heildarinnflutningsverðmæti[1] vara til Bandaríkjanna.
Bandarískir ráðamenn rökstuddu þessa tolla með þeim rökum að erlendir framleiðendur muni greiða fyrir aðgang að bandaríska markaðnum. En varð það tilfellið? Í reynd eru það bandarískir innflytjendur sem greiða tollana beint. Til þess að kostnaður tollanna flytjist yfir á erlenda framleiðendur, þurfa þeir síðarnefndu að vera reiðubúnir að sætta sig við lægra verð fyrir sínar vörur. Slíkt er fræðilega vel mögulegt, sérstaklega þegar um er að ræða stórt og áhrifamikið markaðssvæði eins og Bandaríkin. Markaðsstyrkur Bandaríkjanna getur skapað þrýsting á erlenda seljendur að lækka verð sitt, til að viðhalda samkeppnishæfni og aðgangi að markaðnum. Við þessar aðstæður geta stór ríki bætt viðskiptakjör (e. terms of trade)[2] landsins og mögulega hagsæld. Samandregið þá eru rökin fyrir tollunum að bandarískir framleiðendur auki markaðshlutdeild og/eða verð, ríkið fær tekjur af tollum og verð til neytenda hækkar lítillega eða helst óbreyt. Þannig geta heildaráhrif tollanna, í ákveðnum tilfellum, verið jákvæð, fyrir þjóðarbúskapinn sem heild.
Hvað gerðist síðast?
Fajgelbaum, Goldberg, Kennedy og Khandelwal birtu árið 2020 áhrifamikla grein í Quarterly Journal of Economics[3], einu virtasta fræðiriti hagfræðinnar, þar sem þau greina tollastefnu Trumps árin 2018-2019 og áhrif hennar á kaupmátt neytenda, afkomu fyrirtækja og tollatekjur hins opinbera. Hér á eftir verður fjallað stuttlega um helstu niðurstöður þeirra og sett í samhengi við núverandi aðstæður.
Eitt það fyrsta sem höfundarnir skoða er hvað gerðist í kringum innleiðingu þessara tolla og spyrja: Lækkaði verð (án tolla) á innfluttum vörum? Mynd 1 sýnir verðþróun á tollskyldum vörum borið saman við sambærilegar vörur sem urðu ekki fyrir tollum. Af myndinni má sjá að verð án tolla (t.v.) hélst óbreytt, en verð með tollum (t.h.) hækkar í samræmi við álagningu tollana. Niðurstaðan er því skýr, þrátt fyrir stærð og vægi Bandaríkjanna þá lækkuðu erlendu framleiðendurnir ekki verð sín og tollunum var að fullu fleytt út í verðlag og aukin kostnað til Bandarískra innflytjanda.
Dýrar þvottavélar og störf
Dæmi um verðbreytingar sem hlutust af þessum tollum má finna í skyldri rannsókn, sem birtist í American Economic Review[5] árið 2020. Þar skoða höfundarnir vikulegar verðbreytingar á þvottavélum í kjölfar tollanna sem tóku gildi á árunum 2018-2019. Niðurstöðurnar sýna að verð á þvottavélum hækkaði til neytenda að meðaltali um 12%, eða 86 dali. Sérstaka athygli vekur að jafnframt hækkaði verð á þurrkurum – sem ekki féllu undir tolla – um sambærilega upphæð. Þar sem þvottavélar og þurrkarar eru klassískar stuðningsvörur, þá sýna niðurstöðurnar glöggt að áhrif tollana geta verið víðfeðmari en virðist við fyrstu sýn.
En hvernig gekk …








