Til baka

Viðtal

Umsvifin eru umfram það sem íslenska kerfið þolir

Már Guðmundsson hætti sem seðlabankastjóri fyrir næstum fjórum árum síðan. Hann hefur ennþá skýrar og undirbyggðar skoðanir á því af hverju hlutirnir í hagkerfinu eru eins og þeir eru og hvað þurfi að gera til að bregðast við þeim. Þegar hann horfir í baksýnisspegilinn er hann ánægður með stóru myndina af því sem hann skildi eftir sig eftir áratug í storminum. Enn eigi þó eftir að opinbera margt sem gekk á.

Mar_Gud21280
Mynd: Hari

Ég hætti 2019. Nú er 2023. Ég segi í fullri einlægni að það er of snemmt að leggja eitthvað mikið mat á hvernig þetta hefur allt reynst. Reynslan mun leiða það í ljós.“ Þetta segir Már Guðmundsson, fyrrverandi seðlabankastjóri, þegar hann er spurður um það hvernig honum finnist hafa tekist til á þeim áratug sem hann sat í þeim stóli.

„Þegar ég kom til starfa í ágúst 2009 voru allskonar áhyggjur uppi um að opinber fjármál væru ekki sjálfbær. Það var ekki búið að endurreisa bankakerfið og engin viss um hvernig myndi til takast við að koma á fót vel fjármögnuðu bankakerfi sem væri stöðugra heldur en það sem var áður, og hrundi. Það voru áhyggjur af erlendri skuldastöðu þjóðarbúsins, og hún væri ekki sjálfbær. Síðan hafði ég áhyggjur af því að verðbólgan myndi festast í sessi og að allur gjaldeyrisforði Íslands væri skuldsettur erlendis, hann var fjármagnaður með erlendu lánsfé og þess vegna hikuðu menn við að nota hann. Ef hann tapaðist, þá stæðu lánin eftir. Það átti eftir að koma ríkisfjármálum alveg á nýjan grundvöll vegna þess að tekjugrundvöllur ríkisins bara hrundi með bönkunum. Ég hafði líka áhyggjur af því að myndi verða töluvert langtímaatvinnuleysi. Svo átti alveg eftir að losa fjármagnshöft.“

Til viðbótar við þessi verkefni þurfti að hanna kerfið utan um þetta allt saman. Á meðal þess sem var gert var innleiðing á ýmsum nýjum stýritækjum og tólum sem Seðlabankinn hefur til að ná markmiðum sínum. Síðan var það sameining Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins og með nýju skipulagi sem felur í sér að einn seðlabankastjóri og þrír varaseðlabankastjórar, sem hver stýrir sínu sviði, fara með stjórn bankans.

Hann segir að þegar horft sé aftur sé mikilvægt að gera það á breiðum grunni. „Það sem virkar kannski voðalega mikilvægt á meðan það er að gerast, er oft í ljósi sögunnar eitthvað algert húmbúkk sem allir eru búnir að gleyma í dag. Ég er ánægðastur með stóru myndina.“

Honum sýnist að það hafi tekist þokkalega til, sérstaklega þegar kemur að því að viðhalda fjármálastöðugleika. Verðbólgan sé síðan allt önnur skepna, en Seðlabankinn vinnur eftir því markmiði að halda henni í 2,5 prósentum. Hún mælist nú 9,5 prósent. „Það er mín skoðun, og það eru fleiri á henni af gömlu seðlabankastjórunum, að kannski hafi verið gerð mistök þar varðandi það hvernig var brugðist við kórónuveirufaraldrinum. Þá er ég ekkert að tala um Ísland sérstaklega.“

Það sem gleymist oft í umræðunni hér á landi er að ofurhitnunar- ástand, sem getur líka orðið án mikillar verðbólgu, er ekki þægilegt ástand fyrir þjóðfélag
Mar_Gud21285
Mynd: Hari

Umsvifin umfram það sem kerfið þolir

Það sem sé í gangi hérlendis sé eftirspurnarverðbólga. Umsvifin í hagkerfinu séu einfaldlega of mikil. „Við verðum að hætta að tala um að þetta sé fasteignamarkaðnum að kenna. Að þetta sé Reykjavík að kenna. Að þetta sé hinu og þessu að kenna. Þetta er bara það sem þetta er. Umsvifin eru umfram það sem kerfið þolir. Það er of mikil innlend eftirspurn og það verður auðvitað að kæla hana. Oft segir fólk: Já, það er verðbólga en góðu fréttirnar eru að það er mikill hagvöxtur. Það er hins vegar bara hin hliðin á sama peningnum.“

Hann segir mikinn rugling vera í umræðunni um aðhald í ríkisfjármálum. „Þegar hagfræðingar eins og ég tala um aðhald í ríkisfjármálum þá eigum við ekki við aðhald í ríkisútgjöldum heldur aðhaldið sem útgjöld og skattar hins opinbera hafa á innlenda eftirspurn. Því er hægt að ná fram bæði á skatta- og útgjaldahliðinni.“

Ríkisfjármál geti þó aldrei verið í bílstjórasætinu við að ná niður verðbólgu þó það auðveldi auðvitað verkið að þau leggist alla vega ekki á aðra sveif. „Verðbólga er á endanum alltaf peningalegt fyrirbæri og peningastefnan verður að vera í lykilhlutverki við að takast á við hana. Það er við núverandi aðstæður líklega ekki hægt að ná tökum á henni nema raunvextir verði jákvæðir.“

Þótt verðstöðugleiki sé aðalmarkmið Seðlabankans þá geti það ekki verið eina markmið stjórnvalda sem hafi almennari markmið um að efla almannahag með sjálfbærum hætti. „Þar geta oft rekist á markmið, til dæmis það að ná niður verðbólgu hratt og þær afleiðingar sem það getur haft á aðra fleti. Það er auðvitað hægt að ná niður verðbólgu á morgun með nógu drastískum aðgerðum. Með því að tæma hús, senda fólk úr landi í stórum stíl og loka heilu atvinnugreinunum. Þá dettur þenslan niður. En það er ekki það sem við viljum. Við viljum hafa aðlögunarferli að þessu markmiði og forðast of mikinn fórnarkostnað af of snöggri niðurkeyrslu verðbólgunnar. Við viljum gefa okkur tíma til þess.“

„Gert til þess að hræða fólk frá því að gera það sem það telur skyldu sína“

Samherjamálið var fyrirferðamikið á tíma Más sem seðlabankastjóra. Það snerist um að gjaldeyriseftirlit Seðlabankans rannsakaði meint brot Samherja og tengdra félaga á skilaskyldu á erlendum gjaldeyri og meint brot sem vörðuðu milliverðlagningu á þremur fisktegundum. Ráðist var í húsleit í höfuðstöðvum Samherja vegna þessa og Seðlabankinn kærði meint brot til embættis sérstaks saksóknara. Síðar kom hins vegar í ljós, vegna annmarka á lagasetningu, að lögaðilar gætu ekki borið refsiábyrgð á lögum og reglum um gjaldeyrismál. Seðlabankinn kærði þá fyrirsvarsmenn Samherja til saksóknara fyrir sömu meintu brot en kæran var felld niður árið 2015 og endursend bankanum. Þá felldi Seðlabankinn niður stærstan hluta málsins en ákvað að leggja stjórnvaldssekt upp á 15 milljónir króna á Samherja varðandi afmarkaðan hluta, sem fyrirtækið fékk síðar hnekkt fyrir dómstólum.

