Um þessar mundir er víða fjallað um hvernig heimsmálin eru að umpólast, bæði hvað varðar öryggismál og efnahagslegt öryggi. Við blasir að þetta stafar fyrst og fremst af umpólun utanríkisstefnu Bandaríkjanna frá því að Donald Trump tók við embætti öðru sinni, en ekki síður vegna þess að þrjú ár eru síðan Rússland hóf hernað sinn gegn Úkraínu og öllu regluverki alþjóðakerfisins – hernað sem rekinn er með dyggum stuðningi kínverskra stjórnvalda.
Það sem kallað hefur verið „ótakmarkað samstarf” Kína og Rússlands er fyrst og fremst viðbragð við einpóla stöðu alþjóðamála frá endalokum Sovétríkjanna, þar sem Bandaríkin áttu enga raunverulega keppinauta. Sú staða, bæði með tilliti til efnahagslegra og hernaðarlegra yfirburða, var óþolandi og mikið áhyggjuefni stjórnvalda í Beijing og Moskvu, ekki síst eftir að í ljós kom hversu miklir þeir hernaðarlegu yfirburðir voru í Íraksstríðinu 2003. Frá árinu 2022, þegar þetta „takmarkalausa samstarf” var fyrst nefnt, hafa samskipti ríkjanna orðið sífellt nánari, viðskipti farið vaxandi og útilokað er að Rússar gætu staðið í landvinningastríði sínu án blessunar og stuðnings Kínverja.
Kína og Rússlandi hefur þegar tekist að skapa raunverulegt mótvægi við efnahagslegt vald Vesturlanda með því að byggja upp BRICS samstarfið frá stofnun þess 2009, ekki síst með ákvörðun fyrir tveimur árum um að bæta sex nýjum ríkjum við upprunalega fimm ríkja hópinn. BRICS-ríkin telja nú um helming jarðarbúa og meira en fjórðung heimsviðskipta. Eins hefur þeim orðið nokkuð ágengt að efla samskipti og samstarf við lönd á suðurhveli jarðar, sem mörg hver setja spurningarmerki við leiðtogahlutverk Vesturlanda …