Peningastefnunefnd ákvað á vaxtaákvörðunarfundi sínum í ágúst 2023 að hækka vexti um 0,5 prósentur. Við það hækkuðu meginvextir bankans í 9,25%. Þótt vísbendingar væru um að hægt hafi á vexti innlendrar eftirspurnar, sem ætti að draga úr verðbólguþrýstingi, taldi nefndin samt sem áður nauðsynlegt að herða taumhald peningastefnunnar. Áfram er spenna í þjóðarbúinu, sérstaklega á vinnumarkaði og verðbólguvæntingar eru vel yfir 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans.
Verðbólguvæntingar
Íslenska hagkerfið tók fljótt við sér í kjölfar heimsfaraldursins. Innlend eftirspurn jókst hratt sem ásamt alþjóðlegum áhrifum leiddi til aukinnar verðbólgu á Íslandi. Með hækkandi verðbólgumælingum jukust bæði skammtíma- og langtímaverðbólguvæntingar.
Kjölfesta verðbólguvæntinga er jafnan veikari í löndum eins og Íslandi sem hafa sögu um mikla verðbólgu. Verðbólguvæntingar geta þá hækkað hratt þegar verðbólga eykst. Hækkun verðbólguvæntinga getur haft í för með sér launahækkanir umfram langtíma framleiðnivöxt og að fyrirtæki hækki verð þrátt fyrir að verða ekki fyrir beinum kostnaðarauka. Kröftug innlend eftirspurn og lítið atvinnuleysi ýta undir þá framvindu. Háar verðbólguvæntingar geta því leitt til svokallaðra seinni umferðar áhrifa og afleiðingin er meiri verðbólga, sem rýrir virði peninga og minnkar kaupmátt launa. Mikilvægt er fyrir seðlabanka að bregðast við þessu ástandi með hækkun vaxta.
Þar sem Ísland á sér sögu um mikla verðbólgu, þarf Seðlabanki Íslands að bregðast fyrr við verðbólguþrýstingi með því að hækka vexti, hækka vexti meira og halda vöxtum á hærra stigi lengur en seðlabankar í löndum sem hafa sögu um minni verðbólgu. Til skemmri tíma litið geta áhrifin á efnahagsumsvif verið meiri en hefði þurft ef kjölfesta verðbólguvæntinga væri sterk …