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, kallaði rannsóknina aðför og eftir að málsmeðferð vegna stjórnvaldssektarinnar lauk sagði hann það vera alveg ljóst „að Már Guðmundsson hefur farið mjög illa með það vald sem honum hefur verið trúað fyrir.“ Síðar fullyrti Þorsteinn Már að það væri „nokkuð ljóst að Már Guðmundsson er á leiðinni í fangelsi.“

Aðspurður um þessi ummæli segir Már að Þorsteinn Már hafi ekki reynst sannspár þar. „Segir það ekki allt sem segja þarf?“

Már segist vera með harðan skráp og vera með fulla vissu um að Seðlabankinn hafi einungis verið að sinna sínum embættisskyldum í þessu máli. Það hafi komið fram í dómsorðum að aðgerðir bankans hafi ekki verið tilhæfulausar. „Svo er rökstuddur grunur, sem þarf að liggja að baki kæru, er ekki það sama og sönnuð sekt.“

Segir aðgerðirnar ekki hafa verið tilhæfulausar

Duldir gallar í lögum hefðu gert það að verkum að allur refsibálkurinn í löggjöfinni sem gjaldeyriseftirlitið átti að starfa eftir hafi verið óvirkur. „Og það bara vissi enginn af því! Ég bara spyr, af hverju er það ekki rannsakað? Vegna þess að það náttúrlega er stórmál.“

Már bendir á að gjaldeyriseftirlit Seðlabankans hafi ekki verið lögregla, heldur aðili sem var skyldaður til að kæra til lögreglu ef það reyndist rökstuddur grunur um meiriháttar brot á gjaldeyrislögum. Þótt kæra hafi verið send felist ekki í því fullyrðing á því að slíkt brot hafi átt sér stað og enn síður að hægt væri að fullyrða um sök eða sýknu á þeim grundvelli. „Hvað ætli þau séu mörg málin á Íslandi sem hafa verið kærð til lögreglu sem ekkert síðan verður úr út af erfiðri sönnunarbyrði og öðru þvíumlíku? Ef lögregla tekur við kæru, hvort sem það er nauðgunarkæra eða eitthvað annað, og fer í einhverjar yfirheyrslur og ferli og svo er málið fellt niður, voru þá aðgerðirnar tilhæfulausar?“

Hann segir að til séu fullt af dæmum um svona atburðarás í Íslandssögunni. „Auðvitað var í þessu tilfelli um að ræða fyrirtæki með sterka stöðu og aðgang að fjölmiðlum og kannski aðgang inn í pólitík og annað, og það náttúrlega litaði kannski málið.“

Samherji kærði Má og fjóra aðra stjórnendur Seðlabankans til lögreglu vegna rangra sakargifta. Það mál var fellt niður. Í kjölfarið fór Samherji í skaðabótamál þar sem Seðlabankinn var sýknaður af kröfum fyrirtækisins en þurfti að greiða Þorsteini Má 2,7 milljónir króna í skaða- og miskabætur.

Baldvin gerði ekki Samherja neinn greiða

Már segir að reynt hafi verið að persónuvæða málið. Það komi honum ekki á óvart enda sé það algengt víða um heim þegar rannsóknaraðilar eru að eiga við öfluga aðila. „Það er náttúrulega gert til þess að hræða fólk frá því að gera það sem það telur skyldu sína.“

Einn angi málsins sem vakti mikla athygli átti sér stað eftir opinn fund í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í mars 2019, þar sem vinnubrögð Seðlabankans í rannsókninni á Samherja höfðu verið til umfjöllunar. Eftir fundinn reyndi Már að eiga orðaskipti við Þorstein Má. Baldvin Þorsteinsson, sonur Þorsteins Más og einn helsti eigandi og stjórnandi Samherjasamstæðunnar í dag, brást illa við, stuggaði við Má og sagði: „Hafðu smá sómakennd og drullaðu þér í burtu.“

Már segir að hann hafi líklega verið eini maðurinn á staðnum sem var sallarólegur þegar þetta átti sér stað. „Það sagði einhver við mig, ég held að það hafi verið einhver stjórnmálamaður: „Vandinn við þig að þú ert orðinn svo gamall að þú haggast lítið við

svona aðstæður.“ Ég ætla nú bara að segja sem minnst um þetta, ég meina, ekki gerði hann sér greiða með þessu og ekki gerði hann Samherja greiða. Kannski gerði hann mér bara greiða. En ég læt þetta bara liggja.“

Ísland ræður ekki við svona vöxt

Hagvöxtur á Íslandi í fyrra var 6,4 prósent. Sá vöxtur var að stóru leyti tilkominn vegna þess að ferðaþjónustan, sem legið hafði í dvala á tímum kórónuveirufaraldursins, snéri aftur með miklum ofsa. Stjórnvöld höfðu stutt við greinina með gríðarlegum fjárútlátum í gegnum faraldurinn til að hún gæti verið tilbúin til að auka vöxt hratt þegar hann væri yfirgenginn.

