Verkföll og verkbönn þekkja flestir Íslendingar vel. Einstakir árgangar lentu í endurteknum kennaraverkföllum meðan á skólaskyldu stóð, en við eldri kynslóðir þekkjum betur verkföll mjólkurfræðinga, enda minnisstætt þegar baka þurfti afmælisköku úr mjólkurdufti.
Í lögum um stéttarfélög og vinnudeilur (nr. 80/1938) kemur fram að stéttarfélögum, félögum atvinnurekenda og einstökum atvinnurekendum sé heimilt „að gera verkföll og verkbönn í þeim tilgangi, að vinna að framgangi krafna sinna í vinnudeilum, og til verndar rétti sínum samkvæmt lögum þessum, með þeim skilyrðum og takmörkunum einum, sem sett eru í lögum“. Strangar reglur gilda um boðun vinnustöðvana, hvort sem um er að ræða verkfall eða verkbann og almennt er slíku úrræði einungis beitt þegar allt annað hefur verið reynt.
Heimsmeistarar í verkföllum?
Oft er talað um að engir séu viljugri til að fara í verkföll en Íslendingar, en er það í raun svo? Í grein sem birtist á árinu 2006 (Beardsmore, 2006) trónaði Ísland á toppnum meðal 19 OECD-ríkja þar sem borinn var saman fjöldi og útbreiðsla vinnustöðvana frá 1995 til 2004. Á Íslandi voru 581 óunnir vinnudagar að meðaltali á ári á hverja 1000 starfsmenn. Næst kom Spánn með 200 óunna vinnudaga og Kanada var í þriðja sæti með 193 óunna vinnudaga á hverja 1000 starfsmenn að meðaltali. Fæst voru verkföllin í Þýskalandi, Sviss og Lúxemborg þar sem óunnir vinnudagar voru á bilinu þrír til sex. Á þessum áratug fóru tveir hópar oftar og lengur í verkföll en aðrir, kennarar og sjómenn. Þannig fóru grunnskólakennarar í verkföll bæði 1995 og 2004 og hvort …