Ný tilskipun Evrópusambandsins um sjálfbærnireikningsskil (e. Corporate Sustainability Reporting Directive – CSRD) er lykilstoð í stefnu sambandsins til að beina fjármagni í átt að sjálfbærum fjárfestingum og stuðla að auknu gagnsæi og langtímahugsun á fjármálamarkaði og þar með einnig í efnahagsmálum.[1]
Tilskipunin kveður ekki aðeins á um sérstaka skýrslu með árlegum reikningsskilum um sjálfbærniþætti, heldur einnig að veittar séu upplýsingar um þær óefnislegu lykilauðlindir sem viðskiptalíkan fyrirtækis byggir á, sem eru uppspretta virðissköpunar fyrir fyrirtækið. Þessar upplýsingar skulu vera hluti í stjórnendaupplýsingum (e. management report) í árlegum reikningsskilum stórra fyrirtækja og hjá öllum fyrirtækjum með skráð verðbréf á sameiginlegum evrópskum verðbréfamarkaði óháð stærð.
Þessar upplýsingar falla þó utan hins hefðbundna fjárhagslega ársreiknings (e. financial statements), sem áritun endurskoðanda beinist að. Stjórnum fyrirtækja með skráð verðbréf ber að staðfesta stjórnendaupplýsingarnar með sérstakri ábyrgðaryfirlýsingu í skýrslu sinni, sem skal vera hluti af árlegum reikningsskilum.
Samkvæmt núgildandi ákvæðum tilskipana ESB skal í þessum stjórnendaupplýsingum einnig veita glöggt yfirlit (e. fair review) um árangur rekstrarins með vísan til m.a. þróunar lykilárangursvísa (e. Key Performance Indicators – KPIs) og fjalla um stöðu og áhrif helstu óvissuþátta fyrirtækisins. Yfirlitið skal vera heildstæð og ítarleg greining á þróun og árangri í rekstri fyrirtækisins og stöðu þess í samræmi við umfang rekstrarins og hve margbrotinn hann er.[2]
Auknar kröfur um heildstæða upplýsingagjöf í stjórnendaupplýsingum, sem stjórn ber að staðfesta, kalla á aukna áherslu á samþættingu (e. integration) stjórnarhátta og reikningsskila, sem og skýra samtengingu (e. connectivity) upplýsinga. Framsetning þessara upplýsinga þarf jafnframt …