Már segir að hagvöxturinn á síðasta ári hafi ekki verið sjálfbær. Ísland ráði ekki við svona vöxt. „Það sem gleymist oft í umræðunni hér á landi er að ofurhitnunarástand, sem getur líka orðið án mikillar verðbólgu, er ekki þægilegt ástand fyrir þjóðfélag. Það myndast spenna af öllu tagi. Það verður ekki hægt að manna nauðsynlega þjónustu og eftir því sem ástandið verður verra verður augljóst að eitthvað mun þurfa að gefa eftir. Þess vegna má ekki keyra kerfið svona mikið. Hér áður fyrr var sjávarútvegurinn sveifluvaki í kerfinu. Þar skiptust á góðærisár og ofveiði annars vegar og tímabil þar sem fiskurinn hvarf og allt fór niður. Það ástand sem við erum að horfa upp á nú, og er ein ástæðan fyrir því að það er svona mikil umframeftirspurn í hagkerfinu, er snörp viðreisn ferðaþjónustunnar. Þá þarf að beina sjónum að því að vera með einhverskonar stýritæki sem dempar sveiflur og vöxt í ferðaþjónustu þegar hann verður of mikill.“

Mar_Gud21283_unnin
Mynd: Hari

Þarf að draga úr neikvæðum hliðaráhrifum ferðaþjónustu

Aðspurður um hvers konar stýritæki bendir Már í fyrsta lagi á að það þurfi ekki að vera með örvandi hvata fyrir grein sem sé orðin jafn öflug og raunin er með ferðaþjónustuna. „Aukinn straumur ferðamanna veldur hliðaráhrifum á aðra og sum þeirra eru neikvæð. Hún býr til kostnað fyrir þá sem fyrir eru og í prinsippinu ættu ferðamennirnir og greinin að greiða þann kostnað, til dæmis með komugjöldum, gistináttagjöldum eða með gjaldtöku á ferðamannastöðum. Það er þó ekki mitt að koma með patentlausnir á því. Það er hlutverk kjörinna fulltrúa að ákveða það kerfi. Þar hafa menn allskonar áherslur. Skoðanir varðandi tekjuskiptingu eru t.d. mismunandi og það er eðlilegt hlutverk stjórnmála að takast á um það og ég ætla ekki að skipta mér að því á gamalsaldri. En þetta þarf að skoða. Þarna liggur hundurinn grafinn.“

Ferðaþjónustan hafi aukið tekjuflæði inn í hagkerfið, keyrt upp raungengi og búið til neysluspennu. „Þetta er vinnuaflsfrek grein og hún tekur til dæmis undir sig mikið húsnæði, bæði til að hýsa ferðamennina og starfsmennina. Þá skapast þær aðstæður að það vantar húsnæði og allir fara að tala um að það þurfi að byggja meira. En til þess þarf meira en lóðir og lánsfé. Það verða að vera til vinnandi hendur og það þarf að hýsa þessar hendur. Þarna er eitthvað sem vantar upp á. Það þarf að taka umgjörðina í kringum ferðaþjónustuna til skoðunar til að draga úr neikvæðum hliðaráhrifum hennar.“

Svo hafði tekist að endurreisa fjármálakerfið sem var vel fjármagnað með hátt eiginfjárhlutfall miðað við mörg önnur lönd

Þurfti að takast á við mörg stór verkefni

En aftur að baksýnisspeglinum. Á meðan Már var seðlabankastjóri, árunum 2009 til 2019, var, líkt og áður sagði, tekist á við mörg stór, og óvenjuleg, verkefni. Fjármagnshöft voru við lýði, þorra þess tíma sem hann sat í stólnum, til að hindra útflæði eigna. Það var einfaldlega ekki til nægilega mikið af erlendum gjaldeyri til að skipta eignum í íslenskum krónum, sem eigendurnir vildu fara með, í aðra mynt.

Seðlabankinn sat líka uppi með gríðarlegt magn eigna, sem voru vistaðar inni í dótturfélögum hans og síðar seldar. Virði þeirra var upp á mörg hundruð milljarða króna.

Eitt stærsta verkefnið sem Seðlabankinn og Már stóðu frammi fyrir var að leysa út þeim vanda sem orsakaði höftin svo hægt yrði að lyfta þeim. Það var á endanum ekki gert að fullu leyti fyrr en vorið 2017. Til að takast á við það verkefni beittu Seðlabankinn og stjórnvöld margháttuðum aðferðum.

Már segir að hans mesta ánægja með störf sín sem seðlabankastjóri lúti að því að það hafi, í stórum dráttum, tekist að leysa úr öllum þeim málum sem Ísland stóð frammi fyrir þegar hann tók við. Undir lok skipunartíma hans hafi staðan verið svo allt önnur að það sé nánast ótrúlegt. „Það náðist að ná jafnvægi í þjóðarbúskapnum. Þjóðarbúið lendir á stað þar sem verðbólga er við markmið og það náðist að vera með viðskiptaafgang allt tímabilið. Það hafði náðst að snúa stórlega neikvæðri eignastöðu þjóðarbúsins í jákvæða. Það hafði tekist að losa um fjármagnshöftin án þess að raska efnahagslegum og fjármálalegum stöðugleika. Það hafði tekist að ná góðu jafnvægi í opinber fjármál, skuldir hins opinbera og ríkissjóðs höfðu lækkað verulega. Það hafði tekist að byggja upp stóran gjaldeyrisforða sem var að megninu til fjármagnaður innanlands.“

Á eftir að slípast til í áratugi

Ísland hafði auk þess ekki lent í þeirri stöðu sem sum Evrópuríkin lentu í, þar sem þau höfðu ákveðið að eyða stórum hluta síns svigrúms til að slaka á í peningastefnu með því að lækka vexti niður í nálægt núlli. „Það var mikið stefnusvigrúm varðandi hagstjórnina og það hafði tekist að þróa ný tæki fyrir Seðlabankann til að beita. Svo hafði tekist að endurreisa fjármálakerfið sem var vel fjármagnað með hátt eiginfjárhlutfall miðað við mörg önnur lönd og þar af leiðandi með mikinn viðnámsþrótt. Það er þessi stóra mynd sem ég er stoltastur af.“

Már segir að hann hafi einnig talið nauðsynlegt að Seðlabankinn fengi betri innsýn í stöðu fjármálastofnana en hann hafði fyrir bankahrun, en eftirlit með þeim lá þá hjá annarri stofnun, Fjármálaeftirlitinu. „Mér þótti það líka mikill hluti af þessum árangri sem við náðum að það tókst að sameina Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið samkvæmt lögum áður en ég hætti, þótt framkvæmdin sjálf hafi verið eftir. Þetta fyrirkomulag á svo eftir að slípast til í marga áratugi.“

Seðlabankinn sakaður um að vera í pólitík

Það voru ekki alltaf rólegheit í kringum Má. Hann var umdeildur seðlabankastjóri og um tíma leit út fyrir að hann myndi ekki verða endurskipaður í embættið árið 2014, þegar hann hafði setið í fimm ár. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, tilkynnti í febrúar 2014, þegar leið að því að Már hafði setið eitt ráðningartímabil, að staða seðlabankastjóra yrði auglýst laus til umsóknar, en seðlabankastjórar mega samkvæmt lögum sitja tvö slík tímabil. Þetta gerði Bjarni degi áður en ráðning Más hefði endurnýjast sjálfkrafa samkvæmt lögum.

