Til baka

Aðrir sálmar

Trúverðugleiki stofnana

Væntingar, virðing og traust

Umpólun á sér nú stað í margpóla heimi alþjóðasamskipta og trúverðugleiki stofnana og landa breytist hratt eins og forsíðugrein vikunnar ber skýrt með sér. Þá eru söguleg og skörp skrif skáldsins Hannesar Péturssonar einnig allrar athygli verð, í framhaldi Alaska-fundarins.

Sumar stofnanir gæta trúverðugleika síns, eins og norski olíusjóðurinn sem hefur bæði selt mikið af ísraelska hluta eignasafns síns og síðan hætti sjóðurinn í vikunni öllu eignarhaldi á Caterpillar hlutabréfum vegna aðkomu fyrirtækisins að því sem augljósleg er brot á alþjóðalögum og líklega yfirstandandi þjóðarmorð.

Eftirlitsmenning er ekki sterkur þáttur í íslenskri þjóðmenningu, en þriðji og síðasti hluti greinaraðar um eftirlitsumhverfið og innri endurskoðun ásamt innra eftirliti og áhættustjórnun birtist hér í blaði vikunnar. Víkka má út dæmin til að læra af úr heilbrigðiskerfinu með því að hlusta á umfjöllun í nokkrum Þetta helst þáttum Ríkisútvarpsins nýverið.

Til að breyta verðbólguvæntingum þarf trúverðugleika. En neysluverðsvísitalan lækkaði síðan í gær, öfugt við væntingar. Án húsnæðisliðar er verðbólga 2,8%, en hví stýrivextir þurfi að vera 7,5% stendur upp á Seðlabankann að skýra. Breyting væntinganna fylgir væntanlega.

Til að halda trúverðugleika þarf virðingu og traust. Forsendur þess, eins og heimspekingurinn og menntavísindaprófessorinn Atli Harðarson benti á í Kastljósi er að ljúga ekki og lofa ekki því sem ómögulegt er að standa við.

Fyrr í vikunni birtist fjármálaráðherra okkur í sama þætti og endurtók oft að það væri hans helsta verkefni að ná niður verðbólgunni og vöxtunum. Við getum ekki annað en trúað honum.

Forseti Bandaríkjanna vill líka lækka vexti. Hann ræðst að trúverðugleika seðlabanka lands síns með því að reyna að reka eina konu úr æðstu stjórninni til að koma fleiri körlum sér hliðhollum í stöðu til að lækka stýrivexti. Sögulegt dómsmál er í uppsiglingu þar í Washington og sjálfstæði stofnunarinnar í húfi. En sagan gefur líka vissar vísbendingar um hvernig fer þegar landsstjórnendur vilja skipta um stjórnendur seðlabanka.