
Verkföll og verkbönn þekkja flestir Íslendingar vel. Einstakir árgangar lentu í endurteknum kennaraverkföllum meðan á skólaskyldu stóð, en við eldri kynslóðir þekkjum betur verkföll mjólkurfræðinga, enda minnisstætt þegar baka þurfti afmælisköku úr mjólkurdufti.
Í lögum um stéttarfélög og vinnudeilur (nr. 80/1938) kemur fram að stéttarfélögum, félögum atvinnurekenda og einstökum atvinnurekendum sé heimilt „að gera verkföll og verkbönn í þeim tilgangi, að vinna að framgangi krafna sinna í vinnudeilum, og til verndar rétti sínum samkvæmt lögum þessum, með þeim skilyrðum og takmörkunum einum, sem sett eru í lögum“. Strangar reglur gilda um boðun vinnustöðvana, hvort sem um er að ræða verkfall eða verkbann og almennt er slíku úrræði einungis beitt þegar allt annað hefur verið reynt.
Heimsmeistarar í verkföllum?
Oft er talað um að engir séu viljugri til að fara í verkföll en Íslendingar, en er það í raun svo? Í grein sem birtist á árinu 2006 (Beardsmore, 2006) trónaði Ísland á toppnum meðal 19 OECD-ríkja þar sem borinn var saman fjöldi og útbreiðsla vinnustöðvana frá 1995 til 2004. Á Íslandi voru 581 óunnir vinnudagar að meðaltali á ári á hverja 1000 starfsmenn. Næst kom Spánn með 200 óunna vinnudaga og Kanada var í þriðja sæti með 193 óunna vinnudaga á hverja 1000 starfsmenn að meðaltali. Fæst voru verkföllin í Þýskalandi, Sviss og Lúxemborg þar sem óunnir vinnudagar voru á bilinu þrír til sex. Á þessum áratug fóru tveir hópar oftar og lengur í verkföll en aðrir, kennarar og sjómenn. Þannig fóru grunnskólakennarar í verkföll bæði 1995 og 2004 og hvort um sig stóð í um 40 daga. Sjómenn hafa farið í löng verkföll sem lokið hefur með lagasetningu, fremur en að samningum hafi verið náð. Ef þessir tveir hópar eru teknir út fyrir sviga voru Íslendingar með 35 óunna vinnudaga á hverja 1000 starfsmenn að meðaltali sem setur Ísland í miðju þessara 19 ríkja (Katrín Ólafsdóttir, 2009).
Árin 2005 til 2009 voru engin verkföll að undanskildu árinu 2008 þegar vinnustöðvanir voru þrjár og dagarnir 6. Þessi ár voru því minna en eitt verkfall að meðaltali á ári (Landshagir, 2012). Eftir árið 2009 er erfiðara að nálgast opinberar upplýsingar um fjölda og lengd vinnustöðvana og hversu margir tóku þátt. Á vef Ríkissáttasemjara kemur fram að á árunum 2008-2018 voru boðaðar vinnustöðvanir 105 og 50 þeirra komu til framkvæmda, eða um 5 að meðaltali á ári. Það telst varla heimsmet.
Oft er talað um að engir séu viljugri til að fara í verkföll en Íslendingar, en er það í raun svo?
Kostnaður af verkföllum
Það er dýrt að fara í verkfall og því er þeim almennt ekki beitt fyrr en önnur úrræði hafa verið reynd til þrautar. Hæsti kostnaðurinn lendir á þeim einstaklingum sem fara í verkfall því launagreiðslur falla niður á meðan á verkfalli stendur. Í sumum tilfellum er þessi skellur mildaður af greiðslum úr verkfallssjóðum, en í flestum stéttarfélögum rennur hluti félagsgjalda í verkfallssjóð. Atvinnurekendur verða einnig fyrir skaða þar sem vinnan er ekki unnin á meðan á verkfalli stendur. Það fer mikið eftir starfseminni hvort hægt er að vinna upp tap í verkfalli eða ekki. Í verksmiðju væri til dæmis hægt að lengja vaktir og vinna upp tapaðan tíma, en í ýmsum þjónustustörfum er ekki hægt að vinna upp tapaðan tíma. En það er ekki einungis vegna vinnutaps sem atvinnurekendur gætu orðið fyrir tapi, heldur er í sumum tilfellum um að ræða álitshnekki þar sem ekki er staðið við gerða samninga. Þessu er öðru vísi farið hjá hinu opinbera, þar sem tekjur og útgjöld eru ótengd. Ef opinberir starfsmenn fara í verkfall hefur það ekki áhrif á skatttekjur (að undanskildum skatttekjum þeirra sem eru í verkfalli) og í mörgum tilfellum hefur verið hægt að vinna …