Á þessum tíma var mikið tekist á um skuldaleiðréttingaráform þáverandi ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og opinber átök höfðu verið milli Seðlabanka Íslands og forsætisráðherra vegna þessa. Sigmundur Davíð ásakaði Seðlabankann meðal annars um að vera í pólitík.

Fimm árum síðar, þegar seinna tímabil Más var að renna sitt skeið, birtist Reykjavíkurbréf eftir Davíð Oddsson, fyrrverandi seðlabankastjóra, í Morgunblaðinu þar sem hann greindi frá því að Bjarni Bene­dikts­son hefði „bæði gefið til kynna og sagt ýmsum frá að hann ætl­­aði sér ekki að end­ur­skipa Má Guð­­munds­­son þegar að því kom árið 2014. Þegar að þessu dró var ráð­herr­ann staddur fyrir norð­an, senn­i­­lega á Siglu­­firði, og hringdi í menn og upp­­lýsti þá, og þar á meðal rit­­stjóra Morg­un­­blaðs­ins, að vegna óvænts flækju­­stigs sem upp hefði komið (sem ekki verður farið út í hér) hefði hann ekki náð að gera breyt­ing­­arnar sem hann hefði marg­­boð­að. Hann myndi því skipa Má og skip­un­­ar­bréfið gæfi til kynna að það yrði til fimm ára. Hins vegar væri sam­eig­in­­legur skiln­ingur á því að skip­unin stæði í hæsta lagi til eins árs.“

Merkilegt að ætla að skipta út „heimsklassa“ seðlabankastjóra

Már sat hins vegar í öll þau fimm ár sem hann var endurskipaður til. Aðspurður um þessa tíma segir Már að hann haldi að ýmislegt hafi gerst á bakvið tjöldin sem hafi ekki verið öllum sýnilegt. „Einn af þeim sem starfaði fyrir Alþjóðagjaldeyrissjóðinn að málefnum Íslands sagði í samtölum þegar þetta var að honum þætti það ansi merkilegt að lítið land með heimsklassa seðlabankastjóra væri að hugsa um að skipta honum út. Ég held þó að það sem hafi gert það að verkum að þetta varð ekki, var það að það gekk vel. Þegar þarna var komið var búið að undirbúa losun haftanna heilmikið. Það var búið að ná árangri og verðbólguvæntingar voru komnar í markmið. Ef það hefði verið bullandi verðbólga í landinu og bankinn ekki verið að ráða við ástandið þá hefði verið uppi önnur staða. Smám saman held ég að öllum hafi verið orðið ljóst að það væri í fyrsta lagi mikil áhætta tekin varðandi ferlið með losun fjármagnshafta ef þetta yrði gert. Í öðru lagi yrði ekki auðvelt að útskýra þetta alþjóðlega, og kannski líka inn á við. Ég skynjaði líka mjög mikinn stuðning héðan og þaðan. Þeir sem skrifuðu eitthvað, að lokum var bara ekkert hlustað á þá.“

Það þurfti líka að skapa trú á því hjá þjóðinni að það væri ekki verið að gera eitthvað sem væri of áhættusamt

Allskonar hlutir að leka í blöðin

Líkt og áður sagði var hart tekist á á þessum árum, bæði opinberlega en lika fyrir luktum dyrum, um hvernig ætti að stíga skref í átt að losun hafta. Þar voru sérstaklega fyrirferðamikil mál sem snertu uppgjör við slitabú föllnu bankanna. Um ári eftir að Már hætti kom út bókin „Afnám hafta – Samningar aldarinnar?“ eftir Sigurð Má Jónsson, fyrrverandi upplýsingafulltrúa ríkisstjórnarinnar. Þar var hlutur Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og helstu samstarfsmanna hans í ferlinu talaður mikið upp.

Í kjölfar útgáfu hennar átti sér stað ritdeila í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins sáluga um efnahagsmál og viðskipti, þar sem Már skrifaðist á við ýmsa sem vildu eigna sér heiðurinn af þeirri niðurstöðu sem varð í samningunum við kröfuhafa föllnu bankanna, en draga úr þætti Seðlabankans. Þetta var í eitt af sárafáum skiptum sem Már hefur tjáð sig á opinberum vettvangi síðan hann hætti sem seðlabankastjóri.

Már segir að hann ætli sér að síðar meir að skrifa um þessi mál. „Eitt af því sem kom opinberlega fram undir lok míns tímabils var að bankaráð Seðlabanka Íslands hafði áhuga á því eftir að það var búið að losa höft að það yrði tekin saman skýrsla um framkvæmdina. Ég var sammála því. Á þessu tímabili sem verið var að taka ákvarðanir um þessi skref var starfandi stýrinefnd um losun hafta, sem fjármála- og efnahagsráðherra stýrði, og ég ásamt öðru af mínu fólki og fólki úr ráðuneytum sátum í. Það var á þessum stað sem ákvarðanir um endanlegar tillögur, sem fóru svo sumar yfir á ríkisstjórnarborðið, voru teknar formlega. Ég er þeirrar skoðunar að það þurfi að fara yfir allt efni þessarar nefndar og birta allt sem hægt er að birta. Þá held ég nú að það verði að stroka yfir sumt sem sagt hefur verið. Það myndi líka styðja mínar frásagnir af þessu.

