Séreignasparnaður er hin þriðja stoð íslenska lífeyrissjóðakerfisins og hefur sannað gildi sitt síðan hann var fyrst innleiddur árið 1997.
Frá árinu 2014 hefur verið heimilt að beina framlagi í séreign til niðurgreiðslu á húsnæðisláni án þess að greiða skatta. Þá er ekki um frestun á skattheimtu að ræða heldur skattfrelsi, ríkið er þá að búa til beinan skattalegan hvata til sparnaðar í formi niðurgreiðslu á húsnæðislánum.
Hvati til sparnaðar
Séreignasparnaður eykur sparnað heimila og eru einkum fyrir því þrjár ástæður. Í fyrsta lagi verður millifærsla inn á séreignarreikning sjálfkrafa í hverjum mánuði. Launafólk fær minna útborgað en safnar smám saman innstæðu. Í öðru lagi kemur mótframlag vinnuveitanda, krónu fyrir krónu upp að 2% af launatekjum þannig að séreignasparnaður hækkar ævitekjur launafólks. Í þriðja lagi felur hann í sér frestun skattlagningar sem einnig hækkar ráðstöfunartekjur fólks yfir ævina ef það er í lægra skattþrepi þegar það tekur út sparnaðinn en það var í á starfsævinni þegar það lagði í séreign. Að lokum felst umtalsverður skattalegur sparnaður í að nota framlagið til að greiða niður höfuðstól húsnæðislána.
Niðurfelling skattlagningar ef greitt er inn á húsnæðislán hvetur augljóslega til sparnaðar. Eftir að lögum var breytt til að heimila slíkar greiðslur þá hækkaði hlutfall launamanna sem greiðir í séreign mikið árið 2015.
Árleg hámarksupphæð hefur ekki verið hækkuð í samræmi við verðlagshækkanir hvað þá hækkun húsnæðisverðs. Nú er hámarksinngreiðsla 500 þúsund fyrir einstakling og 700 þúsund fyrir hjón sem er það sama og var árið 2014 þegar kerfinu var komið á. Afleiðingin er sú að úrræðið til fullrar nýtingar nær orðið mun neðar í tekjudreifinguna en vegur hins vegar minna miðað við laun og fasteignaverð en þegar það var gefið út. Það væri því skynsamlegt að hækka viðmiðunarfjárhæðirnar sem nú eru 500 þúsund fyrir einstaklinga og 700 þúsund fyrir hjón.
Ef þetta hámark hefði fylgt verðlagi væru upphæðirnar 750 þúsund krónur fyrir einstakling og 1.050 þúsund fyrir hjón.
Breytingar um næstu áramót?
Í dag eru tvenns konar úrræði í gangi. Annars vegar er það úrræði fyrir fyrstu kaupendur sem heimilar að greiða í tíu ár séreignasparnað inn á lán og síðan er það almenna úrræðið sem heimilar almenna greiðslu annarra til að greiða séreignasparnað inn á lán.
Heimild til þess að nota mánaðarlegt framlag, almenna úrræðið til þess að greiða niður höfuðstól láns mun renna út í lok þessa árs nema annað sé ákveðið. Þótt fyrir …