Þetta er auðvitað mjög margþætt saga. Sumt var opinbert, til dæmis það hvernig var tekið á aflandskrónunum og það ferli allt saman. En stefnumótunin, aðdragandinn að því sem var gert 2015 varðandi slitabúin, hann er miklu minna þekktur. Það voru að vísu á þessu tímabili að leka allskonar hlutir út í blöðin. Og ég man að við Bjarni vorum báðir mjög óánægðir með það. Eftir á að hyggja voru kannski einhverjir í ferlinu að tala fyrir ákveðinni leið sem þeir vildu fara. Sem að lokum var ekkert farin.“

Þurfti að hlutleysa greiðslujöfnuð

Hann segir að fréttir hafi birst í fjölmiðlum um að staðan gagnvart kröfuhöfunum yrði leyst með því að allar eignir slitabúanna yrðu teknar inn í landið og síðar yrði lagður á allsherjar útgönguskattur á þær. „Ég veit nú ekki hvenær höftin hefðu losnað ef þetta hefði verið gert Það hefði væntanlega verið einhver áratugur eða meira sem hefði liðið með miklum lagaflækjum. Og þetta var ekki sú leið sem var farin. Ég var alla tíð mjög skeptískur á þessa leið.“

Honum hafi þótt mikilvægt að leysa úr stöðunni gagnvart slitabúunum og þeim aflandskrónum sem voru fastar innan íslensku haftanna, samtals mörg hundruð milljarðar króna, áður en opnað yrði fyrir að hleypa innlendum aðilum út úr höftunum, sem var á endanum ekki gert fyrr en vorið 2017. Annars hefði skapast hætta á að innlendu aðilarnir myndu reyna að flýta sér út áður en hinir fóru. „Það yrði kapphlaup út um dyrnar og þá myndi myndast óstöðugleiki aftur. Það var auðvitað svolítið útstreymi en það var ekkert sem ógnaði fjármálastöðugleika. Þess vegna taldi ég alla tíð að það sem þyrfti að gera varðandi slitabúin væri að hlutleysa greiðslujöfnuð. Það yrði að gerast með því að innlendar eignir yrðu annað hvort eftir eða það væri komið með eitthvað annað mótvægi af hálfu þessara aðila, varðandi slíkt útstreymi. Og það var í rauninni það sem var gert.“

Hef passað upp á að vinna ekki eins mikið

Már segir að þegar hann hafi hætt í Seðlabankanum hafi hann haft áhuga á að geta verið í mismunandi verkefnum, og ekki í fastri vinnu. Hann verður 69 ára eftir nokkra daga. „Síst af öllu vildi ég gera eins og margir gera sem fara úr tímabundnu starfi og banka upp á hjá stjórnvöldum og biðja um annað starf.“

Hann hafði mikinn áhuga á því að skoða spurninguna um vandann sem skapast við það að varðveita stöðugleika í litlum opnum þjóðarbúum sem vilja vera fjármálalega samþætt við umheiminn. „Ég hafði skrifað um þetta þegar ég var hjá Alþjóðagreiðslubankanum og birti um þetta grein. En svo velti ég þessu líka mikið fyrir mér líka í starfi seðlabankastjóra öðru hvoru af því að þetta var auðvitað ein af þeim spurningum sem leituðu á. Hvernig ætti að haga málum eftir að við losuðum fjármagnshöftin þegar við værum aftur komin á ólgusjó alþjóðlegra fjármagnshreyfinga sem geta verið jákvæðar en geta stundum valdið óstöðugleika. Og jafnvel hlaðið upp mikilli fjármálalegri áhættu innan lítilla landa.“

Þetta sótti mikið á Má að geta kafað í þetta verkefni auk þess sem hann langaði að komast í alþjóðlegar aðstæður án þess að vera í fullri vinnu. „Til að gera langa sögu stutta þá varð það úr að fyrir meðal annars fyrir atbeina nokkurra seðlabankastjóra í Asíu að ég fer til samtaka seðlabanka Suðaustur-Asíu (SEACEN) í Kuala Lumpur í Malasíu. Þetta áttu að vera fyrstu fjórir mánuðir ársins 2020 til að byrja með. Í aðdragandanum heimsótti ég Alþjóðagjaldeyrissjóðinn í desember 2019 og átti samtöl við þá sem voru að hugsa um þessi mál þar. Úr varð að þeir vildu fá mig til að koma og fara yfir þessi mál hjá sér í júní 2020. En í millitíðinni var ég búinn að semja við seðlabankann í Kansas City um að vera þar „visiting scholar“ í maímánuði. Hugsun mín var sú að þetta myndi búa til svona snjóbolta fyrir framhald. En svo vitum við hvað gerðist. Það kom hér Covid.“

Már og Elsa S. Þorkelsdóttir, eiginkona hans, höfðu átt fína dvöl í Malasíu í byrjun árs 2020 en vegna faraldursins þurftu þau að flýja landið í skyndi í lok mars. „Það munaði tveimur dögum að við hefðum lokast inni.“

Allar áætlanir breyttust og þau komu heim til Íslands. Allt fór í hægagang. „Það varð aldrei af þessari dvöl hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, það lokaði allt og svo líður tíminn. Hlutir detta upp fyrir.“ Við komumst síðan aftur til Malasíu sl. vetur og ég lauk verkefninu sem væntanlegt er í bók á næstu vikum.“

Fyrst hann var orðinn strand á Íslandi fór Már að vinna verkefni fyrir íslensk stjórnvöld, meðal annars skýrslu um efnahagsleg áhrif kórónuveirunnar. Síðar skrifaði hann skýrslur um samspil lífeyrissjóða og þjóðarbúsins og spurninguna um hver erlend fjárfesting íslenskra lífeyrissjóða ætti að vera. Þá skipulagði hann alþjóðlega ráðstefnu á Íslandi s.l. haust og nú er að koma út bók hjá alþjóðlegu forlagi sem hann og Gylfi Zöega og Bob Aliber ritstýra. „Þetta er nú svona það helsta sem ég hef verið með. Þannig að þetta hefur nú verið ansi gefandi. En ég hef líka passað það að vinna ekki eins mikið og ég gerði og þegar ég var seðlabankastjóri. Það var ekki sjálfbært. Og njóta líka lífsins í bland.“

Segir Sigmund Davíð hafa stutt leiðina

Már segir að frá haustmánuðum ársins 2014 og þangað til að stöðugleikasamkomulag náðist við kröfuhafa föllnu bankanna, um að þeir létu innlendar eignir upp á mörg hundruð milljarða króna renna til ríkissjóðs árið eftir, hafi mikil vinna átt sér stað í Seðlabankanum til að undirbúa málið. Hann minnir á að þegar svokallað sólarlagsákvæði, sem í fólst að höft á slitabú föllnu bank­anna höfðu fyr­ir­fram ákveð­inn líf­tíma út árið 2013, var afnumið og eignir þeirra þar með festar inni í eins langan tíma og Ísland taldi nauðsynlegt, þá hafi íslenska ríkið verið komið með öll tök á stöðunni. „Við bjuggum til ítarlega greinargerð um þessa lausn. Á borðinu hafði líka verið útgönguskattur,sem hefði þá einnig náð til erlendra eigna slitabúanna, aflandskróna og innlendra aðila. Það tókst að sannfæra þá aðila sem máli skipti um að fara ekki þá leið heldur þá sem farin var. Sigmundur Davíð, sem þá var forsætisráðherra, sá held ég eftir að búið var að fara yfir málið að útgönguskattsleiðin gæti tekið langan tíma og verið áhættusöm. Hann studdi því leiðina en bætti við stöðugleikaskattinum. Löggjöfin um stöðugleikaskattinn skapaði svo rammann utan um framkvæmdina á greiðslujafnaðarhlutleysi losunar hafta á slitabúin.“

Áætlun Íslendinga í þeirri stöðu sem landið var komið í hafi verið einhverjar best undirbúnu ákvarðanir í Íslandssögunni og heppnast mjög vel. Það sé verið að kenna íslenska sýnidæmið í viðskiptaháskólum víða um heim. „Sumir segja að þetta hafi tekið allt of langan tíma og niðurstaðan hafi verið komin þarna fyrr. Ég er ekki sammála því, vegna þess að þetta var aðgerð af því tagi að hún þurfti að vera tekin í sem mestri samstöðu, með aðkomu stjórnmálamanna. Það þurfti lagasetningu á Alþingi. Ég er mjög stoltur af því að varðandi allar þessar lagabreytingar, fyrst varðandi slitabúin og síðan varðandi aflandskrónurnar, að þær voru samþykktar í þinginu nánast með atkvæðum allra. Það styrkti stöðuna út á við. Það þurfti líka að skapa trú á því hjá þjóðinni að það væri ekki verið að gera eitthvað sem væri of áhættusamt. Það gekk eftir.“

Vill láta birta fundargerðir opinberlega

Sumar þeirra aðferða sem Seðlabankinn beitti til að takast á við greiðslujöfnunarvandann og eftirköst bankahrunsins voru afar umdeildar og Seðlabankinn hefur ekki viljað afhenda upplýsingar um þær með vísun til trúnaðar. Á meðal verkefna sem þetta á við eru fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands, Eignasafn Seðlabanka Íslands (ESÍ) og stöðugleikasamningarnir svokölluðu, sem gerðir voru þegar íslensk stjórnvöld náðu samkomulagi við kröfuhafa föllnu bankanna um hvernig ætti að skipta á milli sín eftirstandandi eignum þeirra. Fjölmiðlar sem óskað hafa upplýsinga um hverjir nýttu sér fjárfestingarleiðina, sem innihélt virðisaukningu á þann gjaldeyri sem skipt var í krónur; upplýsinga um þær eignir sem seldar voru úr ESÍ; og eftir því að fá að sjá hvað var í stöðugleikasamningunum, hafa lent á þagnarvegg.

Það sem laut að stefnumótun varðandi losun fjármagnshafta var á forræði áðurnefndrar stýrinefndar um losun fjármagnshafta. Már segir að hann hafi undanfarið verið að tala fyrir

því því að fundargerðir stýrinefndarinnar verði birtar opinberlega í eins miklum mæli og mögulegt er. „Mig langaði alltaf að birta miklu meira en hægt var að birta. En ég hlýddi lögfræðingunum í Seðlabankanum varðandi það. Það má ekki ganga í berhögg við lögin og birta eitthvað sem lýtur að málefnum einstakra persóna eða fyrirtækja. Þar er lína sem löggjafinn hefur fyrirskipað að sé til. Við viljum vita allt, það er fullt af hlutum sem mig langar að vita um sem ég fæ ekkert að vita um, ég verð bara að sætta mig við það.

Það ætti hins vegar að vera auðveldara að birta a.m.k. hluta efnis og fundargerða stýrinefndarinnar. Þar er að stórum hluta til verið að fjalla um almenna stefnumótun en ekki mál einstakra aðila sem lúta bankaleynd.“

Leiðin sem Ásgeir gagnrýndi

Fjár­­­­­­­­­­­­­fest­ingar­­­­­­­leið Seðla­­­­­­­banka Íslands, sem einnig var nefnd 50/50 leið­in, var umdeild aðferð sem Seðla­­­­­­­bank­inn beitti á árunum 2012 til 2015 til minnka hina svoköll­uðu snjó­­­­­­­hengju, krón­u­­­­­­­eignir erlendra aðila sem fastar voru innan fjár­­­­­­­­­­­­­magns­hafta og gerðu stjórn­­­­­­­völdum erfitt fyrir að vinna að frek­­­­­­­ari losun þeirra hafta. Sam­­­­­­­kvæmt henni gátu þeir sem sam­­­­­­­þykktu að koma með gjald­eyri til Íslands skipt þeim í íslenskar krónur á hag­­­­­­­stæð­­­­­­­ara gengi en ef þeir myndu gera það í næsta banka.

Þeir sem tóku á sig „tap­ið“ í þessum við­­­­­­­skiptum voru aðilar sem áttu krónur fastar innan hafta en vildu kom­­­­­­­ast út úr íslenska hag­­­­­­­kerf­inu með þær. Þeir sem „græddu“ voru aðilar sem áttu erlendan gjald­eyri utan hafta en voru til­­­­­­­­­­­­­búnir að koma til Íslands og fjár­­­­­­­­­­­­­festa fyrir hann. Seðla­­­­­­­bank­inn var síðan í hlut­verki milli­­­­­­­­­­­­­göng­u­að­ila sem gerði við­­­­­­­skiptin mög­u­­­­­­­leg.

Eftirmaður Más í stóli seðlabankastjóra, Ásgeir Jónsson, gagnrýndi fjárfestingarleiðina harðlega í viðtali við Stundina árið 2021. „„Þetta myndi aldrei ger­ast á minni vakt. Aldrei. Ég er sam­mála, það hefði mátt fylgj­ast mun betur með því hvaðan pen­ing­arnir komu. Ég myndi aldrei sam­þykkja svona á minni vakt. Þessi gjald­eyr­is­út­boð voru að ein­hverju leyti neyð­ar­ráð­stöfun á sínum tíma. Ég vil ekki sjá það ger­ast aftur að hér á landi verði tvö­faldur gjald­eyr­is­mark­aður með þessum hætt­i.“

Árin eftir að fjárfestingarleiðin var starfrækt komust peningaþvættisvarnir Íslendinga, eða skortur á þeim, í sviðsljósið. Komið hefur í ljós að þeir sem áttu að fylgjast með að þeir peningar sem fluttir voru inn til landsins í gegnum leiðina, viðskiptabankarnir íslensku, væru ekki „skítugir“, voru ekki að kanna uppruna þeirra sem neinu nam. Ísland endaði á þessum tíma á svokölluðum gráa lista alþjóðlegu samtakanna FATF vegna ónógra varna gegn peningaþvætti hérlendis.

Mistök sem mögnuðust síðan upp vegna óheppni

Síðustu ár hafa markast af röð efnahagslegra áfalla, og viðbragða við þeim. Már segir að fyrsta spurningin sem menn verði að spyrja sig þegar þeir meta viðbrögð við efnahagslegu áfalli sé hvert áfallið sé. „Er það eftirspurnaráfall og er það tímabundið? Ef svo er þá er formúlan nokkuð ljós. Við kunnum þau viðbrögð vel. Þá er slakað tímabundið á í peningamálum og ríkisfjármálum og svo hert á um leið og slakinn hverfur og hagkerfið fer að nálgast fulla atvinnu. Ef áfallið er á framboðshliðinni þá er þetta flóknara. Ef það er tímabundið þá geturðu mildað áhrifin með til dæmis skuldsetningu og þarft ekki að fara í varanlega aðlögun. Síðan er viðfangsefnið alltaf, hvert sem áfallið er, að passa upp á að fjármálakerfið fari ekki að hökta. Ef það gerist kemur til kasta seðlabanka, sem eru lánveitenda til þrautavara.“

Seðlabankar heimsins hafi sýnt það í fjármálakreppunni 2007- 2009, og aftur í kórónuveirufaraldrinum að þeir hafa mikla getu til að standa undir því hlutverki. Ef því hefði ekki verið beitt af fullum þunga í þeirri kreppu eru margir á þeirri skoðun að kerfið hefði einfaldlega hrunið.

Ekki hægt að ýta á takka til að setja allt í gang aftur

Í kórónuveirufaraldrinum var greiningin á eðli áfallsins hins vegar ekki einföld, að mati Más. „Samlíking Ben Bernanke [þáverandi seðlabankastjóra Bandaríkjanna], þar sem hann líkti ástandinu við snjóstorm þar sem allir þurfa að vera heima, landsframleiðslan dettur niður úr öllu valdi, það var enginn að fara út í búð og allt var stopp, var kannski 60 til 70 prósent rétt. Í slíku ástandi er bara beðið eftir því að stormurinn gangi niður og fólki sem lendir í vandræðum út af honum hjálpað. Auðvitað voru samt ákveðnar líkur á því að þetta væri ekki alveg þannig. Faraldurinn sýndi það að hann hafði tilhneigingu að koma í bylgjum og gæti dregist á langinn. Það gæti leitt til þess að það yrði skaði á fólki og framleiðslutækjum sem gerðu það að verkum að það væri ekki bara hægt að ýta á takka og allt færi gang á sama stað og áður, heldur væri allt komið á lægra stig framleiðslugetu. Þessu þurfti að bregðast við.“

Síðar hafi reyndar komið í ljós að kórónuveirukreppan var að hluta V-laga, jafnt á Íslandi sem og annarsstaðar. Fólk hafi einfaldlega lært að halda athafnaseminni uppi með allskonar aðgerðum þrátt fyrir nýjar bylgjur af smitum.

„Það hefði kannski átt að fara mýkra í þetta“

Már segir að það sem hafi verið réttilega gert hérlendis á faraldurstímum var að stöðva streymi ferðamanna til landsins, sem voru reyndar hvort eð er ekki að koma, og ná með því upp innlendri eftirspurn. Til skamms tíma skilaði það betri niðurstöðu fyrir heildareftirspurn í hagkerfinu og betra atvinnustigi. Til viðbótar kom svo að Íslendingar voru fyrir kórónukreppuna að eyða um 200 milljörðum króna utan landsteinanna á ári sem ekki var lengur mögulegt meðan mest gekk á. Þeir fjármunir fóru þá frekar í sparnað eða innlenda neyslu.

Mistökin sem stórir seðlabankar í heiminum gerðu, og sá íslenski að einhverju leyti líka, var að nota í of miklum mæli tæki sem örva fyrst og fremst almenna eftirspurn. Það hafði t.d. mikil áhrif á eignaverð til hækkunar. „Það hefði kannski átt að fara mýkra í þetta. En þessi mistök voru að mörgu leyti skiljanleg og gerð mjög víða, sérstaklega í þróuðu ríkjunum sem höfðu miklu meiri getu til að koma með slíkan stuðning, að slaka á aðhaldi og prenta peninga. Þessar aðgerðir sitja síðan eftir í kerfinu, og eiga auðvitað þátt í þessari auknu verðbólgu sem fylgdi á eftir.“

Svo hafi það gerst í framhaldinu af kórónuveirufaraldrinum, og vegna stríðsins í Úkraínu, að aðstæður hafi farið að breytast, meðal annars með mikilli hækkun á orkuverði. Aðstæður sem gerðu það mögulegt að vera með mjög lága vexti samhliða lágri verðbólgu á vörum og þjónustu, þær voru allt í einu ekki lengur fyrir hendi. „Það er einn af drifkröftunum á bakvið verðbólguna núna, ásamt því að peningastefnan var við þessar nýju aðstæður orðin allt of slök til að varðveita verðstöðugleika.“

Stóru seðlabankarnir í heiminum, sá evrópski og bandaríski, hafi í kjölfarið gert þau mistök að takast á við nýjan vanda líkt og hann væri líka tímabundinn, eins og sá sem skapaðist í faraldrinum. „Þetta ástand hefur hins vegar reynst miklu varanlegra og núna hefur skapast sú hætta, sem þegar hefur að einhverju leyti raungerst, að þetta fari að leka út í langtímaverðbólguvæntingar. Þá er erfiðara að koma verðbólgunni niður aftur.“

Óumflýjanlegt að gera mistök við hagstjórn

Már segist vera sammála greiningu hagfræðingsins Milton Friedman um að viðvarandi verðbólga sé alltaf á endanum peningalegt fyrirbæri, sem þarf hins vegar ekki að þýða það að peningamagn ráði för. „Með því að fylgja örvandi peningastefnu er hægt að búa til verðbólgu. Þær aðstæður sem voru uppi fyrir kórónuveirufaraldurinn, á þessu langa tímabili alþjóðavæðingar þar sem vinnuafl var að flæða frjálst milli landa, þá var innlend framleiðslugeta að miklu leyti tekin úr sambandi. Það skorti síður vinnuafl. Annað hvort var vara pöntuð erlendis frá eða vinnuaflið flutt inn. Síðan fer þetta kerfi allt að gliðna og við bætast geopólitísk átök sem gera það að verkum að lönd fara að hugsa meira um þjóðaröryggi og slíka hluti. Alþjóðavæðingin fer að ganga til baka og það gerist á sama tíma og búið er að gefa ansi mikið eftir í peningamálum. Einhver notaði það orðatiltæki um þessa þróun að þetta hafi verið mistök sem mögnuðust síðan upp vegna óheppni. Mistökin voru slaki í peningamálum, sem hefði verið hægt að taka í burtu hraðar og minnka þannig verðbólgukúfinn. Óheppnin var síðan að þetta gerðist á sama tíma og forsendur fyrir lágverðbólguskeiði um allan heim voru að breytast.“

Hann segir þó rétt að taka fram að það verði alltaf gerð mistök við hagstjórn. Það sé óumflýjanlegt þegar verið sé að vinna í rauntíma og viðkomandi veit ekki hvernig aðstæðurnar, sem verið er að bregðast við, eru nákvæmlega fyrr en kannski tveimur árum seinna þegar öll gögn liggja fyrir. „Þú ert að vinna við skilyrði óvissu og það verða alltaf einhver mistök. Kosturinn við peningastefnu að það eru fundir á nokkurra mánaða fresti, og ef þú gerir mistök á einum fundi þá er hægt að leiðrétta það á þeim næsta fundi eða þarnæsta.“

Að leiða hjá sér hlutina skynsamlega

Már bendir á að það sé til kenning í hagfræði sem hverfist um að leiða hlutina hjá sér skynsamlega. Hún sé mikilvæg þegar verið sé að ræða verðbólguvæntingar. „Þegar við vorum búin að vera góðan tíma inni í þessu ástandi lágra vaxta og lágrar verðbólgu þá fór fólk að hætta að veita einstökum verðbreytingum athygli. Það gaf sér að þetta myndi bara sveiflast eitthvað til og frá án þess að valda of hárri verðbólgu og það hefði margt betra við tímann að gera en að pæla í því. Þegar öll þessi áföll sem hafa raungerst á undanförnum árum fóru að ríða yfir, og það kemur verðbólguskellur sem verður svo viðvarandi, þá fer fólk að skynja að ástandið er orðið breytt. Til dæmis á því að það er orðinn til skortur á vinnuafli, eins og er til að mynda í Bretlandi núna. Þá kemur þrýstingur á að laun hækki, sem keyrir enn upp verðbólguna.“

Hann telur að sennilega séu allir nú búnir að gera sér grein fyrir því að þetta er ekki tímabundið ástand. Seðlabankar heimsins hafi enda tekið hressilega við sér og hækkað vexti skarpt. Staðan sé þó þannig víða að þótt búið sé að hækka nafnvexti mikið þá eru raunvextir enn neikvæðir. „Þá ertu ennþá á bensíngjöfinni, bara aðeins minna heldur en áður. En ég hef grun um að snúningspunktarnir séu að nálgast. Verðbólgan í Bandaríkjunum er til að mynda byrjuð að lækka.“

Mar_Gud21275
Mynd: Hari

Varnirnar voru ekki nógu góðar

Aðspurður um þessa gagnrýni segir Már að gjaldeyrismarkaður verði alltaf tvískiptur þegar almenn fjármagnshöft eru sett. „Það geta komið upp þær aðstæður að þú þarft að setja upp höft, og ég ætla að vona það að ef þær aðstæður koma upp í framtíðinni að þá heykist fólk ekki á því vegna þess að það er mikilvægara að verja hagsmuni þjóðarinnar eða þess fólks sem býr hérna heldur en eitthvað heilagt prinsipp um að eitthvað megi aldrei gera.“

„Almennt held ég að gagnrýnin á fjárfestingarleiðina sé að hluta til byggð á misskilningi. Seðlabankinn hafði ekki og hefur ekki lagalegt umboð til þess að gerast eftirlitsaðili varðandi peningaþvætti. En svo kemur auðvitað í ljós, eins og við vitum núna, að vörnum varðandi peningaþvætti var ábótavant. Þetta varð töluvert mikið mál á síðustu árunum í minni seðlabankastjóratíð. Seðlabankinn var að þrýsta á um það að þetta yrði lagað. Að hluta til út af alþjóðlegum þrýstingi, þetta var rætt töluvert mikið á seðlabankastjórafundum, til dæmis á norrænum seðlabankastjórafundum sem ég var á, og líka út af því að það sem hafði komið upp í Eistlandi varðandi danskan banka; Bandaríkin önduðu ofan í hálsmálið á Norðurlöndunum, þar með talið Íslandi. Og það kemur svo í ljós að þetta var ekki nægilega gott.“

Seðlabankinn hafi sett töluvert púður í að finna leiðir til að þétta peningaþvættisvarnirnar og lögfræðingur þaðan hafði að lokum farið tímabundið yfir í dómsmálaráðuneytið til að hjálpa til við að tjasla upp á löggjöfina og framkvæmdina um það og eftirlitið með því.

„Ég held að þetta hafi verið besta leiðin“

Már segir það líka misskilning að fjárfestingarleiðin hafi gert peningaþvætti auðveldara. „Besta leiðin fyrir þá sem vildu notfæra sér lélegar varnir varðandi peningaþvætti á Íslandi til að forðast eftirlit og komast undir radarinn var að fara bara beint í gegnum opinbera gjaldeyrismarkaðinn. Með fjárfestingarleiðinni var öllum gögnum viðhaldið og þau fóru öll til Skattsins. Þannig að Skatturinn fékk miklu betri yfirsýn yfir möguleg skattundanskot og peningaþvætti gagnvart þeim aðilum sem voru að koma inn heldur en hann hefði fengið ef þeir hefðu bara farið beint inn hina leiðina.“

Stærstur hluti þess fjármagns sem flæddi inn til Íslands í gegnum leiðina kom hins vegar ekki frá innlendum lögaðilum, heldur erlendum. Már segir að yfir þeim hafi ekki verið nein lögsaga auk þess sem fjárfestingarleiðin var hönnuð til að laða að erlenda fjárfestingu. Seðlabankinn vildi beinlínis að erlendir fjárfestar kæmu inn. „Þeir sem gagnrýna fjárfestingarleiðina hvað þetta varðar, þeir hafa að mínu mati ekkert bent á hvaða leið á þá að fara. Og ég held að þetta hafi verið besta leiðin, vegna þess að þetta var leiðin sem gerði það að verkum að það var hægt að gera þetta án lögþvingunar sem hefði ekki staðist alþjóðalög og hefði skilað okkur í vandræði.“

Næsta grein